Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.10.2021, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.10.2021, Blaðsíða 12
E in ástsælasta leikkona þjóðarinnar, Kristbjörg Kjeld, býður blaða- manni inn í fallega íbúð sína í Skuggahverfinu og við fáum okkur sæti í huggulegu horni. Í hillum á vegg má sjá verðlaunagripi í röðum en á löngum ferli hefur Kristbjörg sópað til sín verðlaunum á sviði leiklistar. Í hillunni er líka falleg ljósmynd af eiginmanni hennar heitnum, leikritaskáldinu Guðmundi Steinssyni, sem lést allt of ungur árið 1996. Kristbjörg ber aldurinn afskaplega vel; hún er falleg og brosmild, hæglát og hógvær. Sjarmerandi brosið nær til augnanna. Hún byrjar á því að segja að sér þyki aldrei þægi- legt að fara í viðtöl, en hún sé samt til í spjalla um lífið og listina og þá aðallega ástríðuna fyr- ir leikhúsinu. Bíómyndir heillandi heimur Kristbjörg er fædd í júní árið 1935 og er því 86 ára gömul. Hún segist vera heilsuhraust og er þakklát fyrir það. „Ég er heppin, guð er góður við mann,“ seg- ir Kristbjörg og rifjar upp æskuna en hún ólst upp í Innri-Njarðvík. „Þarna voru þá bara nokkur hús. Það var mjög mikið líf og fjör á heimilinu og frjálsræði. Það var gott að alast upp þarna. Mamma var í kirkjukórnum og það var farið í kirkju á sunnudögum. Svo drukkum við alltaf messu- kaffi hjá Jórunni ömmusystur minni í húsinu við hlið kirkjunnar, en húsið heitir Njarðvík,“ segir hún en Kristbjörg er ein sex systkina; tvö eru á lífi í dag. Fórstu sem barn í leikhús eða bíó? „Nei, ekki til í dæminu, ég sá ekki bíó fyrr en ég var níu ára. Mig dreymdi ekki um að verða leikkona en fannst þetta heillandi heim- ur. Ég var þá strax að máta mig við hlutverk og settum við krakkarnir upp leikrit heima eins og gengur og gerist.“ Kristbjörg þurfti snemma að standa á eigin fótum. „Ég fór að heiman strax um fermingu því ég fór til Hafnarfjarðar í Flensborg sem var gagnfræðaskóli. Það var svolítið basl en ég leigði þá eitt lítið herbergi með frænku minni og seinna systur minni. Þetta þótti sjálfsagt á þessum árum. Skólinn var þrjú ár og svo átti maður bara að fara að vinna.“ Lék heimsdömu fimmtán ára Vinkona Kristbjargar var á þessum tíma hvísl- ari í áhugamannaleikhúsi í Hafnarfirði og vakti það forvitni og áhuga hjá hinni ungu stúlku. „Það kitlaði mig eitthvað leikhúslífið og ég spurði hana hvort ég gæti kannski fengið að vera með í einhverju. Svo forfallaðist leikkona þegar vika var í frumsýningu og ég var beðin að leika það hlutverk, þá fimmtán ára. Ég hentist inn í hlutverkið, sem var ekki mjög stórt en þó ekki lítið. Ég lék heimsdömu í Aumingja Hönnu,“ segir Kristbjörg og segist hafa notið sín vel á sviðinu. „Þetta heillaði mig alveg strax,“ segir Krist- björg og bætir við að sviðsskrekkur hafi fylgt sér alla tíð. „Ég hef alltaf verið mjög nervös að stíga á svið og er það enn þann daginn í dag. Það er partur af þessu og bara gaman,“ segir Krist- björg en bætir við að um leið og hún er komin á svið og farin að leika, hverfur skrekkurinn. Á þessum unglingsárum þegar Kristbjörg var að stíga sín fyrstu spor á sviði kynntist hún leikaranum Flosa Ólafssyni heitnum. „Hann lék með mér í leikriti sem hét Stans- Aðalbraut-Stopp. Þar kynntumst við en hann var þá kominn inn í Leiklistarskóla Þjóðleik- hússins. Þá var sá skóli fyrir mér þvílíkur fjar- lægur draumur og mér kom ekki til hugar að ég ætti heima þar. En Flosi var alltaf að spyrja hvort ég væri ekki búin að sækja um og það endaði með að hann hringdi í Ævar Kvaran og bað hann að hjálpa mér með inntökuna. Ég hefði aldrei haft burði í það sjálf. Ég komst svo inn, en þetta var þá kvöldskóli. Ég vann til fimm og þaut svo upp í skólann og svo var æft á kvöldin og um helgar,“ segir Kristbjörg en hún var þá orðin rúmlega tvítug þegar hún hóf námið. „Ég var þá búin að eignast son, Jens Guð- jón, sem ég átti nítján ára,“ segir hún, en sam- bandið við föðurinn entist ekki og var Krist- björg því einstæð móðir kornung. „Ég átti gott bakland og Jens var mikið hjá foreldrum mínum í Njarðvík þegar sem mest var að gera í skólanum.“ Alltaf hægt að gera betur Kristbjörg naut sín vel í skólanum og á þessum tímum voru nemendur gjarnan notaðir sem „Mig langar enn að verða betri og betri. Það er það sem gefur þessu gildi. Ég fæ ekkert leiða á þessu, þó það komi tímabil sem mað- ur er þreyttur. En ég fæ ekki leiða á þessu,“ segir leikkonan ástsæla, Kristbjörg Kjeld. Morgunblaðið/Ásdís Mig langar enn að verða betri Kristbjörg Kjeld hefur staðið á sviði í hartnær sjötíu ár, en fyrsta hlutverkið fékk hún fimmtán ára. Hún er enn að leika, komin á níræðisaldur, og er ekkert á leiðinni að hætta. Hún segist enn vilja verða betri leikkona. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Kristbjörg Kjeld og Guð- mundur Steinsson á góðri stundu. Guð- mundur lést árið 1996. VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17.10. 2021

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.