Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.11.2021, Side 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.11. 2021
ERLENT
Buenos Aires og Napolí. AFP. |
K
nattspyrnugoðsagnarinnar
Diegos Armandos Maradona
var minnst víða um heim á
fimmtudag í tilefni af því að eitt ár
var þá liðið frá andláti hans. Margir
eru þeirrar hyggju að hann hafi verið
besti knattspyrnumaður allra tíma og
í heimalandi sínu Argentínu er hann
elskaður og dáður þrátt fyrir galla
sína – og jafnvel vegna þeirra.
Í deildarleikjum í Argentínu var
mínútu þögn og röðuðu leikmenn sér
upp til að mynda töluna „10“ sem
Maradona bar á bakinu. Þá voru
haldnar sérstakar guðsþjónustur,
þar á meðal í fátækrahverfinu þar
sem hann ólst upp.
„Við munum sakna þín“
„Við munum sakna þín það sem eftir
er lífs okkar,“ sagði í yfirlýsingu
Knattspyrnusambands Argentínu og
fylgdi myndband um líf mannsins,
sem kallaður var „Pibe de Oro“ eða
gulldrengurinn, mörkin sem hann
skoraði og hina mörgu verðlaunabik-
ara sem hann hlaut.
Maradona lést af hjartaáfalli fyrir
ári aðeins sextugur að aldri, nokkrum
vikum eftir að hann fór í skurðaðgerð
á heila vegna blóðtappa.
Fótboltastjarnan, sem áður lék
með Boca Juniors, Barselóna og Na-
polí barðist árum saman við kók-
aínfíkn og áfengissýki. Þegar hann
lést voru lifur, nýru og hjarta farin að
gefa sig.
Andlátið vakti mikla sorg víða um
heim og tugir þúsunda manna gengu
fram hjá kistu hans, sem lá í þrjá
daga sveipuð argentínska fánanum í
forsetahöllinni í Buenos Aires. Var
lýst yfir þjóðarsorg á meðan.
Maradona kann að vera allur, en í
Argentínu virðist hann vera alls stað-
ar. Hvarvetna eru goðumlíkar mynd-
ir af honum málaðar á veggi, í sjón-
varpi eru þáttaraðir um líf hans og
má meira að segja finna trúarbrögð,
sem bera nafn hans.
Mörkin tvö, sem hann skoraði í
átta liða úrslitum gegn Englandi á
HM 1986 og tryggðu Argentínu sigur
aðeins fjórum árum eftir Falklands-
eyjastríðið, gerðu Maradona sam-
stundis að hetju.
Í Napolí þar sem Maradona er ekki
síður á stalli en í Buenos Aires var af-
hjúpuð stytta af honum að við-
stöddum syni knattspyrnumannsins,
Diego Maradona Junior, fyrir utan
leikvang borgarliðsins. Leikvangur-
inn var nefndur eftir Maradona hon-
um til heiðurs eftir andlátið.
Myndhöggvarinn Domenico Sepe
gerði styttuna. „Verkið kom til af
persónulegri þörf,“ sagði listamaður-
inn í samtali við AFP á verkstæði
sínu með styttuna fyrir framan sig.
„Þegar tilkynnt var um andlát hans
hvarf eitthvað úr daglegu lífi mínu.
Sem Napolíbúi, stuðningsmaður
Napolí og myndhöggvari ákvað ég að
ég þyrfti að heiðra hann með verki
sem skilar honum inn í eilífðina.“
Sepe vinnur í klassískum stíl og
vildi stilla Maradona upp nánast sem
grískum guði. Styttan sýnir Mara-
dona þar sem hann horfir einbeittur
með tíuna á bakinu, stæltir leggirnir
við að springa, með boltann við fætur
sér þar sem hann geysist upp völl í
laginu eins og Argentína.
Annarri styttu verður komið fyrir
inni á vellinum í dag, sunnudag, fyrir
leik Napolí við Lazio í efstu deild. Þá
verður liðið á ný í hinni frægu
„Diego-treyju“.
Napolí eru um þessar mundir efst-
ir í ítölsku deildinni, Serie A, og það
væri við hæfi að heiðra Maradona
með því að vinna titilinn. Það hefur
liðið aðeins gert tvisvar áður, árin
1987 og 1990, þegar Maradona var á
hátindi sínum. Það er ekki að furða að
hann sé enn tilbeðinn í Napolí.
„Diego lifir“
Maradona braust úr sárri fátækt til
frægðar og frama. Afrek hans á
knattspyrnuvellinum voru óviðjafn-
anleg. Þar við bættist flókið lífshlaup
og dramatískur dauðdagi. Allt þetta
tryggði honum sess í argentínskri
þjóðarsál.
Í borgum landsins má sjá áletranir
á borð við „Diego lifir“, „10 að eilífu“
og „D10S“ (dios er guð á spænsku). Á
veggmyndum er hann sýndur með
vængi, sem dýrlingur á helgimynd
með geislabaug og sprota, eða á jörðu
niðri að kyssa verðlaunabikarinn frá
HM.
Maradona er sennilega þekktastur
fyrir markið, sem hann skoraði með
hendi á móti Englandi og sagði að
„hönd guðs“ hefði verið að verki.
Seinna mark hans í sama leik var
kallað „mark aldarinnar“.
Þessar andstæður, „verðugt mark
og syndugt mark“, endurspegluðu
átakasamt líf dyggða og lasta og
skýra það hvers vegna fólk er svona
heillað af Maradona, að mati úrú-
gvæska rithöfundarins og dálkahöf-
undarins Eduardos Galeanos heitins.
Hann sagði að guðshandarmarkið
hefði breytt Maradona í „nokkurs
konar flekkaðan Guð, sem er mann-
legastur allra Guða“.
Í huga sagnfræðingsins Felipe
Pigna er Maradona „hetja með
marga galla“, bland í poka með ýms-
um eiginleikum, sem endurspegla
„hvað það þýðir að vera Argent-
ínumaður“.
Andlátið rannsakað
Rannsókn á andláti stjörnunnar var
hafin eftir að tvö af fimm börnum
Maradona lögðu fram kæru á hendur
taugalækninum Leopoldo Luque,
sem þau kenna um hvað föður þeirra
hrakaði eftir skurðaðgerðina.
Nefnd 20 sérfræðinga, sem sak-
sóknaraembættið í landinu kallaði
saman í apríl, komst að þeirri niður-
stöðu að vanræksla og óreiða hefði
sett mark sitt á læknismeðferð hans
og læknateymi hans hefði látið örlög-
in ráða hvort hann lifði eða dæi.
Samhliða fylgist argentínska þjóð-
in með öðru máli, sem keppir við
rannsóknina á andlátinu um stærstu
fyrirsagnirnar. Deila, þar sem tvær
af dætrum Maradona eiga hlut að
máli um arfinn eftir hann, er komin
fyrir dómstóla.
Til að bæta gráu ofan á svart steig í
vikunni fram kona frá Kúbu, sem átti
í sambandi við Maradona þegar hún
var undir lögaldri fyrir 20 árum, og
sakaði fylgdarlið hans um misnotkun
og nauðgun.
Dalma, önnur dóttir Maradona,
sem nú er 34 ára, sagði að hún myndi
ekki taka þátt í neinum viðburðum á
fimmtudag, sem hún lýsti sem
„versta degi lífs míns“.
„Ári eftir andlátið heldur Diego,
skapari hamingju, einnig áfram að
valda þjáningu,“ sagði í argentínska
dagblaðinu La Nacion í vikunni.
„Með sorginni yfir dauða hans, vegna
þess að ást okkar á honum var slík.
Og með vísbendingunum um sjálfs-
tortímingu hans. Hin mikla mótsögn
á milli opinberrar hamingju og harms
í einkalífi.“
Vann glæsta
sigra og átti
við djöfla
Diego Maradona er í hugum margra mesti knatt-
spyrnumaður, sem uppi hefur verið. Maradona
vann glæsta sigra, en stríddi líka við sína djöfla. Á
fimmtudag var ár frá andláti hans.
Veggmynd af vængjuðum Maradona eftir listamennina Maximilano Bagnasco og Dreier Salamanca Vargas prýðir vegg
fyrir utan veitingastað í Buenos Aires. Í hugum aðdáendanna var Maradona snillingur, galdramaður og jafnvel guð.
AFP
Bronsstyttu af Maradona eftir Domenico Sepe hefur verið komið fyrir við
leikvang Napolí þar sem snillingurinn átti sín bestu ár í fótbolta.
AFP
- heimili, hönnun, tíska
og samkvæmislífið
Lífstílsvefurinn okkar
- fylgt landsmönnum í 10 ár
SMARTLAND
MÖRTUMARÍU
Vertu með
á nótunum