Morgunblaðið - 31.12.2021, Side 4
4 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2021
Það var að mörgu leyti rólegra yfir stjórnmál-
unum en ætla mætti á kosningaári. Líkt og
önnur ár réð ríkisstjórnin nær algerlega ferð-
inni, stjórnarandstaðan máttlaus og klofin.
Altalað er að milli formanna stjórnarflokk-
anna hafi samstarfið gengið vel, traust og
trúnaður þeirra á milli. Til ríkisstjórnarinnar
hafði enda verið stofnað beinlínis í því skyni að
sýna að stjórnmálalífið væri vandanum vaxið
eftir umrót eftirhrunsáranna, þar sem stjórn-
arkreppa, stjórnarslit og tíðar kosningar virt-
ust orðið varanlegt ástand. Það var stjórninni
því sjálfstætt markmið að halda velli út kjör-
tímabilið, koma á stjórnfestu og stöðugleika.
Þrátt fyrir að á ýmsu hefði gengið, þá hófst
árið 2021 á vonarglætu um að glæný bóluefni
gætu bundið enda á herkví heimsfaraldursins.
Það var í því umhverfi sem stjórnmálaflokk-
arnir hófu undirbúning þingkosninganna.
Raunar þjófstartaði Samfylkingin í desem-
ber 2020 með því að nota „sænsku leiðina“ við
val á framboðslistum við litla hrifningu, en
flokksforystan virðist hafa trúað því að hugs-
anlega yrði kosið strax um vorið. Þær vonir
brugðust sem svo margar aðrar.
Alþingi var frestað í júní 2021, en utan einn
dag í júlí kom það ekki aftur saman fram að
kosningunum 25. september. Á meðan datt
pólitíkin í dúnalogn og þrátt fyrir ýmsar til-
raunir vaknaði áhugi kjósenda ekki aftur fyrr
en um tveimur vikum fyrir kosningar.
Skoðanakannanir báru glöggt vitni um þetta
og vænn stabbi var óákveðinn. Hlutföllin hjá
þeim, sem afstöðu tóku, bentu til þess að ríkis-
stjórnin væri í vandræðum. Stuðningur við
ríkisstjórnina var raunar ágætur, líkt og mest-
allt kjörtímabilið, en fylgi flokkanna sem að
henni stóðu var mun dræmara.
Kosningabaráttan hefst
Þegar á leið kosningabaráttuna urðu stjórnar-
flokkarnir opinskárri um að áframhaldandi
samstarf væri líklegast fengju flokkarnir þing-
styrk til þess.
Af áróðrinum mátti ætla að Katrín Jakobs-
dóttir væri ein í framboði fyrir Vinstri-græn,
en þrátt fyrir vinsældir hennar hreyfðist fylgið
ekki. Sjálfstæðisflokkurinn var gjarnari á að
sýna breidd frambjóðenda sinna þótt þar væri
Bjarni Benediktsson fremstur meðal jafn-
ingja, en fylgið mjakaðist lítt. Sigurður Ingi
Jóhannesson og Framsókn töluðu svolítið um
börnin og gamla fólkið, en það var ekki fyrr en
með slagorðinu um hvort það væri „ekki bara
best að kjósa Framsókn“, sem fylgið tók að
aukast, en þá líka svo um munaði.
Stjórnarandstaðan herti róðurinn. Það átti
kannski ekki síst við Sósíalista, sem voru á
móti spillingu heimsins, en flokksleiðtoginn
Gunnar Smári Egilsson kom fram í köflóttum
skyrtum og boðaði alræði öreiganna. Samfylk-
ingin færðist einnig í aukana, tefldi einkum
fram Kristrúnu Frostadóttur, nýjum fram-
bjóðanda, en Logi Einarsson formaður og aðr-
ir frambjóðendur voru nánast í felum.
Miðflokkurinn virtist aldrei ná vopnum sín-
um, enda kvartaði Sigmundur Davíð Gunn-
laugsson sáran undan því að eiginleg pólitík
ætti ekki upp á pallborðið. Svipaða sögu mátti
segja um Pírata, sem gáfu út mikinn stefnu-
máladoðrant sem fáir lásu (jafnvel ekki fram-
bjóðendur hans) og enginn skildi. Viðreisn átti
betri kosningabaráttu og fór ólíkt öllum öðrum
stjórnarandstöðuflokknum lítt út í pópúlíska
sálma, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
virtist í óstuði og flokkurinn fór aldrei á flug.
Aðra sögu var að segja af Flokki fólksins, sem
skartaði ýmsum litríkum frambjóðendum, en
Inga Sæland talaði af sannfæringarkrafti um
kjarabætur bágstaddra og vann stöðugt á.
Aðeins viku fyrir kosningar var drjúgur
hluti kjósenda óákveðinn, en kannanir bentu
til að stjórnin væri fallin, miðjuflokkarnir bætt
mikið við sig og vinstribylgja í uppsiglingu.
Stjórnin sigrar og öfgunum hafnað
Þegar í kjörklefann var komið reyndust
miðjuflokkarnir Framsókn og Flokkur fólks-
ins vissulega hafa bætt duglega við sig, svo
kalla mátti sigurvegara kosninganna, en
óákveðna fylgið virtist aðallega hafa verið
óákveðið um hvaða ríkisstjórnarflokk ætti að
kjósa. Vinstribylgjan birtist aldrei – Sósíal-
istaflokkurinn náði ekki á þing og Samfylk-
ingin og Píratar vonsvikin með sinn hlut. Ekki
þó jafnvonsvikin og Miðflokkurinn, sem rétt
hélst inni á þingi.
Að því leyti má segja að kjósendur hafi hafn-
að öfgum og pópúlisma, sem er fagnaðarefni út
af fyrir sig. Kosningaúrslitin voru þó fyrst og
fremst traustsyfirlýsing við ríkisstjórnar-
samstarfið og engum kom á óvart þegar for-
menn stjórnarflokkanna hófu að ræða endur-
nýjað stjórnarsamstarf daginn eftir kosningar.
Hitt kom meira á óvart hve stjórnarmynd-
unarviðræðurnar tóku langan tíma, meira en
tvo mánuði.
Erfiðu málin eftir og fram undan
Þar tóku „erfiðu málin“ frá fyrra kjörtímabili
mestan tíma, ekki síst þau sem sneru að land-
vernd og orkunýtingu, þótt ásteytingar-
steinarnir væru fleiri. Fæst þeirra voru til
lykta leidd með afgerandi hætti, en þess í stað
undirritaður langur og afar almennt orðaður
stjórnarsáttmáli, sem hver flokkur söng svo
með sínu nefi.
Fyrir utan það að Framsókn fékk einn nýj-
an ráðherra fólst helsta breytingin í því að
ráðuneyti og málaflokkar voru brotin upp, svo
mjög að það er enn nokkur ráðgáta hvar ein-
stakar stofnanir og starfsmenn liggja eða í
hvaða ráðuneyti tilteknar fjárheimildir rata.
Eftir sem áður verður ekki annað sagt en að
viðhaldið sé þeirri stjórnfestu og stöðugleika,
sem þorri kjósenda virðist hafa viljað og valið.
Það á hins vegar alveg eftir að koma í ljós
hvort atburðarás næstu mánaða, missera og
ára fer saman við þær fyrirætlanir. Enn er
ekki búið að binda enda á pláguna og það verð-
ur vandi að ná aftur upp snúningi á efnahags-
lífið til þess að vinna upp glataðan tíma og her-
kostnað heimsfaraldursins. Fram undan er
önnur kosningabarátta, því sveitarstjórnar-
kosningar fara fram í vor og þær munu óhjá-
kvæmilega auka pólitíska spennu. Ekki síður
geta yfirvofandi kjaraviðræður þó gert líf rík-
isstjórnarinnar flóknara, en þær munu aug-
ljóslega hafa mikil áhrif á atvinnulíf og efna-
hagsbata. Eru þá ónefnd öll áhugamálin í
stjórnarsáttmálanum, bæði þessi erfiðu og
auðveldu.
Svo ef til vill verður meginmarkmið þess-
arar ríkisstjórnar hið sama og hinnar síðustu:
að þrauka út kjörtímabilið.
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson kynna stjórnarsamstarf kampakát á Kjarvalsstöðum.
Morgunblaðið/Eggert
Forsætisráðherra hlær að greinarhöfundi í kosningaumræðum Dagmála.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tvær Katrínar stinga saman nefjum á þingi, en Birgir og Bjarni að baki.
Morgunblaðið/Eggert
Stjórnfesta & stöðugleiki II
ANDRÉS MAGNÚSSON
er fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins og fjallar einkum
um stjórnmál á síðum blaðsins og í Dagmálum.
Enn er ekki búið að binda enda á pláguna
og það verður vandi að ná aftur upp snún-
ingi á efnahagslífið til þess að vinna upp
glataðan tíma og herkostnað heimsfaraldursins.
TÍMAMÓT: EFTIR TÍÐ STJÓRNARSKIPTI FÆR SITJANDI RÍKISSTJÓRN UMBOÐ TIL AÐ SITJA ÁFRAM
’’
Árið var tíðindamikið í stjórnmálum, enda kosningaár, þótt lítið breyttist þegar upp var staðið. Alþingi var sent heim í vor
og gengið til kosninga hálfu ári síðar, en ríkisstjórnin hélt ekki bara velli, heldur jók hún við sig fylgi og þingstyrk. Eftir
langar viðræður og langan stjórnarsáttmála var endurnýjað stjórnarsamstarf loks kynnt, en þrátt fyrir að varla sé mikilla
stefnubreytinga að vænta á kjörtímabilinu er alls óvíst að samstarfið reynist jafnauðvelt út annað kjörtímabil.