Morgunblaðið - 31.12.2021, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2021
Þrjú af þeim átta liðum sem berjast um Evr-
ópumeistaratitil kvenna í fótbolta á komandi
vormánuðum eru með íslenskar landsliðs-
konur í sínum röðum. Þetta segir meira en
mörg orð um stöðu íslenskra knattspyrnu-
kvenna á heimsvísu í íþróttinni.
Segja má að sprenging hafi orðið í „útflutn-
ingi“ á íslenskum knattspyrnukonum til er-
lendra atvinnuliða undanfarin tvö ár. Árið
2018 léku fjórtán íslenskar konur með erlend-
um liðum. Árið 2019 voru þær átján en nú í
árslok 2021 eru þær þrjátíu talsins.
Öflug yngri kynslóð
Þetta hefur komið íslenska landsliðinu til
góða. Af 24 landsliðskonum sem komu við
sögu í leikjum Íslands í undankeppni heims-
meistaramótsins á síðustu mánuðum ársins
leika sextán með erlendum atvinnuliðum. Í
byrjunarliði íslenska liðsins í haust voru jafn-
an níu eða tíu atvinnukonur í íþróttinni.
Um leið hefur yngri kynslóð leikmanna látið
verulega að sér kveða síðustu tvö árin. Stúlk-
ur um tvítugt eins og Sveindís Jane Jóns-
dóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína
Lea Vilhjálmsdóttir hafa komið með ferskan
blæ inn í liðið, fest sig þar í sessi á skömmum
tíma og breytt spilamennsku þess umtalsvert.
Eldri og reyndari leikmenn eins og Dagný
Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
og Glódís Perla Viggósdóttir (sem er reyndar
aðeins 26 ára) hafa notið góðs af því að fá
þessar öflugu stúlkur við hliðina á sér.
Á skömmum tíma hefur íslenska liðið breyst
frá því að vera í vandræðum með að halda
bolta lengi innan liðsins og treyst frekar á
kraftinn og föstu leikatriðin, í það að vera af-
bragðsvel spilandi og hættulegur andstæð-
ingur hverjum sem er.
Á þessu ári hefur burðarás liðsins og fyrir-
liði, Sara Björk Gunnarsdóttir, verið í barn-
eignarfríi, en skarð hennar hefur verið fyllt
betur en búast mátti við og Sara er nú komin í
kapphlaup við tímann um að ná fyrri styrk og
stöðu í tæka tíð fyrir Evrópukeppnina á Eng-
landi næsta sumar.
Átta liða úrslit EM árið 1994
En það er ekkert nýtt að Ísland sé framarlega
í flokki meðal þjóða Evrópu og heimsins þegar
kemur að knattspyrnu í kvennaflokki. Ísland
var með í undankeppni fyrsta Evrópumótsins
og lék sína fyrstu mótsleiki á árunum 1982-
1983 og var ein af aðeins sextán þjóðum sem
þá tóku þátt. Bakslag kom í landsliðsmálin
þegar kvennalandsliðið var lagt niður um
skeið vegna fjárskorts KSÍ en strax eftir end-
urreisnina sló íslenska landsliðið í gegn árið
1994 með því að komast í átta liða úrslit Evr-
ópumótsins. Árangur sem oft hefur gleymst í
seinni tíð en þarna voru upp á sitt besta braut-
ryðjendur eins og Ásta B. Gunnlaugsdóttir,
Vanda Sigurgeirsdóttir og Auður Skúladóttir
og ungar og bráðefnilegar stúlkur eins og Ást-
hildur Helgadóttir, Olga Færseth, Margrét
Ólafsdóttir og Katrín Jónsdóttir.
Ísland vann sinn riðil í undankeppninni,
sigraði m.a. Holland tvisvar, og tapaði tvisvar
naumlega fyrir Englandi í átta liða úrslit-
unum. Liðið var ótrúlega nálægt því að kom-
ast í undanúrslit.
Þetta heitir ekki að standa í stað
Þetta afrek hefur íslenska kvennalandsliðið
aðeins einu sinni leikið eftir. Það var á EM í
Svíþjóð árið 2013 þegar Ísland komst í átta
liða úrslit með því að sigra Holland og gera
jafntefli við Noreg.
En það var langur vegur frá 1994 til 2013,
hvað þá til ársins 2021 þar sem Ísland er á leið
í lokakeppni EM næsta sumar og stefnir á að
komast í átta liða úrslit þrátt fyrir að vera í
riðli með stóru fótboltaþjóðunum Frakklandi,
Ítalíu og Belgíu. Landslagið í kvennafótbolta
hefur breyst gríðarlega á þessum 27 árum.
Það sem ekki hefur breyst er að Ísland á
ennþá eitt af tíu til tólf bestu landsliðum Evr-
ópu og eitt af fimmtán til sautján bestu lands-
liðum heims, samkvæmt heimslista. Og í
kvennafótbolta heitir það ekki að standa í
stað.
Mesti vaxtarbroddurinn í íþróttinni
Árið 1994 var Austur-Evrópa varla byrjuð að
taka þátt í mótum í kvennaflokki og öflugar
knattspyrnuþjóðir í vesturhluta álfunnar tóku
kvennafótbolta heldur ekki mjög alvarlega.
Núna hefur umhverfið gjörbreyst, mesti
vaxtarbroddur knattspyrnuíþróttarinnar á
heimsvísu er stóraukin þátttaka og framfarir
stúlkna og kvenna, og íslenska landsliðið hefur
fengið meiri og meiri samkeppni frá ári til árs
frá stórum þjóðum sem hafa tekið miklum
framförum. Það er því eftirtektarverður
árangur að Ísland skuli í dag vera á sömu
slóðum á styrkleikalistum Evrópu og heimsins
og fyrir aldarfjórðungi og það segir sitt um
hvernig staðið hefur verið að uppbyggingunni
hér á landi.
Þurfa að fara í sterk erlend lið
Við þekkjum vel úr karlafótboltanum að um
leið og ungir íslenskir leikmenn sýna hæfileika
eru þeir komnir á samning hjá erlendum at-
vinnuliðum. Þar er talið stórt skref að komast
að hjá miðlungsliðum á Norðurlöndum og ná
svo kannski þaðan yfir í þokkalegt lið annars
staðar í vesturhluta Evrópu.
Þetta er allt öðruvísi hjá stúlkunum. Ísland
er það framarlega í flokki að íslenska úrvals-
deildin er í um það bil tólfta sæti yfir bestu
deildir í Evrópu. Ætli íslenskar landsliðs-
konur eða stúlkur í yngri landsliðunum að
taka skref upp á við koma ekki mörg lönd eða
deildir til greina. Leikmenn sem fara frá Val
og Breiðabliki um þessar mundir þurfa helst
að komast að hjá góðum liðum í Þýskalandi,
Frakklandi, Englandi, Spáni eða Svíþjóð til að
það teljist skref í rétta átt.
Framarlega í Meistaradeildinni
Mikið hefur verið fjallað um þann áfanga
Breiðabliks að komast í sextán liða úrslit
Meistaradeildarinnar í haust og leika þar með
fyrst íslenskra liða í riðlakeppni Evrópumóts.
Án þess að á nokkurn hátt sé dregið úr afreki
Kópavogsliðsins er þetta ekkert nýtt. Valur
komst í átta liða úrslit 2005 og Breiðablik
2006. Stjarnan komst í sextán liða úrslit 2016
og Breiðablik 2019.
En riðlakeppnin er nýtt fyrirbæri í kvenna-
flokki og gríðarlega stórt skref fyrir framgang
kvennafótboltans í Evrópu með nýjum tekju-
möguleikum. Þar komum við aftur að styrk ís-
lensku úrvalsdeildarinnar. Þegar Meist-
aradeildin var stækkuð fyrir yfirstandandi
tímabil var Ísland ein af sextán þjóðum sem
fengu að senda fleiri en eitt lið í keppnina. Ís-
land er í tólfta sæti á styrkleikalista UEFA
fyrir félagslið kvenna og þar með voru bæði
Breiðablik og Valur með í keppninni í ár. Og
verða þar aftur bæði á næsta ári. Þótt upp-
skera Breiðabliks hafi aðeins verið eitt stig í
riðlakeppninni vann liðið þrjá leiki og gerði
eitt jafntefli í fyrstu umferðunum og krækti
sér þar í mikilvæg stig sem halda því á góðum
stað á styrkleikalistanum. Valur vann líka
einn leik og tapaði einum og bætti sína stöðu
með því.
Stóru félögin komin í slaginn
Á undanförnum árum hafa orðið miklar breyt-
ingar í kvennafótboltanum í Evrópu á þann
hátt að stóru félögin eru meira og minna öll
búin að stofna kvennalið sem þau hafa sett
talsvert fjármagn í. Þannig er Barcelona nú
ríkjandi Evrópumeistari, aðeins örfáum árum
eftir að liðið var stofnað. Real Madrid var í
fyrsta skipti í Evrópukeppni í ár, Manchester
United er nýkomið með lið í ensku úrvals-
deildina. Í Noregi hafa stóru og rótgrónu fé-
lögin smám saman yfirtekið minni félög sem
voru í fremstu röð í kvennaflokki.
Fyrir vikið er kvennafótboltinn orðinn mik-
ið sýnilegri, fjármagnið hefur aukist, sem og
umfjöllun. Evrópumótið í sumar verður án efa
það stærsta og mest áberandi sinnar tegundar
til þessa. Íslenska liðið verður þar í sviðsljós-
inu, og verður þá vonandi búið að stíga enn
stærra skref í átt að heimsmeistaramótinu
sem fram fer í Eyjaálfu árið 2023.
Dagný Brynjarsdóttir leikmaður West Ham og þýskur og bandarískur meistari er ein sú reyndasta í landsliðinu en Sveindís Jane Jónsdóttir frá
Wolfsburg, Guðný Árnadóttir frá AC Milan og Alexandra Jóhannsdóttir frá Eintracht Frankfurt tilheyra yngri kynslóðinni.
Morgunblaðið/Unnur Karen
Þær bestu streyma úr landi
Kvennalandsliðið í fótbolta hefur haldið sinni stöðu þrátt fyrir miklar framfarir annars staðar og er áfram eitt af tíu til
tólf bestu liðum Evrópu. Þrjátíu íslenskar konur eru komnar í atvinnumennsku hjá erlendum félagsliðum
VÍÐIR SIGURÐSSON
hefur verið fréttastjóri íþróttafrétta á Morgunblaðinu
og mbl.is frá 2008 og starfað hjá Árvakri frá 2000.
Áður var hann íþróttafréttamaður hjá DV, Þjóðvilj-
anum og Dagblaðinu.
Leikmenn sem fara frá Val og Breiða-
bliki um þessar mundir þurfa helst
að komast að hjá góðum liðum í
Þýskalandi, Frakklandi, Englandi, Spáni eða
Svíþjóð til að það teljist skref í rétta átt.
TÍMAMÓT: ÍSLENSKAR KNATTSPYRNUKONUR Í FREMSTU RÖÐ
’’