Morgunblaðið - 31.12.2021, Side 28

Morgunblaðið - 31.12.2021, Side 28
28 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2021 Mótmælaspjald frá mannréttindasamtökunum Zwischengeschlecht, sem haldið var á lofti við höfuðstöðvar Alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar í Luzern í Sviss 19. nóvember 2009. FABRICE COFFRINI/AFP/Getty Images Draumur minn var að verja titlana mína á Ól- ympíuleikunum í Tókýó 2020. Ég vann gull í 800 metra hlaupi bæði 2012 og 2016. Ég vildi keppa aftur á Ólympíuleikunum og komast skrefi nær því markmiði mínu að verða besti 800 metra hlaupari allra tíma úr röðum kvenna. En ég fékk ekki að hlaupa í Tókýó. Ég er bálreið, sorg- mædd og full vonbrigða yfir því að mér var neit- að um tækifærið vegna úrskurðar Alþjóðafrjáls- íþróttasambandsins 2018 sem byggðist á skýrslu frá 2017, sem var dregin til baka skömmu eftir leikana í Tókýó. Í úrskurðinum frá 2018 var ég ekki nefnd sér- staklega, en hann beindist gegn mér. Þar sagði að konur sem frá náttúrunnar hendi fæddust með aukið magn af testósteróni hefðu ósann- gjarnt forskot á aðra kveníþróttamenn. Til að fá að keppa hefði ég þurft að taka lyf til að draga úr testósteróni. Ég var niðurbrotin þegar ég fékk fréttirnar af úrskurðinum. Að auki var mér misboðið. Sem kona ætti ég að ráða yfir líkama mínum. Af hverju ætti ég að taka efni, sem breyta hormónum mínum, bara til að geta keppt í þeirri atvinnugrein, sem ég hef valið? Ólympíuleikarnir eru hátindur afreka í íþróttum og þeir hafa ýtt íþróttamönnum að lík- amlegum og andlegum mörkum sínum – oft með gríðarlegum persónulegum tilkostnaði. Heimurinn ætlast til þess að íþróttamenn færi fórnir til að vinna gull. Þrýstingurinn er svo gríðarlegur að sumir gætu leitað leiða til að ná minnsta forskoti á samkeppnina með órétt- mætum hætti. Ég kiknaði ekki undan þessum þrýstingi. Ég veit hver ég er og er ekki hrædd við að hefja upp raust mína um óréttlæti – ekki aðeins sjálfrar mín vegna, heldur einnig til að aðrir íþróttamenn þurfi ekki að ganga í gegnum það sem kom fyrir mig. Skömmu eftir leikana í Tókýó birti British Journal of Sports Medicine leiðréttingu á rann- sókninni frá 2017, sem hafði orðið til þess að Al- þjóðafrjálsíþróttasambandið bannaði mig frá keppni. Þar sagði að niðurstöðurnar um áhrif aukins magns af testósteróni á frammistöðu kvenna í íþróttum væru á „rannsóknarstigi“ og „gætu hafa verið misvísandi með því að gefa til kynna orsakatengsl“. Ef gengist hefði verið við göllunum í rannsókninni fyrir Ólympíuleikana hefði ég getað keppt. Þegar ég frétti af leiðréttingunni var það fyrsta sem ég sagði við lögmennina mína: „Hvað sagði ég ykkur.“ Nú mun ég þurfa að heyja mínar orrustur fyrir dómstólum. Sumir lögmanna minna hafa boðið fram þjónustu sína án endurgjalds, en þetta hefur lagst þungt á mína sjóði og ég mun þurfa stuðning til að halda baráttunni áfram. Fyrsta áfrýjun mín á ákvörðun Alþjóðafrjáls- íþróttasambandsins var í júní 2018 þegar ég lagði fram kröfu um að málið yrði tekið upp hjá Alþjóðaíþróttadómstólnum, sem þekktur er undir skammstöfuninni CAS og hefur aðsetur í Lausanne í Sviss. Í apríl 2019 kvað CAS upp úr- skurð. Ég tapaði. Næst fór ég með mál mitt fyrir hæstarétt Sviss, sem hefur vald til að hnekkja úrskurðum CAS. Í september 2020 neitaði dómstóllinn að hagga úrskurðinum. Í niðurstöðu hans sagði að- eins að úrskurður CAS bryti ekki í bága við al- mennt viðurkennd svissnesk grundvallarlögmál um almannaheill. Lögmenn mínir sögðu að við værum með eitt spil í viðbót í erminni. Við gætum farið með svissneska úrskurðinn fyrir Mannréttinda- dómstól Evrópu. Þar mun Mannréttindanefnd Suður-Afríku styðja mig sem hlutaðeigandi að- ili. Hún mun halda fram fyrir réttinum að „eng- in aðlögun, afneitun eða sjálfsafneitun sé nauð- synleg“. Það þýðir að reglurnar um að ég þurfi að taka hormóna til að minnka náttúrulegt magn testósteróns í mér og breyta náttúrulegu ástandi mínu séu brot gegn mannlegri reisn minni. Ef við höfum betur í Mannréttinda- dómstóli Evrópu mun það enn veikja málstað Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Ég er hug- hraust og hef trú á að loks fái ég alvöruáheyrn. Lögmenn mínir segja mér að málið verði senni- lega tekið fyrir í Strassborg í Frakklandi 2022. Þótt ég hafi misst af Tókýó ber ég höfuðið hátt. Ég er svartur Suður-Afríkubúi. Ég var heppin að fæðast með sérstakan hæfileika. En án metnaðar, þrautseigju og trúar á sjálfan sig hefst ekkert. Öll þau áföll, sem ég hef gengið í gegnum, hafa styrkt mig; áföll eru hluti af því sem þarf til að verða frábær íþróttamaður. Ég hef líka þurft að þola móðganir og niðurlægingu frá heimi, sem með mjög opinberum hætti dró í efa hver ég væri. Ég veit hvað það er að halda reisn sinni og von andspænis kúgun. Markmið mitt nú er að vinna dómsmálið. Fyrir mig sem konu, sem manneskju í baráttu gegn grimmu óréttlæti, yrði sigur sætur, jafn sætur og nokk- uð það sem ég hef afrekað á hlaupabrautinni. ©2021 The New York Times Company og Caster Semenya. Caster Semenya býr sig undir 800 metra hlaup kvenna á demantamóti í Doha í Qatar 3. maí 2019. Hún hljóp á tímanum 1:54.89 og setti demantamótsmet. Ibrahem Alomari/Reuters Caster Semenya hefur ekkert að sanna CASTER SEMENYA er suðurafrískur 800 metra hlaupari, tvöfaldur gullverðlaunahafi á Ólympíuleikum og þrefaldur heimsmeistari. Fyrir mig sem konu, sem manneskju í baráttu gegn grimmu óréttlæti, yrði sigur sætur, jafn sætur og nokkuð það sem ég hef afrekað á hlaupabrautinni. TÍMAMÓT: Á ÓLYMPÍULEIKUNUM Í TÓKÝÓ SKAPAÐIST SVIGRÚM TIL AÐ RÆÐA PRESSUNA Á ÍÞRÓTTAMÖNNUM ’’ Eftir að hafa verið neitað um að keppa á Ólympíuleikun- um er gullverðlaunahafinn frá Suður-Afríku staðráðinn í að halda reisn sinni og knýja fram réttlæti.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.