Saga - 2018, Blaðsíða 7
F O R M Á L I R I T S T J Ó R A
Forsíðu Sögu að þessu sinni prýðir mynd úr handriti frá sautjándu öld, þar sem
vængjaðir englar standa yfir líkkistu matrónu Hólmfríðar Sigurðardóttur, efna-
og valdskonu á sinni tíð. Gunnar Marel Hinriksson segir lesendum nánar frá þess-
ari mynd, ævi Hólmfríðar og þeim valdaættum sem hún tengdist, í forsíðugrein.
Í þessu hausthefti Sögu eru þrjár ritrýndar greinar um ólík en áhugaverð efni.
Í fyrstu greininni skrifar Íris Ellenberger um hreyfanleika, þverþjóðlegt rými og
átök menningar í Reykjavík í kringum aldamótin 1900. Hún ræðir um þá mis-
munandi menningarstrauma sem þar mættust, bæði innlenda, sem tengdust þá
stétt og stöðu, og erlenda, því eins og fram kemur í grein Írisar var í Reykjavík,
um lengri eða skemmri tíma, talsverður fjöldi fólks af erlendu bergi brotið sem
setti mark sitt á bæjar- og menningarlífið. Jafnframt dregur Íris fram vitnisburði
úr endurminningabókum og sendibréfum, sem sýna hvernig fólk reyndi í vax -
andi mæli að skilgreina sig upp á nýtt í þessum sístækkandi bæ þar sem borgara-
leg viðhorf urðu sífellt meira áberandi.
Sverrir Jakobsson fjallar í grein sinni um mótun menningarlegs minnis um
siðaskiptin á Íslandi. Þar skoðar hann Biskupaannála Jóns Egilssonar og hvernig
þar er fjallað um siðaskiptin, á hvaða minningum og minni hverra þar er byggt,
og þar með hvaða söguskoðun verður ofan á. Líkt og Sverrir bendir á byggir Jón
einkum á minni fólks sem tengdist honum sjálfum fjölskylduböndum, og frásögn-
um af Suðurlandi, einkum þó Skálholtsstifti.
Þriðja ritrýnda greinin, eftir Helga Skúla kjartansson og Orra Vésteinsson,
fjallar um fiskveiðar á Íslandi á miðöldum. Þar bera þeir vitnisburð ólíkra heim -
ilda ásamt niðurstöðum nýlegra fornleifarannsókna saman við ýmsar viðteknar
hugmyndir um vertíðamynstur fyrri tíma. Líkt og þeir benda á er margt sem
bendir til að vetrarvertíðarmynstrið sem síðar varð ráðandi hafi ekki komið til fyrr
en á síðari hluta miðalda og að útgerð hafi ekki síður verið frá Norðurlandi heldur
en Suður- og Vesturlandi líkt og varð ráðandi á seinni öldum.
Unnar Ingvarsson skrifar skemmtilegan pistil í bálkinn Úr skjalaskápnum,
þar sem hann fjallar um utankjörfundaratkvæði við fullveldiskosningarnar árið
1918. Um það eru til áhugaverð skjöl, sem sýna meðal annars að fjöldi kvenna
fékk að kjósa á heimilum sínum vegna „heimilisanna“. Lesendur Sögu eiga von á
fleiri skemmtilegum heimildum úr skjalaskápnum í næstu heftum.
Í þessu hefti eru birt andmæli Rósu Magnúsdóttur og Sumarliða R. Ísleifs -
sonar við doktorsvörn Skafta Ingimarssonar í maí síðastliðnum. Við ritstjórar telj-
um mikilvægt að birta andmælaræður við nýjar doktorsritgerðir í sagnfræði og
gefa þannig lesendum Sögu tækifæri til þess að fylgjast með nýjustu rannsóknum
í faginu.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 5