Fréttablaðið - 09.02.2022, Blaðsíða 33

Fréttablaðið - 09.02.2022, Blaðsíða 33
Ljósmyndir RAX sem notaðar voru bæði í sviðsmynd og búninga sköpuðu einstaka umgjörð fyrir dansinn. TÓNLIST Verk eftir Wagner og Mozart í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands Stjórnandi: Daníel Bjarnason Eldborg í Hörpu fimmtudaginn 3. febrúar Jónas Sen Á netinu er að finna mynd af spýtu­ karli með prjónahúfu. Við hliðina á honum stendur: „Þetta er Bill. Bill elskar tónlist Wagners. Bill gerir sér grein fyrir að það elska ekki allir tón­ list Wagners. Svo hann heldur ást sinni á tónlist Wagners fyrir sjálfan sig. Vertu eins og Bill.“ Ég ætla ekki að fara eftir þessu ráði. Ég elska Wagner og básúna því hér með um allar grundir. Wagner var magnaður snillingur og tónlist hans er einstök. Dæmi um það var að finna á fyrstu tónleikum Sin­ fóníuhljómsveitar Íslands í hádeg­ inu á fimmtudaginn. Þar var flutt Siegfried Idyll, sinfónískt tónaljóð sem var afmælisgjöf tónskáldsins til Cosimu eiginkonu sinnar eftir að hún hafði fætt honum soninn Sieg­ fried. Spennandi tónlist Tónlistin einkennist af spennandi framvindu, sem er það vegna þess að hún kemur stöðugt á óvart. Einmitt þegar maður heldur að verkið sé búið gerist eitthvað nýtt. Um þetta fjallar annar brandari sem hljómar svona: Hvað er líkt með skuldum Wagners og tónverkum hans? Úr hvorugu leysist nokkurn tímann. Þetta er nú ekki alveg rétt, en það er nálægt sannleikanum. Tónlist Wagners fer með mann í dásamlegt ferðalag um undraheima, sem virðist aldrei ætla að taka enda. En það gerir ekkert til, því ferðalagið er svo dásamlegt. Daníel Bjarnason stjórnaði hljóm­ sveitinni. Strengjaleikurinn í upp­ hafi var dálítið loðinn, en von bráðar náði tónlistin fókus og útkoman var í háum gæðaflokki. Leikurinn var tær og í góðu jafnvægi ólíkra radda, og flæðið í túlkuninni var óheft. Fyrir vikið var upplifunin einstaklega ánægjuleg. Gleðirík og björt Siegfried Idyll var samið í tilefni fæðingar barns, og núna ætla ég að leyfa mér að vera persónulegur, því hitt verkið á dagskránni var tónlistin sem dóttir mín fæddist við. Það var sinfónía nr. 29 eftir Mozart. Ekki er hægt að hugsa sér betri tónlist fyrir slíkt tilefni. Hún er í senn gleðirík og björt, en líka háleit og hátíðleg. Lag­ línurnar eru grípandi, raddsetningin glæsileg og yfir öllu er andrúmsloft upphafins fögnuðar. Skemmst er frá því að segja að tón­ listarflutningurinn hér var ákaflega fallegur. Byrjunin á fyrsta kaflanum var friðsæl og íhugul, nánast tignar­ leg. Hraðaval var sannfærandi og mismunandi hljóðfærahópar voru með sitt á hreinu. Túlkunin var litrík og full af stemningu, hraðar strófur nákvæmar, en samt svo yndislega dillandi. Hinir kaflarnir voru ekki síðri, ýmist gæddir hugljúfri einlægni, eða ærslafenginni kímni. Mozart var bara táningur þegar hann samdi sinfóníuna, en hann hafði samt tekið út fullan þroska sem listamaður. Á þessu skeiði var hann lífsglaður og það smitast svo sannarlega í verkinu. Óvanalegt var að fara á hádeg­ istónleika hjá Sinfóníuhljómsveit­ inni, en þeir voru haldnir í Eldborg. Ókeypis var á tónleikana og voru þeir ágætlega sóttir. Núna er tón­ leikalífið loksins að fara á fullt aftur – hvílík gleði! – og þessi sinfónía eftir Mozart hæfði tilefninu. ■ NIÐURSTAÐA: Snilldartónlist sem var sérlega vel flutt. Tónlist fyrir fæðingu barns Sinfóníuhljóm- sveitin var með hádegistónleika í Hörpu. FRÉTTABLAÐIÐ / ERNIR DANS Hvíla sprungur Danshöfundur: Inga Maren Búningar og leikmynd: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir (með ljósmyndum eftir RAX) Tónlist: Byggð á tónverkinu Quadrantes eftir Óttar Sæmundsen og Stephan Stephensen í samsetningu Stephans Ljós: Pálmi Jónsson Búningagerð: Alexía Rós Gylfadóttir og G-Elsa Ásgeirsdóttir Dansarar: Ásgeir Helgi Magnússon, Emilía Benedikta Gísladóttir, Erna Gunnarsdóttir, Sigurður Andrean Sigurgeirsson Ljósmyndir: Ragnar Axelsson (RAX) Borgarleikhúsið Sesselja G. Magnúsdóttir Vetrarnótt, í tunglsljósi má greina snæviþakin fjöll og dali. Mann­ verur birtast í forgrunni og hefja sinn dans. Áhorfendur horfa dol­ fallnir á verurnar hreyfa sig í köldu rökkrinu með jökulsprungur í bakgrunni. Rúmum klukkutíma seinna, þegar myrkrið fellur yfir sviðið, vill enginn fara heim þrátt fyrir kuldann í kroppnum heldur sitja áfram og fylgjast með ferðalagi dansaranna um fjöllin, snjóinn og sundursprunginn jökulinn. Í verkinu Hvíla sprungur eftir Ingu Maren Rúnarsdóttur, sem frumsýnt var á Litla sviði Borgar­ leikhússins 4. febrúar 2022, kafar Inga Maren með dönsurunum inn í mannlega tilveru út frá þeirri hugsun að öll búum við yfir marg­ víslegri lífsreynslu sem mótar okkur og við eigum oft á tíðum erfitt með að sleppa tökunum á, þrátt fyrir að hún geti valdið meiri sárindum en gleði. Allir hafa einhverjar sprungur á sálinni þó að sumar séu ekki sýni­ legar þar sem fennt hefur yfir þær. Hjálp annarra getur þá verið nauð­ synleg til að varast að falla ofan í þessar sprungur. Hún bendir einnig á að við notum mismunandi leiðir til að takast á við þær áskoranir sem lífið býður upp á. Ein er sú að reyna að hverfa í skuggann. Fallegt og fágað Ætlan Ingu Marenar með verkinu var skýr og kom vel fram. Allt það sem hún hafði talað um í viðtölum fyrir sýninguna kom heim og saman við það sem sást á sviðinu. Einnig fyrir þá sem ekki höfðu lesið sér til um verkið. Danssmíðin í verkinu var einföld en áhrifamikil. Handbragðið var fallegt og fágað. Eftir áhrifamikið upphaf var örlítið hökt í fyrsta hluta verksins en svo rann það smurt allt til enda. Í samanburði við Kingdom of the Shade mætti segja að nokkuð vantaði upp á nákvæmni í staðsetn­ ingu dansaranna og tímasetningu hreyfinganna í þeim köf lum þar sem dansararnir hreyfðu sig sem ein vera en þetta var jú ekki Kingdom of the Shade. Ljósmyndir RAX sem notaðar voru bæði í sviðsmynd og búninga sköpuðu einstaka umgjörð fyrir dansinn, vel studdar af tónlistinni sem undirstrikaði kalda og drunga­ lega vetrarfegurðina. Lýsingin full­ komnaði svo stemninguna og gaf þessu annars svarthvíta verki lit. Inga Maren hefur á stuttum tíma samið þrjú verk fyrir og í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og það verður að segjast að öll verkin eru firnagóð og samstarf hennar við Júlíönnu Láru Steingrímsdóttur gjöfult. Flæði, nánd og mýkt Hreyfingin var í fyrirrúmi í verkinu sem þýddi að ábyrgð dansaranna á endanlegri útkomu var mikil. Dansararnir gáfu tóninn strax í byrjun sýningarinnar og héldu síðan sleitulaust áfram í flæði, nánd og mýkt þar til yfir lauk, ýmist í dúettum, kvartettum eða sólóum. Samspil dansaranna var sterkt og fallegt, ekki síst í dúettinum á milli Ernu Gunnarsdóttur og Sigurðar Andreans Sigurgeirssonar, og kvart­ ettinum í fyrri hluta verksins þar sem Sigurður Andrean, Ásgeir Helgi Magnússon og Emilía Benedikta Gísladóttir léku sér með Ernu. Ásgeir Helgi var fallegur á sviðinu sem fyrr en hann og Inga Maren eiga langa sögu um samstarf innan dansins. Emilía Benedikta er mikill fengur fyrir Íslenska dansflokkinn en hún hefur dansað á Spáni og í Gautaborg undanfarin ár. Hún náði sér þó ekki alveg á strik, að minnsta kosti ekki í samanburði við frammi­ stöðu hennar í verkinu Rómeó og Júlía þar sem hún var algjörlega frábær. Sigurður Andrean og Erna hafa sérstaka útgeislun á sviði og voru yndisleg eins og ávallt. ■ NIÐURSTAÐA: Hvíla sprungur er dulúðugt en grípandi verk. Það grípur áhorfandann á hljóðlátan hátt þannig að hann neitar að sleppa þegar verkinu lýkur. Dulúðugt vetrarhúm dansara Samspil dansaranna var sterkt og fallegt, segir gagnrýnandinn. MYND/RAGNAR AXELSSON  kolbrunb@frettabladid.is Þrjár frumsýningar verða hjá Borg­ arleikhúsinu í febrúar og sjö leik­ sýningar fara aftur í gang. Búið er að frumsýna Ein komst undan eftir Caryl Churchill í leikstjórn Krist­ ínar Jóhannesdóttur. 18. febrúar frumsýnir leikhópur­ inn PóliS í samstarfi við Borgarleik­ húsið verkið Tu jest za drogo eða Úff hvað allt er dýrt hérna eins og það heitir á íslensku. Hér er sögð ferða­ saga tveggja ungra Pólverja sem koma til landsins. Sýningin fer öll fram á pólsku en fyrir íslensku­ og enskumælandi áhorfendur verður textun í boði. Fimmtudaginn 24. febrúar verður frumsýnt á Nýja sviðinu leikverkið Ég hleyp eftir Line Mørkeby. Maður á ónefndum stað byrjar að hlaupa eftir barnsmissi. Gísli Örn Garðars­ son er einn á sviðinu og hleypur í gegnum sálarangist aðalpersónunn­ ar í leikstjórn Hörpu Arnardóttur. Aðrar sýningar sem verða í gangi í febrúar í leikhúsinu eru: 9 líf, Emil í Kattholti, Njála á hundavaði, Veisla, Tjaldið, Er ég mamma mín? og Á vísum stað. ■ Borgarleikhúsið í fullum gangi Ein komst undan er í Borgarleikhús- inu. MYND/AÐSEND MIÐVIKUDAGUR 9. febrúar 2022 Menning 21FRÉTTABLAÐIÐ

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.