Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.10.2021, Blaðsíða 11

Bjarmi - 01.10.2021, Blaðsíða 11
bjarmi | apríl 2021 | 11 BLESSUÐ SLÁTTUVÉLIN Prestur nokkur suður með sjó átti það til að kíkja á nytjamarkaði og fannst honum mjög gaman að gramsa í gömlu dóti fólks sem hafði þurft að losa sig við áralanga uppsöfnun alls kyns dóts í geymslum sínum eða bílskúrum. Í einum af þessum leiðöngrum sínum þá rakst hann á gamla bensínsláttuvél. Vitandi það að hann átti tvær slíkar bilaðar heima sjá sér gat hann ekki látið þessi kostakaup fram hjá sér fara. Þegar heim var komið fyllti presturinn á vélina og ætlaði að taka til hendinni í garðinum enda langt liðið á sumarið og fyrsti sláttur enn þá eftir í garðinum. Sama hvað presturinn reyndi þá fór blessuð sláttuvélin ekki í gang. Presturinn hafði nú litla þolinmæði fyrir þessu og stormaði til baka þar sem hann keypti vélina og kvartaði sáran yfir þessari vanvirkni. Sá sem hafði átt vélina á undan útskýrði þá fyrir prestinum að hann þyrfti að bölva vélinni hressilega, það væri eina leiðin til þess að fá hana í gang. Presturinn horfði forviða á manninn og sagði augljóslega að hann færi nú ekki að bölva þessari vél, hann væri prestur og það færi ekki vel á því að hann væri að nota slíkt orðbragð, hvað þá á almannafæri, auk þess sem að hann myndi nú varla eftir því hvaða orðbragð hann ætti að nota. Maðurinn svaraði honum þá hlæjandi á móti: „Engar áhyggjur, ef þú kippir nógu oft í spottann á henni þá rifjast öll þessi ljótu blótsyrði upp fyrir þér!“ JÁTNINGIN Maður nokkur gekk galvaskur inn í kirkjuna í hverfinu sínu og vildi hitta prestinn. Þegar presturinn kom fram sagði maðurinn, brosandi út að eyrum, að hann þyrfti að játa syndir sínar. Presturinn spurði hvað það væri sérstaklega sem hann þyrfti að játa. Maðurinn sagði: „Séra minn, ég þarf að játa svolítið fyrir þér. Alla síðastliðna viku hef ég verið heima með sjö gullfallegum konum.“ Maðurinn brosti enn breiðar bara við það að segja prestinum frá þessu og það fór ekki fram hjá prestinum hversu lukkulegur maðurinn var með þetta afrek þrátt fyrir að hann væri að játa þetta fyrir honum. Presturinn sagði: „Ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu, það sem þú þarft að gera bara núna er að ná þér í sjö sítrónur, kreista safann úr þeim öllum í glas og drekka svo allan safann.“ Maðurinn varð undrandi yfir þessari ráðleggingu og spurði hvort það myndi hreinsa hann af þessari synd. Presturinn sagði: „Nei, það hreinsar þig ekki undan syndinni en þetta mun pottþétt hreinsa þetta glott af andlitinu á þér.“ LANGLOKURNAR Einn af eldri prestum landsins var þekktur fyrir að leggja mikla vinnu í prédikanir sínar og voru þær oftar en ekki mældar í klukkutímum hvað lengdina snerti. Eins og gefur að skilja féll þetta í mjög misjafnan jarðveg hjá sóknarbörnum hans sem og hjá öðrum sem höfðu slysast inn í messu til hans. Einn sunnudaginn, þegar sólin skein sínu bjartasta og methiti var í bænum var ekki laust við að kirkjugestir hugsuðu með hryllingi til þess að fá enn eina langlokuna frá prestinum. Eins og við var að búast þá hafði presturinn lagt einstaklega mikið á sig fyrir prédikun dagsins enda ekki hægt að láta jafn bjartan dag fara til spillis með einhverri meðalprédikun. Þegar vel var farið að líða á þriðju klukkustund messunnar og presturinn stóð í prédikunarstólnum eins og enginn væri morgundagurinn, gerist það að stóra pottaplantan sem var fyrir aftan hann féll í gólfið með tilheyrandi hávaða. Hálfur söfnuðurinn hrökk upp við þennan hávaða og prestinum brá nokkuð hressilega við þetta atvik. Þá heyrðist frá einum í kirkjunni sem var endanlega búinn að missa þolinmæðina: „Þetta eru svo langar prédikanir hjá þér að meira að segja pottaplönturnar eru farnar að sofna!“ Bjarmabros Í UMSJÁ MAGNÚSAR VIÐARS SKÚLASONAR

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.