Morgunblaðið - 16.06.2022, Blaðsíða 26
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Það gekk nú svona brösuglega
fyrstu skiptin eða, hvað á ég að segja,
fyrstu árin?“ spyr Ingólfur Bjarni
Ævarr Sigurbjörnsson konu sína
Völu Ágústsdóttur yfir kaffibolla og
vöfflum á vistlegu heimili þeirra í År-
voll í Ósló en þau hjónin hafa búið í
norsku höfuðborginni allar götur síð-
an 1995. Rifjar hann þar upp þegar
þau Vala kynntust í starfi sínu á
Unglingaheimili ríkisins fyrir á
fjórða tug ára og tóku að draga sig
saman eins og kallað er.
Ingólfur starfar á Vestli resurs-
senter við að koma áfengissjúkling-
um á réttan kjöl í lífinu en Vala er tal-
meinafræðingur og þroskaþjálfi,
sviðsstjóri á klínísku þjónustusviði á
Háskólasjúkrahúsinu í Ósló á Ulle-
vål, og má segja að hjónin hafi verið
viðloðandi norskt heilbrigðiskerfi um
áratugaskeið.
Vala er fædd á Akureyri. „Svo
flutti ég með vinkonu minni til
Reykjavíkur, Akureyri var of lítil
fyrir okkur. Þegar ég var 12 ára fór
ég í vist til konu á Akureyri sem var
þroskaþjálfi og eftir það langaði mig
alltaf að verða þroskaþjálfi svo ég er
fór í Þroskaþjálfaskólann og kláraði
hann,“ segir Vala frá.
„Svo byrjaði ég að vinna á Ung-
lingaheimili ríkisins 1986, þá kynn-
umst við Ingó, við erum bæði að
vinna þar,“ segir Vala og gengur
fram í eldhús af stakri gestrisni að
þjónusta blaðamann með meira kaffi
á meðan Ingólfur segir frekari deili á
sjálfum sér.
„Ég er Reykvíkingur, úr Vestur-
bænum, en bjó í Ástralíu í fjögur ár.
Árið 1969 var iðnaðarmönnum boðið
frítt til Ástralíu með fjölskyldum sín-
um og pabbi var smiður svo honum
var boðið og við fórum öll fjöl-
skyldan. Þarna vantaði innflytjendur
í Ástralíu og iðnaðarmenn og á sama
tíma var atvinnuleysi á Íslandi, fólk
var að fara til Svíþjóðar á þessum
tíma í vinnu,“ segist Ingólfi frá.
Fjölskyldan hafi svo snúið aftur til
Íslands, hann ekki búinn að nota
sokka í fjögur ár í Ástralíublíðunni
og fékk hálfgert áfall við að koma í
Vesturbæinn og byrja í Hagaskóla.
„Ég man að ég ætlaði ekki að ná and-
anum það var svo mikill skafrenn-
ingur.“
„Hlýddi mér ekki alltaf“
Ingólfur vann svo ýmis störf til
sjós og lands og var nokkurt rót á
honum þar til hann fékk vinnu á téðu
Unglingaheimili ríkisins. „Það var
þannig að systir eins vinar míns var
félagsráðgjafi og hann sagði mér frá
þessari vinnu og hvatti mig til að
sækja um,“ segir Ingólfur sem gerði
það og fékk starfið.
„Við unnum nú saman lengi,“ segir
Vala, mætt í stofuna með rjúkandi
kaffikönnu, „en hann hlýddi mér nú
ekki alltaf þannig að ég fór á fund
með mínum yfirmanni og bað um að
hann yrði tekinn af mínum vöktum,
það væri allt of mikið álag að sjá um
unglingana og hann,“ heldur hún
áfram og þau hjónin brosa að göml-
um minningum enda reyndist sam-
bandið sem hófst á unglingaheimilinu
hið affarasælasta er frá leið.
Þau eru sammála um að starfið á
heimilinu hafi verið hvort tveggja
gefandi og skemmtilegt. „Einar Gylfi
Jónsson sálfræðingur var forstjóri og
ég held ég hafi aldrei haft eins góðan
yfirmann gegnum tíðina,“ segir Vala
ákveðin. „Þetta voru unglingar sem
af einhverjum ástæðum gátu ekki
búið heima hjá sér, þetta voru ekki
krakkar í vímuefnum heldur meira
um tengsla- og hegðunarvanda. Skól-
inn hafði náttúrulega brugðist, segi
ég núna,“ játar Vala.
Þar kom að Vala og Ingólfur tóku
stefnuna á Noreg. Vala hafði þá verið
forstöðumaður á sambýli á Íslandi
um stund en langaði að leggja stund
á nám í talmeinafræði. Eldri sonur
þeirra Ingólfs var á þessum tíma ný-
kominn til skjalanna. „Systir mín
segir að mér hafi leiðst einn dag í
fæðingarorlofinu og þá sett allt á fullt
og sótt um háskólanám í Noregi svo
aðdragandinn var nú ekki langur,“
segir Vala frá.
Nú sprettur Ingólfur á fætur. „Ég
verð að athuga stöðuna,“ segir hann
ákafur og hleypur upp á loft en
landsleikur Noregs og Svíþjóðar í
knattspyrnu stendur yfir samhliða
viðtalinu. Vala heldur áfram frásögn
sinni, hún náði að sækja um nám í
talmeinafræði við Háskólann í Ósló
rétt fyrir lokafrest, fær inni þar og
þau Ingólfur halda út með sex mán-
aða gamalt barn um sumarið. Árið er
1995.
„Takk for i dag“
„Við rákum okkur strax á það að á
þessum tíma var rosalega erfitt að fá
leiguhúsnæði,“ segir Vala af upphafi
ævintýralegs flandurs. Búslóðin var í
gámi og þau Ingólfur fóru um Ósló
með fullan barnavagn af öðrum far-
angri. Þau fengu í fyrstu lánaða íbúð
hjá vinkonu Völu auk þess að fá að
liggja á gólfinu hjá bróður Ingólfs
sem bjó í herbergi í Ósló á þessum
tíma. Svo voru íbúðaauglýsingar
lesnar í Aftenposten enda lýðnetið
rétt örfáar síður hinna allra framsýn-
ustu á þessum tíma.
Á elleftu stundu fékkst stúdenta-
íbúð gegnum háskólann þar sem Ing-
ólfur og Vala bjuggu í sex ár á meðan
hún lauk fimm ára námi í talmeina-
fræði og uppeldis- og sérkennslu-
fræðum sem var nú annað ævintýri.
„Ég skildi varla orð í norsku, við
björguðum okkur á einhverri
dönskuskotinni blandinavísku úti á
götu en annað var að sitja fyrirlestra
í háskólanámi. Það eina sem ég vissi
var hvenær tíminn var búinn því ég
skildi „takk for i dag“,“ segir Vala og
þau hjónin hlæja dátt, Ingólfur kom-
inn aftur, staðan 2-0 fyrir Noregi.
Ingólfur hóf síðar nám í félags-
ráðgjöf og fékk vinnu hjá miðstöð
sem aðstoðaði feður úr sundruðum
fjölskyldum við að komast í samband
við börn sín á nýjan leik auk þess að
leiða slíka feður saman í eins konar
stuðningshóp. Þaðan lá leið hans á af-
vötnunardeild Aker-sjúkrahússins
sem árið 2009 sameinaðist háskóla-
sjúkrahúsi borgarinnar. Ingólfur
lauk svo meistaranámi í meðferð við
fíkn og geðrænum erfiðleikum sam-
hliða vinnunni.
„Ég hafði reynslu af þeim málum
frá Íslandi, hafði hætt að drekka,
verið í AA og hafði mína kunnáttu
þaðan. Mér fannst ég vita heilmikið
um þetta efni heiman frá þar sem
margir góðir hlutir hafa verið gerð-
ir,“ segir Ingólfur. Hann hafi á þess-
um tíma verið kominn með öll rétt-
indi sem starfið krafðist og starfað á
mörgum deildum. „Þetta var alveg
botnlaust og ég fór að vinna töluvert
á Prindsen-móttökunni niðri í bæ,“
heldur hann áfram, en þar er um að
ræða eins konar miðstöð sem útveg-
ar úrræðalausu fólki á götunni sama-
stað í einn sólarhring.
Þarna hafi vinnan snúist töluvert
um aðstoð við sprautufíkla og starf-
semin hafi á nokkrum árum þróast út
í að útvega þeim hreinar nálar,
hreinsa stungusár og gefa meþadon
sem slær á fráhvarfseinkenni.
„Þarna ókum við um borgina og
sinntum fólki eftir því sem við gátum,
meðal annars Íslendingum sem
höfðu komið út til að fara í meðferð ef
eitthvað gekk ekki á Íslandi en lent í
ógöngum og endað peningalausir á
götunni. Þá höfðum við úrræði til að
kaupa handa þeim flugmiða og koma
þeim í flug til Íslands,“ segir Ingólfur
frá, en hann átti gott með að ná
tengslum við þessa kantmenn lífsins,
íslenska sem norska.
„Það er nú bara þannig enn þá,“
leggur Vala til málanna sposk á svip,
„að ég get ekki farið með honum um
sum hverfi borgarinnar. Þar koma
bara allir aðvífandi og vilja spjalla við
hann,“ segir hún af fyrrverandi skjól-
stæðingum manns síns sem hún
kveður þekkja alla útigangsmenn
Óslóar.
„Þetta fólk er mjög illa statt, það
er ekki hægt að loka það inni og ekki
hægt að setja það á geðdeild og þá
kemur til kasta þessarar miðstöðvar,
Prindsen, og þaðan liggur mín leið
svo í núverandi starf við Vestli res-
urssenter,“ útskýrir Ingólfur, en þar
tekur hann á móti fólki sem er að
koma úr meðferð, oft heimilislausu.
„Mitt starf snýst um að koma fólki
í húsnæði og við erum með miðstöð
sem reynir að útvega því vinnu sem
hæfir þörfum hvers og eins. Við
vinnum mikið með félagsmála-
stofnun, heimilislæknum viðkomandi
og mun fleiri aðilum, það fer eftir að-
stæðum hvers og eins,“ segir Ing-
ólfur. Hann játar fúslega eftir árin á
Prindsen að heróín og amfetamín séu
stórháskaleg efni við neyslu í æð.
„En það sem stendur upp úr er að
alkóhól er rosalega sterkur vímugjafi
og mjög skaðlegur,“ segir Ingólfur
alvörugefinn.
Vala lauk námi sínu í talmeina-
fræði með embættisprófi í uppeldis-
og sérkennslufræðum, fimm og hálfs
árs puði á skólabekknum, og sótti
strax um stöðu fagstjóra við Ullevål-
sjúkrahúsið sem hún sá auglýsta.
Hún gegnir nú stöðu sviðsstjóra, yfir
öllum sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum,
félagsráðgjöfum, næringar-
ráðgjöfum, talmeinafræðingum og
kennslu- og ráðgjafarsviði fyrir sjúk-
linga og aðstandendur þeirra, innan
lyflækninga.
Akureyrarfundurinn
„Þarna á sjúkrahúsinu starfar
fjöldi Íslendinga, læknar, hjúkr-
unarfræðingar, röntgenfræðingar,
geislafræðingar og ég veit ekki hvað,
en við megum ekki gleyma því að
starfsmenn og sjúklingar á Ullevål
eru fleiri en íbúar Akureyrar,“ segir
Vala sem er þó langt í frá í daglegum
samskiptum við Íslendinga í
vinnunni. Tilfellin séu þó mörg og ein
skondin saga fær að fljóta með.
„Ég var í mötuneytinu og heyri að
Íslendingar eru í röðinni fyrir fram-
an mig. Það reyndust vera hjúkr-
unarfræðingar frá Akureyri í heim-
sókn. Ég heilsa þeim svona til að láta
vita að ég skilji tal þeirra og þannig
er að mamma vann í heilbrigðiskerf-
inu á Akureyri. Og þær spyrja strax:
„Nei, heyrðu, ertu ekki dóttir hennar
Auðar?“ Jú jú, svara ég og einhver
norskur læknir hristir höfuðið og
segir eitthvað á þá leið að þetta Ís-
land sé svo lítið að þar þekki allir
alla,“ segir Vala.
Fjölgar þá enn í Akureyrar-
hópnum. „Svo kemur Ragnheiður
Bragadóttir inn [sérfræðingur í sjón-
himnuskurðlækningum sem ræddi
við Morgunblaðið fyrir páska] og hún
er auðvitað frá Akureyri og þá
þekktu hjúkrunarfræðingarnir hana
líka og norski læknirinn varð þá al-
veg endanlega gáttaður,“ segir Vala
og hlær að Akureyrarfundinum í
mötuneytinu sem þrátt fyrir allt var
hrein tilviljun.
Kynntust á unglingaheimili
- Með fíklum og drykkjumönnum í Ósló - Fékk áfall við heimkomuna frá Ástralíu - Skildi varla
norsku fyrstu önnina í háskólanum - Starfsmenn og sjúklingar samanlagt fleiri en íbúar Akureyrar
Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
Reynsluboltar Vala og Ingólfur fluttu til Óslóar árið 1995 og hafa nánast eingöngu starfað í heilbrigðiskerfinu.
Lengri útgáfa af viðtalinu
verður birt á mbl.is.
mbl.is
26 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. JÚNÍ 2022
Kringlunni | Glerártorgi | Skeifunni 8 | Sími 588 0640 | casa.is
GÓÐUR
FERÐA
FÉLAGI
Mokkakanna
6. bolla – 5.990,-