Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/21 LÖGMANNA FÉLAGIÐ 110 ÁRA Þann 11. desember 1911 höfðu Eggert Claessen og Sveinn Björnsson frumkvæði að stofnun Málflutningsmannafélags Íslands, en heiti þess var síðar breytt í Lögmannafélag Íslands. Í Lögmannablaðinu sem gefið var út á 100 ára afmæli félagsins var ástæða stofnunar félagsins m.a. sögð erfið samskipti á milli málflutningsmanna í formi persónulegra meiðinga, háðs og hótfyndni. Þar var líka nefnt að almenningi hafi jafnvel fundist mál ekki sómasamlega flutt nema málflytjendurnir væru sektaðir fyrir meiðyrði. Þó margt hafi breyst í lögmennskunni frá stofnun félagsins markast starfið þó enn af því að við ráðum tíma okkar að litlum hluta sjálf. Að einhverju leyti er það óhjákvæmilegt enda fáum við oft á tíðum litlu ráðið um það hvenær áríðandi verkefni koma upp hjá skjólstæðingum okkar, hvenær mæta þarf í skýrslutökur hjá lögreglu eða í málflutning fyrir dómi. Það sem hefur hins vegar breyst er að lögmenn gera í dag auknar kröfur til tíma síns og starfsumhverfis. Í upphafi lögmennsku minnar var mér sagt að lögmenn yrðu ekki veikir. Þeir mæta bara og gegna skyldum sínum. Er mér minnistætt viðtal sem ég átti við einstakling sem vildi kanna möguleika á endurupptöku dómsmáls, þar sem ekkert hefði heyrst í fyrri lögmanni hans við aðalmeðferðina sökum raddleysis. Þarna gilti hið fornkveðna um að kapp sé best með forsjá, eða kannski frekar orð séra Friðriks Friðrikssonar um að láta aldrei kappið bera fegurðina ofurliði. Það sem hefur líka gerst er að lögmennskan nægir flestum ekki ein og sér. Lögmenn vilja njóta eðlilegs fjölskyldulífs, sinna áhugamálum sínum eða fara í venjulegt frí eins og aðrar stéttir samfélagsins gera, þ.m.t. aðrar starfsstéttir réttarkerfisins. Í samræmi við framangreint hefur Lögmannafélagið að undanförnu beitt sér fyrir því að tekið verði tillit til sumarleyfa og stórhátíða við ákvörðun kæru- og áfrýjunarfresta. Mörg okkar þekkja það að brjóta upp sumarfríið okkar með ritun kæru eða greinargerðar vitandi það að við séum bara að skrifa fyrir skúffuna og að ekkert muni gerast fyrr en að loknu réttarhléi. Er það von okkar að slík breyting verði færð í lög á þessu þingi. Þá gerði Lögmannafélagið líka athugasemdir við stuttan boðunarfrest aðalmeðferða í Landsrétti nú í haust. Þá var svo komið að stundum liðu eingöngu 2 ½ til 3 vikur frá tilkynningu til aðalmeðferðar sem gerði okkur erfiðara fyrir að skipuleggja undirbúning málflutningsins í kringum önnur verkefni. Sýnist mér að Landsréttur hafi tekið þessum athugasemdum vel og hafi fresturinn lengst í 4-6 vikur. Starfsumhverfi okkar skiptir einfaldlega miklu máli en í nýjasta tölublaði danska lögmannablaðsins má finna athyglisverða könnun á meðal ungra danskra lögmanna þar sem svigrúm til fjölskyldulífs og gott vinnuumhverfi skiptu mestu við val á vinnustað og vógu þyngra en möguleikar til framgangs. Engin ástæða er til að ætla að annað gildi á meðal ungra íslenskra lögmanna og lögfræðinga sem eru að huga að starfsvettvangi sínum. Huga þarf að því hvernig tryggja má að ungt fólk sækist eftir því að vinna við lögmennsku og geri það að ævistarfi sínu. Í samkeppni um besta starfsfólkið er líka góður bisness að hugsa vel um starfsfélagana og starfsumhverfi þeirra. Svo megum við ekki gleyma því að hugsa vel um okkur sjálf. Til hamingju með afmælið! SIGURÐUR ÖRN HILMARSSON LÖGMAÐUR FORMAÐUR

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.