Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 8

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 8
8 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/21 Fávísisfeldurinn – Ég dró yfir mig feldinn og með myrkrinu hvarf sjálfsvitund mín. Ég vissi ekki af hvaða kyni ég var, hvaða kynþætti, á hvaða aldri, hvaða stétt ég tilheyrði eða starfi ég sinnti. Hvað ég þráði, hvað ég elskaði eða hvað ég skynjaði. Ég vissi raunar ekki hver ég var. En „ég“ fann að ég hafði mikilvægu hlutverki að gegna. Ég hafði þekkingu á grunnuppbyggingu samfélagsins, minningar um samskipti manna og annarra dýra, náttúru og þarfir. Og í trausti þeirrar samfélagslegu þekkingar – og sjálfsvitundarlegu vanþekkingar – fólst hlutverk mitt: Að semja grunnlög samfélagsins. Undir feldinum var mér ómögulegt að taka sjálfsmiðaða ákvörðun – enda hafði ég ekkert sjálf. Um leið varð ég að ígrunda vandlega stöðu allra hugsanlegra samfélagsþegna. Fæturnir sem tylltu sér í sporin voru ekki lengur mínir. Út um augun sem ekki voru mín horfði óræð sál af sömu sjálfsbjargarviðleitni og áður – en í breyttri mynd; af sjálfsbjargarviðleitni fyrir alla. Því sálin gat ekki vitað hver þeirra samfélagsþegna hún yrði sjálf þegar feldurinn lyftist. Á þann veg má draga saman kenningu réttarheimspekingsins John Rawls um fávísisfeldinn (e. Veil of Ignorance). Rawls taldi samfélagssáttmála ritaðan undir fávísisfeldinum hinn eina sáttmála sem nokkru sinni gæti talist sanngjarn. Og sanngirni taldi hann grunn réttlætis. Að aðeins með því fengju allir samfélagsþegnar sambærileg tækifæri til að blómstra. Af þessu fræi Rawl óx ævintýraveröld, innra með mér, sem varð að endingu svo plássfrek að ég hætti eftir nokkurra ára starf sem lögmaður og hélt af stað út í heim með heiminn sem ég var staðráðin í að berja í bókarskruddu. Sem varð að fjórum. Undan feldinum Í eitt ár flökkuðum við maðurinn minn um Afríku, Asíu og Eyjaálfu. Við fórum okkur hægt, ferðuðumst með hænur, geitur og börn í fanginu og stöldruðum við á afskekktum stöðum – fylgdumst með lífstaktinum. Það má jafnvel segja að ég hafi fengið að koma undan fávísisfeldinum – upp að vissu marki. Í litlu þorpi, Nkotakota við Malaví-vatn, horfði óræð sál út um augu forréttindanna. Fylgdist með konunum sækja eldivið og vatn við sólarupprás, körlunum róa til fiskjar og krökkunum reka kýrnar meðfram ströndinni yfir í beitarhagana. Um hádegið fylgdist hún með yngri krökkunum stinga sér í vatnið, busla og spila fótbolta á ströndinni með mangóávexti. Síðdegis sá hún konurnar þvo þvotta í vatninu, skima eftir eiginmönnunum sem skömmu síðar drógu netin á land með aðstoð þorpsbúa. Fylgdist með ungabörnunum hjala í flæðarmálinu á litríkum slæðum og kýrnar snúa heim til mjalta. Í nóttinni sá hún nokkra halda út á svartan spegil tunglsins í leit að silfri þessa þorps – tunglskinsfiskinum. Aðeins krakkar foreldranna sem höfðu efni á skóla- búningi höfðu aðgang að menntun. Hin urðu leiðsögumenn okkar um þorpið. Sheila litla var ein þeirra sem fléttaði fingur sína við okkar. Bros hennar var svo bjart að það skein inn í sálir okkar. Hún geislaði af stolti yfir bleika pilsinu sem féll yfir rykuga leggina. Og þannig tölti hún um moldargöturnar og kynnti okkur fyrir þorpsbúum – ber að ofan í bleiku pilsi. Því Sheila átti engan bol. Sjálf hafði ég þrjá boli meðferðis á þessu ferðalagi, stuttbuxur og agalegar Aladdín-buxur (en enginn „bakpokari“ kemst í gegnum heimsreisu án slíkra bróka). Heilt ár leið þar sem nærbrækur voru þvegnar í vaski (eða JÓLAHUGVEKJA LAGADAGURINN 2021 Fanney Hrund Hilmarsdóttir lögfræðingur og sjálfsþurftabóndi er einn af ungum rithöfundum Íslands sem kemur fram á sjónarsviðið þessi jólin. Hún er höfundur Fríríkisins, sem er fyrir öldruð börn og bernsk gamalmenni, og hefur hlotið mikla athygli. Fanney varð héraðsdómslögmaður árið 2012 og starfaði til ársins 2016 hjá Rétti lögmannsstofu. Hún ákvað síðan að láta drauminn rætast og verða rithöfundur. Hún skrifar hugvekju fyrir lögmenn þessi jólin.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.