Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 6

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 6
6 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/21 UMBJ. MINN Ég hugsa stundum til gamallar skopmyndar sem var á þá leið að tveir menn á miðöldum eru að skeggræða hvað eigi að kalla nýja akademíska námsgrein í háskóla. Tvær tillögur voru á myndinni. Önnur var sú að nefna hana „Bréflegar hótanir á óskiljanlegu máli“ en hin einfaldlega að nefna hana „lögfræði“. Þótt hér sé um að ræða einn hinna svokölluðu lögfræði- brandara má samt íhuga hvers vegna ólöglærðum finnst oft erfitt eða torskilið að lesa lögfræðilegan texta sér til gagns. Sem dæmi má nefna að fyrir ólöglærðan aðila kann hin alþekkta skammstöfun umbj. minn í bréfaskriftum lögmanna að valda misskilningi enda orðið umbjóðandi lítið notað í nútímamáli. Í lögfræði, sem snýst meira og minna um túlkun laga og hugtaka og merkingu þeirra, er öguð og skipuleg fram- setning texta nauðsynleg. Lögfræðin hefur líkt og aðrar sérgreinar sérstakt málfar sem kann að víkja frá almennum málskilningi. Það sama á við að túlkun hugtaka kann jafnframt að víkja frá almennri málvenju eða skilgreiningu annarra fræðigreina. Um það er vart til betra dæmi en Hrd. 1972, bls. 945 þar sem rækja var talin fiskur í skilningi laga nr. 72/1969 þótt það svar hefði væntanlega þýtt fall á líffræðiprófi. Á árinu 2008 var skýrslu starfshóps skilað til sænska dómsmálaráðuneytisins með tillögum um það hvernig auka mætti traust almennings til sænskra dómstóla. M.a. voru gerðar tillögur um breytingar á framsetningu dóms- úrlausna, þ.e. uppsetningu textans, röksemdafærslu og orðnotkun. Í viðauka með skýrslunni var að finna sérstakar málfræðilegar greiningar, þ.m.t. svokallað Klarspråkstest, til þess að hafa til hliðsjónar við samningu dómsúrlausna þannig að aðilar dómsmáls skildu röksemdafærslu og niðurstöðu dómstóla betur. Í 10. gr. laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, er að finna þá meginreglu að mál það sem notað er í starfsemi ríkis og sveitarfélaga, eða á vegum þeirra, skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Lítið hefur verið um fræðilega umræðu um lögfræðilegan texta hér á landi eða þá hvort að stjórnvöld uppfylli þær almennu vísireglu sem sett er fram í lögum nr. 61/2011 um vandað, einfalt og skýrt mál. Uppsetning dóma Hæstaréttar og Landsréttar hefur hins vegar tekið þeim breytingum að nú eru dómsúrlausnir með styttri tölusettum málsgreinum (efnisgreinar samkvæmt almennri málvenju). Greining á uppsetningu, röksemdafærslu eða þá orðnotkun í úrlausnum dómstóla og stjórnvalda, greining á því hvort eða hvernig mætti gera öðruvísi eða betur, hefur hins vegar ekki verið gerð hér á landi eftir því sem undirritaður kemst næst. Við þekkjum flest dæmi um lögfræðilegan texta með löngum málsgreinum þar sem aukasetningar gera það beinlínis erfitt að ráða í hvað höfundur meinar. Svo vilja sumir lögfræðingar notast við hátíðleg eða uppskrúfuð orð, sem vart þekkjast lengur í almennu máli, og gera lestur textans erfiðari. Þéringar eru síðan sérstakur flokkur, einkum þegar sá sem notar þéringarnar kann ekki að fallbeygja rétt. Veldur hver á heldur segir máltækið og sannarlega er að það sem einum finnst vandað og skýrt málfar kann öðrum að finnast óskýrt og klúðurslegt. Sá sem hér ber lyklaborðið er svo sannarlega ekki alsaklaus af því að vilja skrifa langan og uppskrúfaðan texta. Eftir útskrift úr laganámi taldi hann að best færi á því að nota uppskrúfað orðalag enda mætti með þeim hætti sýna fram á yfirburði hans í júridískum þankagangi. Þá vildi hins vegar svo vel til að velviljaður mentor í lögmennsku spurði eftir yfirferð á bréfi hvers vegna þyrfti að segja í tíu orðum það sem mætti segja með einu. Mentorinn ráðlagði honum að skoða pistla Jónasar Kristjánssonar ritstjóra enda kynni hann að skrifa stuttar setningar og læsilegan texta. Það hlýtur að vera kjarni málsins að textinn sé skiljanlegur þeim sem hann þurfa að nota. Þegar rætt er um traust almennings til dómstóla og lögmanna er sjaldan vikið að því hvort að úrlausnir og bréfaskriftir kunni að skipta máli. Það er tímabært að ræða þetta í okkar hópi eða við aðra þá sem málið kann að varða. Með það í huga óskar ritstjórn Lögmannablaðsins lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla, árs og friðar og þakkar samfylgdina á árinu. ARI KARLSON RITSTJÓRI

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.