Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2013, Qupperneq 48
48 – Sjómannablaðið Víkingur
1.
Grobb er leiðinlegt og í stangaveiði er það óþolandi. Líklega
er grobb í hvaða veiði sem er óþolandi, hvort heldur sem
menn eru að moka upp síld, golþorskum eða plaffa niður síð-
ustu rjúpurnar. Það er á einhvern hátt undarleg tilfinning að
svala veiðieðlinu og varla neitt til að stæra sig af þegar bráðin
liggur blóðug í valnum og maður sleikir út um og fær vatn í
munninn.
Að sjálfsögðu á maður að vera stoltur af góðum feng en að
ofmetnast og mikla sig yfir bráðinni er ekki til fyrirmyndar.
Okkur ber að sýna náttúrunni tilhlýðilega virðingu, fara varlega
að öllu lífi og taka aldrei meira en við þurfum til matar. Þess
vegna á maður ekkert endilega að hreykja sér hátt þótt önnur
skepna hafi látið lífið í þágu áframhaldandi hérvistar okkar, en
þar fyrir utan – og kannski er það heila málið – býður grobbið
heim hættunni á því að við gerum um leið lítið úr náunganum
eða þeim sem ef til vill njóta ekki velvildar veiðigyðjunnar þá
stundina og veiða lítið sem ekkert. Í gagnmerkum siðareglum
fluguveiðifélagsins Ármanna segir m.a.:
Ármaður deilir veiðigleði með
félögum sínum,
berst lítt á við veiðiskap
og er hæverskur áhorfandi.
Þetta eru góðar reglur og í veiðiskap hefur mér margoft verið
hugsað til hógværðarinnar og þess að berast ekki mikið á. Mér
hefur lærst að taka því þótt aðrir veiði miklu betur en ég og
líka að gera ekki lítið úr öðrum þótt mér gangi ágætlega en
þeim treglega.
Stundum hefur verið nokkuð snúið að bæla niður grobbið.
Stundum hefur verið ennþá erfiðara að leyna vonbrigðum sín-
um. Erfiðast hefur þó reynst, til lengri tíma litið, að melta við-
brögð annarra, hvort heldur þeir veiða eins og berserkir eða fá
ekki neitt.
2.
Fyrir ótal mörgum árum var ég í Veiðivötnum á Landmanna-
afrétti að veiða í Litla-Fossvatni og beitti rauðum Mepps
spinner. Ég hafði landað þremur pattaralegum urriðum þegar
Lárus kunningi minn valhoppaði niður á bakkann til mín, dáð-
ist að fiskunum og fór sjálfur að reyna að kasta á sama staðinn,
jafnvel þótt línurnar okkar færu þar af leiðandi stundum í
flækju.
Þegar ég var kominn með fimm feita urriða en hann engan,
vogaði hann sér loks að spyrja hvað ég væri að nota.
„Rauðan Mepps,“ sagði ég svolítið drýgindalegur.
Lárus átti ekki slíkan grip og eftir að ég hafði landað enn
einum feitum urriða, þeim stærsta til þessa, fór ég að finna til
með Lalla og gaf honum rauðan Mepps. Hann þóttist hafa
himin höndum tekið, hnýtti spinnerinn skjálfhentur á línuna
og kastaði taugaveiklaður hér um bil í hausinn á mér. Ég fann
hvernig þríkrækjan straukst við eyrað á mér og sá hvernig
spúnninn sentist í stórum boga þvert yfir línuna mína. Ég
ákvað að láta sökkva svo línurnar flæktust ekki saman, festi
spinnerinn minn í botni og neyddist til að slíta.
Nú færði ég mig spottakorn inn með vatninu og eftirlét Lalla
matarkistuna góðu, punktinn sem hafði gefið mér fimm feita
urriða. Kunninginn var ekki lengi að færa sig í fótspor mín,
stillti sér upp á þeim stað þar sem ég hafði staðið og kastaði í
gríð og erg. Mér sýndist hann vera farinn að svitna á enninu í
sumarhitanum og augun virtust mun stærri og rauðþrútnari en
þegar hann, stundarfjórðungi áður, vappaði í rólegheitum niður
á bakkann. Það hvorki gekk né rak hjá vininum en ég varð
alltaf var annað slagið og landaði einum urriða til viðbótar. Eftir
um hálftíma kom Lalli til mín sótbölvandi og hér um bil henti
Meppsinum í mig.
„Þetta er nú meiri ördeyðan,“ þusaði hann. „Og handónýtur
spúnn! Það er andskotann engan fisk hér að hafa!“
„Nei, þetta er frekar tregt,“ muldraði ég og fann að enn einn
urriðinn hafði fest sig á Meppsinn minn. Ég losaði um brems-
Veitt í Staðará í Steingrímsfirði sem gefur bæði sjóbleikju og lax.
Texti og myndir: Ragnar Hólm Hógværðin
og hluttekningin