Skessuhorn


Skessuhorn - 21.09.2022, Blaðsíða 20

Skessuhorn - 21.09.2022, Blaðsíða 20
MIÐVIKUDAGUR 21. SEPTEMBER 202220 Fyrir tíu árum birtist í Skessuhorni þessi frétt: „Um tíuleytið sl. mánu­ dagskvöld varð bílvelta á Vatnaleið á Snæfellsnesi. Tveir menn voru í bílnum og voru tveir sjúkrabílar sendir á staðinn. Mennirnir voru fyrst fluttir á heilsugæslustöð­ ina í Stykkishólmi en þaðan með sjúkrabíl á Landspítalann í Reykja­ vík. Vindhraði var mjög mikill þegar slysið átti sér stað, eða um 30 metrar á sekúndu. Bíllinn er gjör­ ónýtur.“ Ármann Freyr Hjelm var farþegi í bílnum þetta örlagaríka kvöld. Hann var ekki í bílbelti og slasað­ ist töluvert þar sem hann kastað­ ist út úr bílnum og missti meðvit­ und í nokkurn tíma. Hann þurfti að dvelja í sex daga á gjörgæslu og þá tók við löng og ströng endur­ hæfing, andleg og líkamleg, en Ármann varð ekki vinnufær aftur fyrr en fimm árum eftir slysið. „Þá fattaði ég að ég var ekki í belti“ Þriðja september 2012 tekur Ármann, að sögn, hvatvísa ákvörðun. Vinur hans var að halda partý í bústað rétt utan við Stykkis­ hólm og ákveður Ármann á síð­ ustu stundu að fara þangað. Hann hringdi í kunningja sinn sem var á bíl og var til í að skutlast með honum vestur. Þeir lögðu tveir af stað saman úr Reykjavík um kvöld­ matarleytið og gekk ferðalagið vel framan af. Báðir voru þeir í góðu skapi og bílferðin skemmti­ leg. Þegar félagarnir beygja inn á Vatnaleiðina við Vegamót finnur Ármann fyrir þreytu og ákveður að leggja sig. „Ég var orðinn frekar syfjaður og ákvað að leggja mig. Félagi minn var í ágætis málum og treysti sér til að keyra áfram svo ég lagði mig. Ég vakna svo upp við að hann var búinn að missa bíl­ inn út af veginum hægra megin og var að keyra niður stikurnar,“ segir Ármann en hann lítur þá á félaga sinn sem er sofandi. Því næst lítur hann, að eigin sögn, á hraðamæl­ inn sem sýnir 120 km/klst. „Þá fatt­ aði ég að ég var ekki í belti og það var einhvern vegin engin leið til að koma í veg fyrir bílveltuna þannig að ég greip í handfangið fyrir ofan mig og bjó mig bara undir að deyja,“ segir Ármann en hann kast­ ast út úr bílnum og missir meðvit­ und. Þegar hann rankar við sér er félagi hans að reyna að tala til hans og hjálpar honum á fætur. „Hann grípur í vinstri höndina á mér og ætlar að toga mig á fætur en þá finn ég fyrir nístandi sársauka því vinstri höndin var brotin við öxl.“ Ármann kemst svo á fætur og þeir félagar ganga upp að veginum þar sem bíll ekur fram á þá og ökumaðurinn kemur þeim til aðstoðar. Margþættir áverkar og sex dagar á gjörgæslu Sjúkrabílar mæta á staðinn og keyra drengina inn í Stykkis­ hólm þar sem áverkar þeirra eru metnir. Ármann var illa haldinn og ákveðið var að senda hann suður á bráðamóttöku Landspítalans með sjúkrabíl. Á bráðamóttökunni er Ármann sendur í sneiðmyndatöku. „Ég átti að draga djúpt inn andann í myndatökunni en ég fann að ég gat það ekki. Þá kom í ljós að lungun voru að fyllast af blóði því himnan utan um þau hafði sprungið. Ég er þá sendur í aðgerð þar sem það er lagað og gert er að öxlinni og settir í hana járnpinnar,“ segir Ármann en í kjölfarið var hann vistaður á gjörgæslu í sex daga og þar af var honum haldið sofandi í þrjá. Auk áðurnefndra áverka brotnaði í honum vinstra herðablaðið, við­ beinið og nokkur rifbein. Þá var hann með skurði á höfði og andliti sem ýmist voru heftaðir eða saum­ aðir saman. Bílstjórinn hafði hlotið minniháttar meiðsli, hann var ekki heldur í belti en kastaðist ekki út úr bílnum. Styrktaræfingar á hverjum degi Ármann var 22 ára þegar slysið varð og hafa síðustu tíu ár markast mjög af slysinu. Eftir gjörgæsludvölina fór hann heim til sín þar sem hann bjó með konu sinni og fjögurra ára gömlum syni. Við tók stíf endur­ hæfing hjá sjúkraþjálfara og sækir Ármann ennþá tíma hjá honum. „Fyrstu tvo mánuðina gerði ég bara ekki neitt. Svo byrjaði ég að fara til sjúkraþjálfara sem leiðbeindi mér og sagði mér hvernig ég mætti hreyfa mig. Ég mátti labba þannig ég labbaði mikið með hundinn minn,“ segir Ármann en eftir hálft ár af labbi og léttum æfingum gat hann byrjað að hreyfa sig mark­ vissar og fór að stunda líkamsrækt til að styrkja líkama, bein og vöðva og gerir það nær daglega enn í dag. „Ég mæti í ræktina og styrki mig alla daga eftir vinnu og geri léttar og góðar æfingar og tek svo þyngri æfingar um helgar. Mér finnst það skipta ótrúlega miklu máli að hreyfa mig á hverjum degi því ég finn hvað það hefur mikil áhrif á líkamlega líðan mína og ekki síður þá andlegu.“ Í farartæki 18 mánuðum eftir slysið Ármann segist glíma við mikla áfallastreituröskun eftir slysið og hefur átt mjög andlega erfitt allar götur síðan en það hefur hjálpað honum að leita til sálfræðings vegna þessa. „Í eitt og hálft ár þá fór ég ekki í nein farartæki, það var bara svo mikil hræðsla,“ segir Ármann en hann gekk allt sem hann þurfti að fara á þessum tíma. Með aðstoð sálfræðings tókst honum svo að ná taki á hræðslunni, hann steig inn í óttann og byrjaði á því að keyra sjálfur. Þá leið tölu­ verður tími þar til hann treysti sér til að vera farþegi í bíl og enn í dag kýs hann frekar að keyra sjálfur, þá sérstaklega ef það er bílferð út fyrir bæjarmörkin. Fær vinnu sem bílstjóri Það var svo ekki fyrr en fimm árum eftir slysið sem Ármann fer aftur út á vinnumarkaðinn. „Ég var búinn að ákveða að gefa mér þann tíma sem ég þyrfti til að ná upp líkam­ legum og andlegum styrk. Og svo þarna fimm árum eftir slysið byrja ég að vinna aftur. Þá fæ ég vinnu sem bílstjóri á sendiferðabíl sem var mjög gott fyrir mig til að kom­ ast almennilega yfir hræðsluna við að keyra bíl,“ segir Ármann. Eftir tvo mánuði í þeirri vinnu lendir Ármann í aftanákeyrslu þar sem tveir bílar keyra aftan á hans. Það var mikið andlegt áfall fyrir Ármann og ýtti undir áfallastreituröskun­ ina sem tók sig upp að nýju. Í því slysi flísaðist líka úr hryggjarlið hjá honum og þurfti hann að vera í veikindaleyfi frá vinnu í sex mánuði vegna endurhæfingar. „Hann var ekki eins heppinn og ég“ „Sumir dagar eru erfiðir en margir góðir,“ segir Ármann og bætir við „Ég var verulega kærulaus á þessum tíma. Það er alltaf betra að vera í belti. Ég er bara svo feginn að vera ennþá lifandi.“ Þá segist hann jafnframt stundum þurfa að velja hvernig áhrif slysið hafi á hann en honum takist yfirleitt að láta sér líða vel. Ármann var óumdeilan­ lega heppinn þótt slysið hafi haft margþætt áhrif á hans líf allar götur síðan. Snemma árs 2020 varð hann svo fyrir miklu áfalli þegar bróðir hans lenti í bílslysi og dó. „Við vorum mjög nánir bræður, hann var ári eldri en ég og við ólumst náttúrulega alveg upp saman. Hann dó í bílslysi fyrir rúmum tveimur árum,“ segir Ármann og bætir við eftir stutta kúnstpásu. „Hann var ekki eins heppinn og ég.“ Óvinnufær eftir fráfall bróður síns Dauðsfall bróður Ármanns hafði mikil áhrif á hann og ýfði upp gömul andleg mein. „Ég þurfti að draga mig úr vinnu. Ég bara gat ekki unnið. Ég fékk aðstoð hjá Virk og var í prógrammi hjá þeim í eitt og hálft ár,“ segir Ármann. Hann var þá að vinna sem öryggis­ vörður og vann mikla næturvinnu. „Mér líkaði ótrúlega vel í þeirri vinnu, maður labbaði mikið og það var þægilegt að keyra um á kvöldin og á nóttunni þegar það var lítil umferð.“ Þótt sú vinna væri skemmtileg gat Ármann ekki mætt til vinnu. „Vinnuveitandinn var mjög almennilegur við mig og ég reyndi að fara aftur að vinna hjá honum eftir að ég var búinn með veikindaleyfið mitt en ég bara gat það ekki. Næturvinnan hafði ekki góð áhrif á mig þótt hún væri skemmtileg. Mig vantaði bara meiri festu og meiri rútínu,“ segir Ármann en eftir eitt og hálft ár af endurhæfingu og and­ legri vinnu með sálfræðingi fékk Ármann vinnu í varahlutaþjónustu BL. „Vinnan sem ég er í í dag er mjög þægileg, ég er í góðri rútínu og það eru fáir álagspunktar.“ Minna hvort annað á hvað er gott í lífinu Ármann er í fullri vinnu í dag. „Ég var á örorku fyrstu fimm árin eftir slysið og lenti í miklu tekjutapi svo ég þurfti á því að halda. En ég er í 100% vinnu í dag og ræð vel við það því þetta er svona minniháttar líkamleg vinna,“ segir Ármann. Í dag hefur hann það eins gott og hann getur haft það, sumir dagar eru erfiðir en margir góðir. „Ég fæ líka gríðarlega góðan stuðn­ ing frá konunni minni og við erum góð í að minna hvort annað á hvað er gott í lífinu, hún þekkti bróður minn náttúrulega mjög vel líka og við erum saman í þessu,“ segir Ármann að lokum. gbþ/ Ljósm. úr einkasafni Tíu ára raunaganga eftir bílveltu á Vatnaleið Rætt við Ármann Frey Hjelm farþega í örlagaríkri ferð tveggja félaga Dóttir Ármanns heimsækir pabba sinn á gjörgæsludeild eftir slysið. Ármann ásamt eiginkonu sinni á góðri stundu. Hjónin eru góð í að minna hvort annað á hvað er gott í lífinu. Bíllinn gjöreyðilagðist eftir margar veltur 3. september 2012. Ármanni Frey líður mikið betur, andlega og líkamlega, við að hreyfa sig reglulega.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.