Fréttablaðið - 09.12.2022, Blaðsíða 22
Bókin Kóreustríðið eftir
rithöfundinn Max Hastings
er nú komin út á íslensku
í þýðingu Magnúsar Þórs
Hafsteinssonar á vegum
Uglu útgáfu.
Áður hefur hann þýtt nokkrar
aðrar bækur, meðal annars tvær
eftir sama höfund og skrifað sagn-
fræðibækur um sjóhernaðinn við
Ísland í seinni heimsstyrjöld.
Magnús Þór Hafsteinsson býr á
Akranesi og er með meistaragráðu
í fiskifræði frá norskum háskóla.
Hann hefur starfað sem sjómaður,
fiskifræðingur, blaðamaður, rit-
stjóri, þingmaður, rithöfundur og
þýðandi.
„Það er ekki einfalt að þýða
svona bækur. Þetta er krefjandi
vinna en jafnframt gefandi og
skemmtileg. Íslenskt mál er ekki
ríkt af hernaðarhugtökum enda
erum við herlaus þjóð og höfum
blessunarlega sloppið við bein
stríðsátök að mestu. Ég vona þó að
þetta hafi tekist sæmilega hjá mér,“
segir Magnús og kímir.
Kóreustríðið og Vítislogar
„Kóreustríðið fjallar um mikla og
mannskæða styrjöld sem var háð
á Kóreuskaganum 1950-1953 og
stendur í reynd fram á þennan dag
því það var aldrei samið um frið
heldur vopnahlé sem heldur enn
nær 70 árum síðar. Höfundurinn
dregur upp mynd af aðdraganda
átakanna, segir sögu þeirra og
hvernig menn náðu loks að semja
um vopnahlé. Þetta stríð hefur
haft áhrif allt fram á þennan dag.
Vítislogar er saga seinni heims-
styrjaldar í einu bindi. Heilmikið
verk sem telur 900 síður. Það er
stórkostleg bók þó ég segi sjálfur
frá. Hún dregur mjög vel fram
mannlega þáttinn við stríð og í
henni eru margir ógleymanlegir
kaflar. Bókin er afar vel skrifuð.
Sterkasti boðskapur hennar er að
átök á borð við seinni heimsstyrj-
öld eru svo skelfileg að þau mega
aldrei gerast aftur. Þess vegna
verðum við að kynna okkur þessa
sögu, við megum alls ekki gleyma
henni.“
Stríð frá mannlegu sjónarhorni
Sir Max Hastings er fæddur 1946.
Hann er fyrrverandi blaðamaður
og ritstjóri stórblaða í Bretlandi
og er afar virtur og þekktur í sínu
heimalandi. Eftir að hann komst á
aldur í blaðamennskunni sneri
hann sér að fullu að
ritun bóka. Hann
hefur skrifað fjölda
sagnfræðiverka
um styrjaldasögu,
endurminninga-
bækur og fleira. Auk
þessa er hann virkur
í breskri samfélags-
umræðu og vinsæll
fyrirlesari.
„Hastings er afar
fær sagnfræðingur og
góður penni. Hann
starfaði lengi sem
stríðsfréttamaður í
Víetnam, fyrir botni
Miðjarðarhafs, í Falk-
landseyjastríðinu
og víðar. Hann hefur
geysimikla þekkingu á
því sem hann skrifar um og byggir
mikið á eigin viðtölum við þátt-
takendur, dagbókafærslum, sendi-
bréfum og þess háttar. Hastings
eltist ekki mikið við frásagnir
stjórnmálamanna eða herforingja,
heldur leitar hann frekar í reynslu
almennings, bæði hermanna
og óbreyttra borgara. Það gerir
frásögn hans mjög sterka og oft á
tíðum einstaka þar sem mannlegi
þátturinn vegur þungt. Efnistökin
verða mjög góð því hann býr aug-
ljóslega að áratuga reynslu sem
blaðamaður,“ segir Magnús.
Styrjaldarsagan er lærdómur
fyrir yfirvofandi heimsstyrjöld
„Ég er mikill áhugamaður um
sögu, stjórnmál, bækur og bók-
menntir. Mér finnst óskaplega
gaman að miðla efni, segja fólki frá
einhverju nýju, bæta við þekk-
ingarbrunn okkar allra og auka
skilning fólks,“ segir Magnús.
„Styrjaldasagan snýst bæði um
stjórnmál og mannleg örlög. Ég
réðst í að þýða þessar bækur vegna
þess að ég tel að þær færi afar
mikilvæga vitneskju. Þær sýna
okkur hvernig venjulegt fólk upp-
lifir þann hrylling sem styrjaldir
eru. Jafnframt fáum við innsýn í
hvaða aðstæður skapa
slíka voðaatburði.
Nú á tímum þegar
við stöndum á barmi
stórstyrjaldar í Evrópu
sem gæti hæglega
magnast upp í þriðju
heimsstyrjöldina, þá
er afar mikilvægt að
við kynnum okkur
sögu svona átaka til að reyna að
draga af þeim lærdóm. Bæði saga
seinni heimsstyrjaldar og Kóreu-
stríðsins getur falið í sér vegvísi
að lausn í Úkraínustríðinu áður
enn verr fer. Sagan getur kennt
okkur svo margt og hjálpað okkur
að skilja samtíma okkar. Það sem
er einstakt við báðar bækur er að
sagan er að miklu leyti sögð frá
sjónarhóli venjulegs fólks, en það
ber ávallt þyngstu byrðarnar í
svona átökum.
Þetta er allt saga sem við getum
lært af og eigum að læra af. Öll
sem á annað borð hafa áhuga á
samfélagsmálum og sögu ættu að
kynna sér efni þessara bóka. Styrj-
aldir í nútímanum hafa bein áhrif
á lífskjör hér á landi eins og við
sjáum með Úkraínustríðið. Sama
myndi gerast ef kæmi upp ófriður
í Suðaustur-Asíu. Við höfum
skyndilega nýtt stríð í Evrópu og
spennan er alltaf að magnast á
Kóreuskaganum og við Taívan. Það
er vel hugsanlegt að þarna brjótist
á næstunni út átök. Bók um sögu
Kóreustríðsins á því augljóst erindi
við samtímann.“
Í höndum lesenda
Max Hastings hefur skrifað fleiri
bækur sem hverfast um styrjaldir.
„Í haust sendi hann frá sér bók um
sögu Kúbudeilunnar 1962. Hann
hefur líka skrifað merk verk um
upphaf fyrri heimsstyrjaldar og
sögu Víetnamstríðsins þar sem
hann var sjálfur sem stríðsfrétta-
ritari. Allt eru þetta bækur sem
þyrftu að koma út á íslensku og
allar eru þær frábærar. En þetta
veltur allt á því að svona bækur
seljist.
Útgáfa Vítisloga í fyrra gekk
sem betur fer mjög vel og sú bók
er núna nánast uppseld í harð-
spjaldaútgáfu en kom út í kilju
á þessu ári. Ef Kóreustríðið selst
vel þá langar mig til að þýða fleiri
bækur eftir Hastings, því þetta eru
mikilvægar bækur, en það er ekk-
ert ákveðið enn. Það má segja að
þetta sé í höndum lesenda,“ segir
Magnús að lokum. n
Mannlegt sjónarhorn á hörmungar stríðs
Magnús Þór
segir styrjaldar-
söguna vera
eitthvað sem
við getum lært
af og eigum að
læra af. Þess
vegna sé mikil-
vægt að bækur
Hastings komi
út á íslensku.
FRÉTTABLAÐIÐ/
VALLI
Það sem er einstakt
við báðar bækur er
að sagan er að miklu
leyti sögð frá sjónarhóli
venjulegs fólks, en það
ber ávallt þyngstu byrð-
arnar í svona átökum.
6 kynningarblað 9. desember 2022 FÖSTUDAGURBÓK AJÓL