Verktækni - 2020, Síða 10

Verktækni - 2020, Síða 10
10 2.4. Staða þekkingar á Íslandi Á Íslandi var fyrst kynnt efni um sjálfakandi ökutæki árið 2015 og rýnt í aðstæður á Íslandi (Sverrir Bollason, 2016). Nokkru síðar birtist lokaritgerð frá Háskólanum í Reykjavík þar sem farið var yfir áhrif sjálfakandi bíla á hagsmunaaðila (Sigurður K. Ingimarsson og Tómas H. Jóhannesson, 2018). Þar má finna ýmis sjónarmið hagsmunaaðila í formi viðtala og mat sérfræðinga á sjálfakandi tækni. Einnig var framkvæmd könnun á huglægum þáttum, annars vegar gagnvart almenningi og hins vegar eldri borgurum, en þeir eldri reyndust með talsvert neikvæðari viðhorf gagnvart tækninni (Ingimarsson & Jóhannesson, 2018). Verkfræðistofan Mannvit gerði samantekt sem metur þætti sem hafa áhrif á umferðarrýmd samgöngukerfa vegna komu sjálfakandi ökutækja. Helstu niðurstöður tóku saman þekktar rannsóknir og bentu á þau áhrif sem sjálfakandi ökutæki og farveitur gætu haft á stofnæðar samgöngukerfisins, t.d. aukin mettun umferðar með meiri töfum og möguleg áhrif á almenningssamgöngur (Mannvit, 2019). Mannvit gaf einnig út skýrslu um áhrif 5G á samgönguinnviði sem innihélt einnig áhrif fjarskiptatækninnar á umferðarrýmd. Þar eru taldar upp niðurstöður úr umferðarflæðilíkani sem gert var af gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Niðurstöður gefa til kynna að miðað við þá forsendu að 100% ökutækja væru sjálfstýrð, leiði tækniþróunin varlega áætlað til 10% minnkunar á umferðarflæði gatnamótanna, en í besta falli muni tæknin auka umferðarflæði um 12% (Mannvit, 2020). Verkfræðistofan Efla greinir frá fyrstu niðurstöðum tilraunaverkefnis Reykjavíkurborgar og Strætó um sjálfakandi almenningssamgöngur hér á landi (Efla, 2020). Eftir að hafa greint styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri greina höfundar innviði á mismunandi leiðum og komast að því að engar augljósar hindranir standi í vegi fyrir verkefninu þó viðhorf almennings til tækninnar geti haft veigamikil áhrif á framtíðarnotkun ferðamátans (Efla, 2020). 3. Aðferðafræði og gagnaöflun 3.1. Hönnun spurningalista Spurningalisti var saminn innan starfshóps WISE-ACT og skiptist hann í þrjá hluta: 1. Viðhorfsspurningar um áhrif sjálfakandi ökutækja á bæði ferðahegðun og önnur atriði. 2. Ferðamátavalskönnun á milli hefðbundins bíls, sjálfakandi bíls í einkaeigu eða sjálfakandi bíls í samfloti. 3. Spurningar um svarendur til að greina ferðahegðun og viðhorf eftir lýðfræðilegum þáttum. Spurningalistinn innihélt því bæði viðhorf út frá huglægum þáttum lagðar fram sem staðhæfingar með möguleika á að svara á sex punkta Likert-skala frá „mjög ósammála“ (1) til „mjög sammála“ (6). Einnig voru lagðar fram spurningar um ferðamátaval við mismunandi kringumstæður. Spurningalistanum bar að miklu leyti saman við spurningalista Eurobarometer (2020). Þeim spurningalista var ekki dreift á Íslandi og eru niðurstöðurnar því nýmæli á Íslandi. Niðurstöður ferðamátavals hafa verið greindar í samanburði við önnur lönd í grein Etzioni et al. (2020). Þessi grein einblínir hins vegar á niðurstöður huglægra áhrifa einstakra þátta úr fyrsta hluta spurningalistans. Á sama tíma er reynt að bera niðurstöður viðhorfsrannsóknarinnar saman við niðurstöður ferðamátavalskönnunar Etzioni et al. (2020) og niðurstöður Eurobarometer (2020). Frekar er greint frá hönnun spurningalistans í (Thomopoulos et al., 2020).

x

Verktækni

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Verktækni
https://timarit.is/publication/957

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.