Verktækni - 2020, Side 12

Verktækni - 2020, Side 12
12 4. Niðurstöður Áður en greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar er gengið úr skugga um hvort nota megi niðurstöðurnar og yfirfæra niðurstöður úrtaksins á alla íbúa. Því var athugað eftir að svörun var lokið hvort úrtakið væri lýðfræðilega sambærilegt gögnum Hagstofu íslands (Hagstofa, 2020). 4.1. Lýðfræðileg lýsing Í samanburði úrtaksins við þýði mannfjölda (sjá Tafla 2) má strax átta sig á því að hlutfall svara sem skilgreindu sig karlkyns er yfirgnæfandi hærra en hlutfall kvenna. Við svörun sést að of fáir íbúar á aldrinum 16-19 ára og 80+ tóku þátt til að fá fullkomna samsvörun úrtaksins við þýði mannfjölda (0% í samanburði við 6% fólksfjölda á aldrinum 16 ára og uppúr). Hlutfall svarenda á aldursbilinu 50-69 ára var of hátt m.v. hlutfall sama aldursbils af heildarfjölda þýðisins þýðisins (40% í samanburði við 28%). Hlutfallslega stór hópur skilgreinir sig í „fullu námi“ en aftur á móti skilgreinir um 0% stöðu sína á atvinnumarkaði undir „annað“ þrátt fyrir að 9% íbúa á Íslandi heyrðu til þess flokks síðasta ársfjórðung ársins 2019 (Hagstofa, 2020). Að öðru leyti næst góð samsvörun úrtaks við atvinnustöðu m.v. mannfjölda á aldursbilinu 16- 74 ára. Lítil sem engin svörun barst frá einstaklingum sem hafa einungis grunnskólamenntun, þrátt fyrir að um 30% íbúa búi ekki yfir frekari menntun skv. gögnum Hagstofu. Um 85% svarenda eru með háskólapróf eða frekari menntun þó einungis 35% íbúa hafi náð slíku menntunarstigi. 98% svarenda á gilt ökuskírteini, þó einungis 92% á aldrinum 16-74 ára eigi slíkt á Íslandi. Gjarnan er hægt að sýna fram á það að samsetning heimilis hafi bein áhrif á ferðamátaval. T.d. hafa margir fræðimenn komist að því að heildartekjur heimilis hafi áhrif á ferðahegðun fólks (Jara-Diaz, 1998). Auk þess hefur staðsetning heimilis og aðgengi íbúa að bíl (mælt með fjölda bíla á heimili) að sjálfsögðu áhrif á ferðavenjur. Tafla 3 ber heimili svarenda saman við gögn Hagstofu. Við staðsetningu heimilis má sjá að hlutfallslega eru margir svarendur á höfuðborgarsvæðinu, þá sérstaklega vestan Elliðaáa (samtals 36% svarenda í stað 21% íbúa í póstnúmerum 101-108 og 170). Sú hlutfallslega mikla svörun er helst á kostnað íbúa á Reykjanesi (2% í stað 8%) NV- og Austurlandi (8% í stað 17%) og Suðurlandi (0% í stað 2%). 34% úrtaksins tilheyrir heimili þar sem heildartekjur þess fyrir skatt eru á bilinu 0-899 þúsund. Á Íslandi eru þó 55% heimila á þessu bili. Hlutur lágtekjuheimila í úrtakinu er ekki nægilega stór. Eins bendir tekjudreifing úrtaksins til þess að heimili á Íslandi séu mun tekjuhærri en gögn Hagstofu gefa til kynna. Slík bjögun kann að vera beintengd við litla svörun rannsóknarinnar á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið, þar sem heimilistekjur eru óneitanlega hærri (Byggðastofnun, 2018). Eins er úrtakið mun menntaðra en þýðið og skiljanlegt að tekjumunur sé einnig eftir því. M.t.t. heimilisstærðar er hlutfallslega lítil svörun frá svarendum í eins íbúa heimili (12% í stað 36% íbúa á Íslandi) í samanburði við stór heimili með fleiri en 5 íbúa (14% í stað 8%). Þetta kann að vera vegna lítillar svörunar í bæði yngsta og elsta aldurshópi sem líklegastir eru til þess að búa yfir einstaklingum sem búa einir.

x

Verktækni

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Verktækni
https://timarit.is/publication/957

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.