Verktækni - 2020, Page 43
43
fleiri nemendur, meiri fjármuni og aðgang að fyrirtækjum í bílaiðnaðinum. Metnaður þessara
nemenda er mikill, í raun miklu meiri en geta liðsins. Þetta má mögulega rekja til skorts á
hugrænni færni (Liðsvitund = 1).
Liðið hefur öll árin – fyrir utan eitt – smíðað frumgerðir af bíl en ekki náð að prófa þær.
Skortur á prófunum – fyrir og eftir keppnir – á bílnum og íhlutum hans hefur orðið til þess að
lítil þekking hefur byggst upp í gegnum árin. Vegna þess þá hefur framþróunin verið mjög
hæg. Það var ekki fyrr en 2018 og 2019 að fyrstu bílarnir keyrðu löglega á erlendum
keppnum. Bílarnir voru hins vegar ekki tilbúnir þegar þeir voru sendir út og þurfti að vinna í
þeim á keppnisstað til að koma þeim í gegnum reglu- og öryggisprófanir.
a. Liðsskipulag (8/14)
Langflestir nemendanna eru nemendur á fyrsta og öðru ári í grunnnámi. Örfáir nemendur
hafa reynslu og/eða fræðilega þekkingu sem nýtist í verkefninu. Vegna þessa fer stór hluti af
tíma þeirra, yfir veturinn, í að kynnast verkefninu – læra keppnisreglurnar, kröfurnar og
fyrirkomulagið – sem og læra á hugbúnaðartólin og öðlast yfirborðsþekkingu á þeim fræðum
sem þau þurfa að nýta til að endurhanna og endurbæta bíl síðasta árs (Liðseiginleikar = 2).
Í upphafi vetrar er nemendahópnum skipt upp í 3-5 manna hópa sem hver vinnur að
ákveðnum viðfangsefnum yfir veturinn; til dæmis, fjöðrunarhópur sem sér um að endurbæta
og smíða nýtt fjöðrunarkerfi og drifkerfishópur sem sér um að endurbæta og smíða nýtt
drifkerfi. Nemendur velja sjálfir hópa eftir áhugasviði nema þegar sárlega vantar í ákveðinn
hóp. Þegar það kemur upp þá aðstoðar stjórnin við finna nemendur til að manna hópinn
(Liðssamsetning = 2). Verkefnið hefur aðstöðu á háskólasvæðinu til að vinna að verkefninu
en hluti af smíði bílsins fer fram í húsnæði fyrirtækja sem styðja verkefnið (Samstaðsetning =
2).
Fyrir þátttöku í verkefninu fá nemendur þrjár ECTS einingar á haustönn og aðrar þrjár ECTS
einingar á vorönn. Nemendur sem taka þátt aftur sitja námskeiðin aftur. Þátttaka í verkefninu
gefur nemendum einnig tækifæri á að fylgja liðinu á keppnir erlendis. Flestir nemendanna
taka þátt í verkefninu í eitt skólaár (tvö misseri). Nemendur sem taka þátt aftur verða í
flestum tilfellum hópstjórar eða hluti af stjórnunarhópunum. Þessir nemendur þekkja því til
verkefnisins en þeir hafa litla sem enga reynslu eða fræðilega þekkingu í verkefnastjórnun.
Margir þeirra ferla sem eru notaðir í verkefninu eru vegna stutts þátttökutíma nemenda í
verkefninu. Eldri útskrifaðir nemendur hafa haldið tengslum við verkefnið og verið nemendum
innan handar – oft litið við á kvöldin eftir vinnu til að aðstoða. Þetta hefur reynst verkefninu og
nemendum vel. Annars vegar er þetta mikilvægur þáttur í að viðhalda þekkingu (sem er ekki
skráð í dag) og hins vegar hefur þetta hjálpað nemendum að ná fyrr tökum á viðfangsefnum
vetrarins. Sterk tenging við eldri nemendur hefur einnig neikvæða hlið því hún torveldar
leiðbeinendum að innleiða nýja og bætta vinnuferla (Skipulagðir ferla = 1).
Nemendur hafa unnið að því að koma upp skráningu og skipulagi en vinnan hefur aldrei verið
kláruð. Vinnan hefur oft verið endurvakin, því nemendur átta sig á þörfinni, en tími nemenda
er takmarkaður og því hefur vinnan fallið fljótt í skuggann fyrir meira aðkallandi verkefnum.
Skortur er á skipulögðum ferlum við ákvarðanatöku og vinnu liðsins. Að auki eru engir ferlar
til fyrir mat á eldri og nýrri hönnun eða fyrir endurbætur. Vegna þessa hefur meðal annars
verið skortur á notkun mælinga við staðfestingu á hönnun, mat á fyrri hönnun og við
endurhönnun. Skortur á skráningu hefur orðið til þess að þekking byggist hægt og illa upp,
sem dæmi má nefna að endurgjöf frá keppnum hefur ekki skilað sér á milli ára og
endurteknar athugasemdir dómara frá fyrri árum hafa hljómað í eyrum nýrra liðsmanna sem
nýjar athugasemdir (Upplýsingageymsla = 1).