Morgunblaðið - 21.12.2022, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 21.12.2022, Blaðsíða 16
16 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. DESEMBER 2022 ✝ Guðný Ragna Gunnþórsdóttir fæddist á Borg- arfirði eystri 17. ágúst 1938. Hún lést 10. desember 2022 á Landspít- alanum. Foreldrar henn- ar voru Gunnþór Eiríksson og Hildur Grandjean Hall- dórsdóttir. Guðný var þriðja í röð átta systkina, Guðrún Jónína (látin), María Karólína (látin), Eiríkur, Magn- ús, Hulda Sigurbjörg, Reynir og Hjördís. Guðný var tvígift, fyrri eigin- maður hennar var Halldór Vil- hjálmur Jónsson, f. 29. febrúar 1916. Þau skildu 1976. Börn þeirra eru: 1) Björn Mar- inó, f. 26. ágúst 1963, maki Gun- illa Carlberg. Börn Björns af fyrra hjónabandi: a) Birta Sofia, dóttir hennar er Isabella, b) Ósk- ar Alm, sambýliskona hans er Moa, c) Erik. og vann lengi á Kleppsspítala og gerðist síðar ráðskona í vega- gerð. Það má segja að þar hafi grunnurinn að framtíðarstarfinu verið lagður en hún var alla sína tíð viðloðin eldamennsku og var það hennar ástríða. Guðný bjó sín fyrstu hjúskap- arár í Reykjavík með Vilhjálmi og flutti fjölskyldan svo austur á Breiðdalsvík árið 1974 þar sem Guðný tók að sér að reka sum- arhótel í Staðarborg fyrir vin- konu sína. Þar ílengdust þau og um haustið tók Guðný að sér að reka mötuneyti og verbúð fyrir sjómenn og verkafólk. Guðný kynntist Skafta, eftir- lifandi eiginmanni sínum, 1977 og giftust þau 2004. Þau byggðu Hótel Bláfell á Breiðdalsvík og ráku það allt til ársins 1997. Eftir það fóru þau til Reykjavíkur og ráku þar fyrirtæki og síðan lá leiðin austur á Hornafjörð þar sem þau ráku veitingahús í nokk- ur ár. Árið 2006 fluttu þau í Hvera- gerði og hafa búið þar síðan ásamt því að dveljast sumarlangt á æskuslóðum Guðnýjar á Borg- arfirði eystri þar sem Skafti hef- ur stundað sjómennsku á sumrin. Útför Guðnýjar fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 21. des- ember 2022, kl. 13. 2) Þórhildur, f. 9. júní 1965, maki Níels Ragnarsson. Börn þeirra eru a) Bjartur, b) Arnar, unnusta hans er Sigríður Kristín, c) Dagur. 3) Jónína, f. 9. júní 1965, sonur hennar er Vilhjálm- ur Þór. Eftirlifandi eigin- maður Guðnýjar er Skafti G. Ottesen, f. 3. október 1947, börn hans af fyrra hjóna- bandi eru Hannes Þór, Oddgeir Ágúst og Trausti. Guðný ólst upp á Borgarfirði eystri, fyrst hjá foreldrum sínum á Bakkastekk en síðar hjá ömmusystkinum sínum Birni og Maríu. Guðný fór snemma að vinna fyrir sér í fiskvinnslu á Borg- arfirði og fluttist svo til Reykja- víkur 16 ára gömul þar sem hún fór í vist hjá tannlæknahjónum. Hún vann svo hin ýmsu störf, meðal annars á veitingahúsum Elsku mamma, það er okkur systrum ótrúlega sárt að kveðja þig, klettinn í lífi okkar, og að við getum aldrei hitt þig aftur eða hringt í þig til að spjalla eða fá ráð. Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann því það var alltaf gaman að vera þar sem þú varst, aldrei neitt vesen og ekki verið að gera of mikið úr hlutunum. Við minnumst skemmtilegu utanlandsferðanna með þér og systrum þínum, til dæmis þegar við fórum til Lúxemborgar fyrir allmörgum árum. Það átti að dvelja á fínu hóteli og leigja bílaleigubíl svo hægt væri að skutlast til Þýskalands að versla smá. En hver átti að keyra? Engin okkar var vön að keyra í útlöndum. „Ég keyri,“ sagðir þú, þrátt fyrir að þú værir sennilega versti bílstjórinn af okkur öllum og það endaði með því að þú varst rekin úr bílstjórasætinu þegar flutningabílstjórarnir lágu á flautunni á okkur þar sem við siluðumst áfram á 60 km hraða á hraðbrautinni. Þetta segir meira en mörg orð um það hvað þú varst alltaf óhrædd við að láta bara vaða. Við erum þakklátar fyrir allt sem þú kenndir okkur, að vera heiðarlegar, duglegar og sam- viskusamar. Það var góður og mikill skóli fyrir okkur að vinna við hlið ykkar Skafta á hótelinu ykkar, Hótel Bláfelli á Breið- dalsvík, sem þið byggðuð upp saman af miklum myndarbrag og unnuð þar saman hlið við hlið sem eitt. Þið Skafti unduð ykkur best seinni árin á Bakkastekk á Borgarfirði eystra, gamla æsku- heimilinu þínu. Þar dvölduð þið öll sumur og fram á haust þar sem Skafti stundaði strandveið- ar. Þegar strákarnir okkar voru yngri voru þeir sendir í sveitina til ykkar og fengu að kynnast sveitalífinu og eru þær minn- ingar þeim afar kærar. Við minnumst allra skemmtilegu samverustundanna á Stekk með ykkur Skafta á sumrin, þar sem meðal annars var farið á sjós- töng og veitt í soðið og auðvitað var aflinn eldaður um kvöldið. Takk fyrir allt elsku mamma, þú varst einstök með stórt hjarta og minningin um þig lifir í hjörtum okkar og við munum passa upp á Skafta þinn fyrir þig. Umhyggju og ástúð þína okkur veittir hverja stund. Ætíð gastu öðrum gefið yl frá þinni hlýju lund. Gáfur prýddu fagurt hjarta, gleðin bjó í hreinni sál. Í orði og verki að vera sannur var þitt dýpsta hjartans mál. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Hvíl í friði elsku mamma. Þórhildur og Jónína (Lilla og Jóna). Guðný Ragna Gunnþórsdóttir ✝ Anna Ingólfs- dóttir fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1939. Hún lést á Landspít- alanum 7. desem- ber 2022. Anna var dóttir hjónanna Hólm- fríðar Jónasdóttur, f. 24. október 1917, d. 21. desember 2011 og Ingólfs Rögnvaldssonar, f. 29. janúar 1917, d. 26. júlí 2007. Systkini Önnu eru Þorbjörg, f. 1. sept- ember 1941, Guðbjörg, f. 19. júní 1945, Rögnvaldur, f. 4. júní 1947, d. 1. febrúar 2022 og Gísli Jónas, f. 8. desember 1951. Eiginmaður Önnu var Jörgen Sigurjónsson, f. 12. nóvember 1935, d. 24. mars 2013. Þau gift- ust 30. október 1963 og bjuggu saman í Reykjavík og lengst af í Mosfellsbæ. Anna og Jörgen eignuðust eitt barn, Ingólf, f. 19. apríl 1958. Synir Ingólfs eru Jón Andri, f. 19 nóvember 2001, og Jörgen, f. 1. des- ember 2005. Eig- inkona Ingólfs er Kristín Ásta Haf- stein, f. 9. nóv- ember 1967. Anna gekk í Mið- bæjarbarnaskólann við Tjörnina í Reykjavík og síðan Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Vann hún ýmis störf, þar á meðal í fiskvinnslu, við af- greiðslu í efnalaug og bókabúð og sem aðstoðarstúlka tann- holdssérfræðings. Anna var með þeim fyrstu sem útskrif- uðust úr nýstofnuðum Sjúkra- liðaskóla Íslands og hlaut starfsleyfi sem sjúkraliði 30. janúar 1977. Auk húsbyggingar og náms stofnuðu Anna og Jörgen til rekstrar á jarðefn- isflutningum með fjárfestingum í búnaði til slíkra verka. Útför Önnu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. des- ember 2022, klukkan 13. Árið 1957 kynnist Anna síðar eiginmanni sínum Jörgen Sigur- jónssyni og að vori 1958 fæddist þeim sonur. Sökum ungs aldurs fóru Jörgen og Anna ekki að búa fyrr en 1963. Jörgen átti eftir að hlaupa af sér hornin. Anna vann í fiski á Eiðsgranda og Jörgen við höfnina hjá Eimskip. Anna bjó hjá foreldrum sínum og systkin- um með son sinn Ingólf á Bakk- astíg þar til hún fór til Svíþjóðar í lýðháskóla í Stokkhólmi. Eftir skólann fékk hún vinnu á sótt- varnarsjúkrahúsi í Stokkhólmi. Sonur Önnu var þennan tíma í góðu yfirlæti hjá ömmu, afa og frændsystkinum á Bakkastíg. Anna kom heim rétt eftir 1960 og tóku þau Jörgen upp fyrra sam- band og giftu sig 1963. Anna var með þeim fyrstu sem útskrifuðust úr nýstofnuðum Sjúkraliðaskóla Íslands og hlaut hún starfsleyfi sem sjúkraliði 30. janúar 1977. Um 1980 var ljóst að Anna gekk ekki heil til skógar. Varð ljóst að um alvarlegt krabbamein var að ræða eða non-Hodgkin’s lymphoma. Fór Anna í mjög erf- iða geisla- og lyfjameðferð sem læknaði krabbameinið. Í kjölfar þess var hún sjúklingur með geislabrennt smágirni og öll vandamál sem því fylgja. Vegna þessa lenti hún síðar í stóraðgerð 1996 með stíflað smágirni og þarmalömun en aðgerðin tókst. Þrátt fyrir þetta hjálpaði hún syninum við undirbúning að brúð- kaupi við að kvænast tengdadótt- ur sinni Kristínu Hafstein í júní sama ár. Auk framangreinds greindist Anna með legháls- krabbamein 2019 og fór í lyfja- meðferð og geisla og var læknuð en fylgikvillar gerðu hana ófæra um að ganga. Anna var svo lánsöm að fæðast inn í ástríka fjölskyldu sem studdi hana sem mest hún mátti á henn- ar yngri árum og þegar aldur færðist yfir endurgalt Anna þennan kærleika til stórfjölskyld- unnar sem mest hún mátti ásamt eiginmanni sínum. Anna var vin- sæl meðal systkinabarna sinna og voru þau oft hjá henni. Anna hélt alla tíð hesta og byggðu þau hjón nokkur hesthús yfir ævina þar sem stunduð var hestamennska á meðan heilsan leyfði. Anna var mikill dýravinur, átti hund í Barr- holtinu, hann Bangsa. Anna hafði yndi af því að skipu- leggja ferðalög og afþreyingu af ýmsu tagi og var þá ekkert til sparað. Hún ferðaðist alloft með foreldrum sínum og eiginmanni meðan þeirra naut við. Síðar ferð- aðist hún með syni, tengdadóttur og sonarsonum til Feneyja þar sem siglt var á síkjunum. Dvalið var á yndislegum stað við Garda- vatn á Ítalíu. Anna hafði unun af því að elda góðan mat og var sífellt opin fyrir að reyna eitthvað nýtt í þeim efn- um. Hún naut lista í hvívetna og var um tíma áskrifandi að Sin- fóníunni og elskaði að fara á ein- söngstónleika og hlýða á ljóða- söng. Anna var vel talandi á sænsku og ensku. Þegar hún kom í hóp fólks var hún óhrædd við að halda uppi líflegum umræðum og sá til að flestum liði vel og fólk nyti sín. Anna var hjartahlý, ráðagóð, hvetjandi, skynsöm og umfram allt mannvinur. Elsku mamma, ég vil þakka þér og pabba fyrir alla ást og um- hyggju sem þið hafið veitt mér, Kristínu minni og drengjunum okkar í gegnum lífið. Megir þú hvíla í friði í faðmi Guðs. Meira á mbl.is/andlat Þinn sonur, Ingólfur. Elskuleg tengdamóðir mín og vinur, hún Anna, hefur nú kvatt okkur. Alla tíð hefur hún staðið eins og klettur mér við hlið, einkasonar síns og gullmolanna okkar tveggja og eigum við nú um sárt að binda sem og náin fjöl- skylda hennar og vinir. Anna var ætíð hrókur alls fagnaðar, þrátt fyrir erfið ár vegna langvarandi heilsubrests. Hún lét sig sko ekki vanta í hvers kyns fögnuð þegar tækifæri gáf- ust og söng þar og dansaði af hjartans lyst og var oft og tíðum forsprakki skemmtanahaldsins. Unun hennar af að vera í faðmi fjölskyldu og vina var aðdáunar- verður eiginleiki og minnist ég óteljandi og upplífgandi ferðalaga með henni og fjölskyldu minni til óteljandi og ógleymanlegra staða, bæði hérlendis og erlendis. Alls þessa naut hún í botn. Anna var hafsjór af fróðleik og fór fátt fram hjá henni og hafði hún sterkar skoðanir á heimsins málefnum og menningu og viðr- aði þær skoðanir og viðhorf ófeimin, á léttan og skemmtilegan hátt. Hún var glettin í fasi í bland við hlýju og yfirleitt tókst henni að „krydda“ andrúmsloftið þar sem nærveru hennar naut. Mér og fjölskyldu minni var hún einstök tengdamóðir, móðir og amma sem ávallt var til staðar hvort sem eitthvað bjátaði á eða ekki. Hún var drengjunum mín- um sem besta móðir og þeir og einkasonur hennar áttu hjarta hennar og hug alla tíð. Við mun- um sakna tíðra og náinna sam- skipta við hana og eru nú erfiðir tímar fram undan, einkum þar sem jólin eru að ganga í garð. Ég þakka Önnu með einlægum hlýhug fyrir allan stuðninginn, hjálpina og væntumþykjuna sem hún hefur sýnt mér og fjölskyldu minni alla tíð, þakka henni sam- fylgdina og bið góðan Guð að varðveita hana í nýjum heim- kynnum. Blessuð sé minning elsku tengdamömmu, Önnu Ing- ólfsdóttur. Kristín Ásta Hafstein. Anna amma var dýrmæt manneskja. Hún hugaði alltaf að öllum sín- um nánustu og passaði upp á að þeir hefðu það gott. Fjölskyldan var í miklu uppá- haldi hjá henni og hafði hún bæði gaman af því að ferðast og skipu- leggja ferðir sem við fjölskyldan fórum öll saman í. Það var einstaklega gott og þægilegt að tala við hana ömmu, sérstaklega ef maður var lítill í sér. Þá sýndi hún manni skilning, hlustaði, veitti hlýju og hug- hreysti. Hún gat einfaldlega sett sig í spor annarra og átti létt með að líta alltaf á björtu hliðarnar. Hún var sannur mannvinur. Elsku amma, ég vil þakka þér fyrir allar dýrmætu og fallegu stundirnar sem við áttum saman. Þú uppfylltir æsku mína af gæfu- ríkum minningum. Það var ávallt gaman að koma í heimsókn til þín og afa að spjalla um lífið og til- veruna með góða matnum sem þú hafðir eldað. Þú varst fyrirmynd og lærði ég mikið af þér hvað varðar lífið. Sálin þín var einstök og með dýrmætan boðskap, sem flestir ættu að taka til sín. Þú varst svo hvetjandi og varst svo stolt af mér og Jörgen, sérstak- lega fyrir frammistöðu okkar í náminu, og munum við halda áfram að sinna því hörðum hönd- um. En nú ertu kominn til himna- ríkis, til Jögga afa, langafa og langömmu sem þú elskaðir svo heitt. Ég bið að heilsa þeim öllum og vona svo innilega að þú hafir það gott þarna uppi. Amma á efri hæðinni bjó í heimsóknum til hennar maður hló og hló Nærvera hennar mann ávallt gladdi fram að kvöldi til þegar maður hana kvaddi Hún var eins og engill með hjarta úr gulli hugði að öllum og ávallt studdi Á erfiðum stundum gaf hún von, eins og ljós í myrkri þegar í heimsókn hún kom Við amma gerðum margt saman og hugði hún alltaf að það yrði gaman í ferðir og bíltúra við fórum marga seint mun ég þeim minningum farga Anna var dugleg, góð og fróð hugrökk og sjálfstæð eins og okkar þjóð En nú er hún Anna lögst í dvala og til hennar einn dag mun ég fara Þitt elskandi barnabarn, Jón Andri. Elsku systir mín, vinkona og mágkona, Anna Ingólfsdóttir, er látin eftir langa sjúkrahúslegu. Margs er að minnast eftir langa samfylgd. Anna var elst okkar fimm systkina. Strax mjög ung var hún dugleg að vinna og þegar hún fékk launin tók hún gjarnan litlu systur, mig, með í bæinn og keypti eitthvað fallegt. Anna var alla tíð mjög gjafmild og þess nutu systkinabörnin oft. Hún var snemma mjög mikið fyr- ir sveitastörf og dýr, sérstaklega hesta, og ekki var hún gömul þeg- ar hún réð sig í kaupavinnu í sveit og fékk að hafa mig með. Hún og Jörgen maðurinn hennar eignuðust hesta, byggðu hesthús og stunduðu hesta- mennsku. Um tíma var Anna með reiðskóla fyrir börn og unglinga á vegum Gusts hestamannafélags og þar voru systkinabörnin ásamt einkasyninum Ingólfi til hjálpar. Seinna bjuggum við báðar í „Mosó“, áttum báðar hunda sem voru miklir vinir og hittumst nán- ast daglega í kaffi hvor hjá ann- arri. Fyrir jól bökuðum við laufa- brauð saman, um páska var föndrað páskaskraut. Yngsta dóttir okkar og nafna Önnu var mikið með henni á þess- um árum í hestunum. Anna hafði mjög gaman af tónlist og var fast- ur áskrifandi að grænni tónleika- röð Sinfóníuhljómsveitarinnar um tíma og þegar elsta dóttir okkar Braga fór að syngja á tón- leikum hér heima mætti Anna alltaf og með blómvönd. Anna systir brá sér oft í mitt hlutverk sem amma þegar ég amman sem leiðsögumaður ásamt afa Braga vorum að heim- an vegna vinnu. Anna eignaðist tvö barnabörn, flotta stráka sem voru stolt henn- ar og yndi. Anna, Ingólfur, Krist- ín Ásta tengdadóttir hennar og strákarnir voru mjög dugleg að ferðast bæði hérlendis og erlend- is og mikið ferðaðist hún með for- eldrum okkar en systir elskaði að ferðast og skoða sig um. Endalausar minningar streyma fram sem alltof langt er að skrifa um. Snemma á þessu ári misstum við bróður okkar, Rögn- vald, blessuð sé minning hans. Elsku Ingólfur, Kristín, Jón Andri og Jörgen, ykkar missir er mikill, megi algóður Guð styrkja ykkur nú og um alla framtíð. Með þessum orðum kveðjum við Bragi elskulega systur og mágkonu með þakklæti fyrir allt og allt. Guð blessi minningu hennar. Guðbjörg og Bragi. Móðursystir mín Anna Ingólfs- dóttir er látin. Það er sár og þung tilhugsun. Fyrir stuttu heimsótti ég hana á Vífilsstöðum þar sem hún æðrulaus beið eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þótt líkams- kraftarnir gæfu stöðugt eftir var skörp hugsunin óskert og hún hafði plön um hvernig það yrði hjá henni þegar hún loksins fengi herbergið sem hún hafði sótt um. Anna frænka var með mikil- vægustu persónum í lífi mínu allt frá barnæsku. Hún var elst fimm systkina og það var mikil sam- heldni í fjölskyldunni á Bakk- astíg. Við vorum oft gestir hjá Fríðu ömmu og Ingólfi afa, og tíð- ur samgangur var á milli heimila systra móður minnar. Anna frænka var afskaplega lifandi persónuleiki og hláturmild og það var alltaf mikið gleðiefni þegar hún kom í heimsókn. Sem stálpað barn var ég mjög oft hjá henni, hjálpaði henni við að skrifa reikninga og fór gjarnan með henni upp í hesthús til að moka og gefa hestunum hennar og fara jafnvel með henni á hest- bak. Hún átti fallegan Citroën og við byrjuðum oft á því á leiðinni út í hesthúsin í Kópavogi að stoppa í sjoppunni í Fossvoginum og fá okkur kók og BabyRuth – á þeim tímum algjör veisla enda sælgæti ekki daglega á borðum. Í önnur skipti keyptum við rúnstykki með birki og skruppum í kaffi til Nínu, vinkonu Önnu, sem var einnig mikil hestakona og líka geislandi af lífsgleði. Talsefnið voru hestar og hestarnir Þytur, Skírnir, Fífill og síðar Gjafar voru hluti af fjöl- skyldunni. Unglingsárin komu með önnur hugarefni hjá mér, af hestunum tók söngurinn við. Við bjuggum nú í Mosfellsbæ og ekki langt frá bjó Anna frænka ásamt Jörgen manni sínum og Ingólfi syni þeirra. Alltaf gafst tími til að skreppa í tesopa hjá frænku, með hundinn okkar Perlu, hún átti Bangsa sinn sem var dyggur förunautur um árabil. Þegar ég fluttist utan og kom heim var ávallt fyrsta verkið að hringja í Önnu frænku og þegar ég byrjaði að syngja opinberlega var hún ásamt Fríðu ömmu fastagestur. Alltaf kom hún færandi hendi með blómvönd eða annað fallegt til að gleðjast með mér. Anna frænka mín var sérstak- lega rausnarleg og gjafmild manneskja og hún var stöðugt að hugsa um hvernig hún gæti glatt fólkið sitt. Á borðinu fyrir framan mig brennur kerti í englakerta- stjaka sem hún færði mér er ég lá á nýársdag í slæmri flensu, þegar búin að afýsa einum tónleikum og óvíst um hvernig tækist að ná kröftum tímanlega. Anna var mikill stuðningur fyr- ir fjölskylduna, hún hugsaði ein- staklega vel um foreldra sína og þegar maðurinn hennar veiktist alvarlega var hún honum stoð og stytta fram á dánardag. Hún sjálf átti við alvarleg veikindi að stríða á lífsleiðinni sem settu mark sitt á hana en hún bar sig afar vel. Son- ur hennar, tengdadóttir og son- arsynir voru henni mikið gleðiefni og þau ferðuðust gjarnan saman síðustu árin en ferðalög voru hennar líf og yndi alla tíð. Elsku frænka mín, nú ert þú lögð af stað í þína hinstu ferð, megi Guð gæta þín og geyma. Ég geymi ótal dýrmætar minningar í hjartanu og bið almættið að styrkja Ingólf frænda, Kristínu, Jón Andra og Jörgen í sorginni. Rannveig Fríða Bragadóttir. Anna Ingólfsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.