Morgunblaðið - 21.12.2022, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 21.12.2022, Blaðsíða 30
MENNING30 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. DESEMBER 2022 Sofið í skáp Ég fæddist í yfirlæknisbústaðn- um á Vífilsstöðum 9. apríl 1942, og tók Helgi Ingvarsson, ömmu- bróðir minn og aðstoðar- og síðar yfirlæknir á Hælinu frá 1922 til 1967, á móti mér. Hann hafði sjálfur glímt við berkla og orðið að hverfa frá frekara læknisnámi í Kaup- mannahöfn vegna veikindanna, en náði aftur ágætri heilsu og réði sig í kjölfarið að Vífilsstaðahæl- inu. Verður hans lengi minnst vegna starfa sinna þar. Fæðingu mína bar annars að garði aðeins níu dögum eftir að foreldrar mínir, Viktor Þorvaldsson og Guðrún Ingvarsdóttir, settust þarna að vegna vinnu sem föður mínum bauðst þar. Ég er fyrsta barn þeirra, en þau fluttu þangað frá Borgarfirði eystra og bjuggu fyrstu vikurnar hjá Helga, frænda mínum og fjölskyldu hans, því ekkert húsnæði var þá laust á staðnum. Síðan fengu þau eitt herbergi til umráða í starfsmannahúsinu Davíðsborg og deildu enn fremur eldhúsi og baðherbergi með öðrum íbúum hússins, yfirleitt fimm til sex. Nokkrum árum seinna bættust við herbergi í sama húsi. Mikið var um gestakomur til okkar, bæði að vestan og austan, en þrátt fyrir þrengslin var alltaf nóg pláss fyrir alla. Það var skammt á milli okk- ar, elstu systkinanna. Árið 1943 bættist Guðmunda Inga í hópinn og Ingunn Elísabet meldaði sig í heiminn ári síðar, lýðveldisárið 1944. Þrjú börn á þremur árum og móðir okkar var aðeins 22 ára! Fyrst um sinn sváfum við börnin í skáp, en pabbi hafði útbúið rúm í hillunum og sett svo á þær merar til þess að við yltum ekki fram úr. Seinna fengum við koju. Ég svaf þá í þeirri efri, en stelpurnar saman í neðri. Ég datt oft niður á gólf og aðdragandinn að því var alltaf sá sami. Mig dreymdi að tröllskessa væri að elta mig og að ég væri kominn í sjálfheldu á bjargbrún. Ég komst undan þessari risavöxnu þjóðsagnaveru með því að kasta mér fram af brúninni og … BANG! Þetta þýddi bara eitt. Ég vaknaði háskælandi á gólfinu og var óhugg- andi lengi á eftir. Upp frá þessu hefur mér alltaf verið meinilla við tröllskessur! Hælið Vífilsstaðir voru eins og lítið þorp. Íbúarnir voru um 400 þegar mest var, þar af um 200 sjúklingar. Þeir voru á öllum aldri og úr öllum starfstéttum þjóðarinnar, enda fóru berklarnir ekki í manngreinarálit. Þröngt var um sjúklingana inni á stofunum og við hvert rúm var hrákadallur, því að oft á sólarhring þurftu hinir veiku að hósta upp slími, yfirleitt blóðugu. Döllun- um var síðan safnað saman og innihald hvers og eins rannsakað af meinatæknum, sem við kölluðum alltaf blóðsugurnar, en hrákasýnin gáfu einna bestu vísbendinguna um þróun sjúkdómsins. Var hann í rénun, stóð hann í stað eða höfðu horfurnar versnað? Þessu svaraði hrákinn. Mikill vinskapur myndaðist á milli sjúklinganna og okkar, barna starfsfólksins á Vífilsstaðahælinu, því ekki máttu börn vistmannanna eða barnabörn heimsækja þá. Við vorum því prinsarnir og prinsess- urnar á staðnum – alls staðar velkomin og alltaf var verið að gefa okkur eitthvað. Við vorum gjörsamlega ofdekruð. Sviðsmyndirnar voru fleiri. Auð- vitað var mikið um dauðsföll á Hæl- inu. Það var ekki hægt að bjarga nærri öllum, því miður. Sorglegast var að horfa á eftir ungu fólki hverfa yfir móðuna miklu. Manni fannst að það ætti bara að vera á fyrstu metrum lífsgöngunnar. Svo var allt búið. Eins og hendi væri veifað. Berklarnir spurðu aldrei að aldri. […] Minnisstæðir karakterar Á Vífilsstöðum var mannlífið fjöl- breytt og margir sjúklingarnir eru mér enn minnisstæðir. Mig langar að segja frá nokkrum þeirra: Skúli Jensson (1920-2002) Skúli Jensson var einn af þekkt- ustu sjúklingum Vífilsstaðahælis. Hann var frá Bolungarvík og 15 ára gamall veiktist hann alvarlega af lömunarveiki og gat í fyrstu aðeins hreyft höfuðið, nokkra fingur og setið í stól. Síðan fékk hann takmarkaðan mátt í hendurnar, en stóð aldrei aftur upp af eigin rammleik. Árið 1956 fékk Skúli berkla og fluttist þá á Vífilsstaðahælið sem varð síðan heimili alla tíð, þótt hann ynni sigur á berklunum. Hann hafði þá lokið lagaprófi frá Háskóla Íslands, en lögfræðina las hann utan skóla og kom þangað ekki nema til að taka prófin. Það stopp- aði ekkert Skúla. Gáfur hans og jákvæðni fleyttu honum yfir hverja hindrunina af annarri. Á Hælinu sat Skúli ekki auðum höndum og allra síst eftir að hann var laus við berklana. Hann sinnti þar skrifstofustörfum og símavörslu, sá um skattaskýrslur flestra sjúklinga og starfsmanna og var enn fremur fjárhaldsmaður margra vistmanna. Það treystu honum allir. Þá var hann mikilvirk- ur þýðandi og þýddi rúmlega 200 bækur eftir ýmsa höfunda, svo sem Margit Söderholm, Bodil Forsberg, Francis Clifford, Victoriu Holt, Ian Fleming, Per Hanson og fleiri. Meðal vinsælla bóka sem hann þýddi voru ævintýri Tom Swift sem miðaldra fólk og þaðan af eldra kannast örugglega við. Þrátt fyrir að Skúli væri lamaður var hann góður sundmaður og það var sundið sem leiddi hann og Albert Guðmundsson, þá knattspyrnukappa, saman. Þeir kynntust í Sundhöllinni þar sem Skúli þreytti sund á morgnana og Albert var um tíma sund- hallarvörður. Með þeim tókust góð kynni og þótt leiðir þeirra skildu og hinn síðarnefndi færi út í heim til að stunda íþrótt sína í veröld atvinnumanna í greininni gleymdi hann ekki vini sínum. Alltaf þegar hann kom heim til Íslands í fríum leit hann við í Sundhöllinni á morgnana til að heilsa upp á sund- kappann vestfirska. Svo var það eitt sinn í slíkri heimsókn, árið 1951, að Albert býður Skúla til Frakklands. Knattspyrnukappinn var þá leikmaður Racing Club í París og vildi ólmur fá hann til sín og sýna honum stórborgina. Þetta var eina utanlandsferð Skúla og hún varð honum ógleymanleg. Þegar halla tók á efri ár Skúla átti hann orðið í miklum erfiðleik- um með að lyfta höndunum upp á ritvélina sem hann notaði við þýðingarnar. Hann dó þó ekki ráða- laus, frekar en áður, heldur hallaði hann sér fram og beit í fingur sér þegar höfuðið var komið nógu neðarlega til þess að það mætti takast. Rétti svo aftur úr höfðinu með fingurinn á milli tannanna. Með þessu móti togaði hann hend- urnar upp á takkaraðirnar. Eftir það voru honum allir vegir færir við vélritunina. Gísli bóndi (1895-1982) Einn eftirminnilegasti sjúklingur- inn á Vífilsstaðahælinu og síðar starfsmaður þar var Gísli Sigurðs- son, kallaður Gísli bóndi. Hann var fæddur í Reykjavík, en hafði gerst bóndi suður í Garði, þaðan sem kona hans var. Þau eignuðust 14 börn og komust 11 þeirra á legg. Gísli var kunnur fyrir að hafa tamið naut og notað sem reið- skjóta. En hann fékk berkla eins og svo margir á þessum tíma. Kona hans var þá látin og hann bjó ásamt tengdamóður sinni með sjö börnum sínum, en fjögur þeirra höfðu þá verið send í fóstur. Það voru erfið skref fyrir Gísla þegar hann gekk Vífilsstaðaveginn til að leggjast inn á Hælið. En hann var heppinn. Hann læknaðist innan örfárra ára og var því útskrifaður. Í kjölfarið var hann ráðinn starfs- maður við Hælið […] Gísli átti ferðaplötuspilara og nokkrar hljómplötur og einn daginn, árið 1942, datt honum í hug að senda út tónlist í útvarps- kerfi Hælisins. Hann kallaði þetta Útvarp Vífilsstaði og seinna meir Útvarp Sjálfsvörn, en síðarnefnda heitið skírskotaði til félags berkla- sjúklinga á Íslandi. Þessi stöð, sem óumdeilanlega var fyrsta frjálsa útvarpsstöðin á Íslandi, var í gangi í 17 ár, eða til 1959. Hún var afar vinsæl meðal sjúklinganna og jafnt og þétt óx plötusafnið. Við, krakk- arnir, fengum stundum að hjálpa til við útsendingarnar, enda var Gísli mikill vinur okkar og leiddist okkur ekki að taka þátt í þessu ævintýri með honum. Á sumrin var tveimur stórum hátölurum komið fyrir á þaki Eilífðarinnar. Þá fengu þeir sem voru utandyra við leik og störf, eða bara sér til heilsubótar einnig að njóta tónlistarinnar. Hún hljómaði allan daginn, nema á hvíldartíma sjúklinganna, milli eitt og þrjú. Gísla þótti gott að fá sér aðeins í tána og hann átti alltaf frí á fimmtudögum. Þeir hétu „bónda- dagar“ hjá okkur heima. Þá lyfti bóndinn sér upp, var sóttur af leigubílstjóra um morguninn, alltaf þeim sama, Árna Helgasyni á G-251, fyrrverandi sjúklingi á Víf- ilsstaðahæli, sem ók honum síðan aftur til baka um kvöldið. Svona var það bóndadag eftir bóndadag! Gísli var sannkallaður gull- moli. Hann lagði sig fram við að skemmta öðrum og viðkvæði hans var: „Það er ekki nóg að gleðja sjálfan sig. Tilgangur lífsins er að gleðja aðra ef maður hefur nokkur tök á því.“ Þetta sagði maðurinn sem fékk sinn skammt af mótlæti lífsins og vel það, en hann var alltaf þakk- látur fyrir þá bót sem hann fékk á Hælinu og sagðist líta á Vífilsstaði sem helgan stað. Plötusafn Gísla spannaði í lokin sex þúsund plötur og þegar hann féll frá gáfu börn hans Ríkisútvarp- inu allt safnið. Það var þá stærsta plötusafn í einkaeign á Íslandi. Bókarkafli Í bókinni Ég verð að segja ykk- ur rekur Ingvar Vikt- orsson ævisögu sína. Ingvar fæddist og ólst upp á Vífilsstöð- um. Hann varð síðar kennari í Hafnar- firði og áhrifamaður þar í bæ, keppti með FH, tók þátt í bæjar- pólitíkinni og var bæjarstjóri um tíma. ÁVífilsstöðum í skugga berkla Ljósmynd/Úr einkasafni Þorp Ingvar Viktorsson fæddist í yfirlæknisbústaðnum á Vífilsstöðum þar sem foreldrar hans bjuggu. RAFRÆNT ÓSKASKRÍN BEINT Í SÍMANN Það hefur aldrei verið einfaldara að gleðja starfsfólkið! 577 5600 | info@oskaskrin.is | oskaskrin.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.