Morgunblaðið - 31.12.2022, Síða 38
STJÓRNMÁL
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. DESEMBER 2022
38
Á
rið 2022 hefur markað kaflaskil í íslenskum stjórn-
málum. Tími sóttvarnatakmarkana er loks að baki
og hefðbundin verkefni stjórnmálanna aftur á
dagskrá. Grimmdarleg innrás Rússlands í Úkraínu
breytti heimsmynd okkar á augabragði og staða efnahagsmála
er gjörbreytt. Kaupmáttur rýrnaði tilfinnanlega á árinu eftir
samfelldan vöxt síðan 2010. Nú þarf aftur pólitíska stjórn og
stefnu fyrir Ísland.
Núverandi ríkisstjórn hefur setið í rúmlega fimm ár. Það
má segja að ráðherrarnir hafi notið sín vel í góðærinu framan
af og reyndar líka í glímunni við heimsfaraldurinn, sem tókst
heilt yfir með ágætum þrátt fyrir afdrifarík hagstjórnarmistök
sem ég hef oft vakið athygli á. En nú blasir við breytt mynd.
Vaxtahækkanir og verðbólga útheimta pólitískar ákvarðanir
af öðrum toga en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur
treyst sér í til þessa. Það þýðir ekki lengur að velkjast áfram
í stefnuleysi og stöðugu viðbragði. Nú þarf einbeitta forystu
sem endurspeglar vilja fólksins í landinu um framfarir. Þar
með eru ráðherrarnir komnir í klemmu og ríkisstjórnin öll.
Efnahagsvandinn bætist ofan á velferðarvandann sem hefur
safnast upp á áratug og virðist nú vera að nálgast vendi-
punkt. Um land allt sér fólk sífellt betur að velferðarkerfið og
innviðirnir mæta hvorki kröfum almennings né atvinnulífs.
Breytinga er þörf.
Hvernig verður hinn nýi kafli sem nú fer í hönd í íslenskum
stjórnmálum? Getum við skrifað hann sjálf að einhverju marki
eða er allt komið undir utanaðkomandi þáttum? Er pólitík
óumflýjanleikans allsráðandi eða glittir í von um breytingar?
Fyrst breytum við Samfylkingunni
Það urðu tímamót á árinu í Samfylkingunni, flokki jafnað-
arfólks á Íslandi. Okkar ágæti formaður frá árinu 2016, Logi
Einarsson, sagði af sér formennskunni og kallaði um leið
eftir breyttu leikskipulagi og öðruvísi forystu. Ný forysta
var svo kjörin á landsfundi Samfylkingarinnar í haust.
Guðmundur Árni Stefánsson var kosinn mér við hlið sem
varaformaður, skömmu eftir að hafa leitt sterka endurkomu
jafnaðarfólks í Hafnarfirði í vor. Og Arna Lára Jónsdóttir tók
við sem ritari flokksins, en hún varð bæjarstjóri í Ísafjarðar-
bæ fyrr á árinu eftir mikilvægan sigur Í-listans fyrir vestan.
Landsfundurinn markaði tímamót hjá jafnaðarfólki því
að við völdum ekki bara nýja forystu heldur líka breyttar
áherslur. Ég bauð mig fram til að leiða breytingar – fyrst í
Samfylkingunni og svo í ríkisstjórn. Hin nýja forystusveit er
samhent í því verkefni og með sterkt umboð.
Við ætlum að fara aftur í kjarnann og leggja ofuráherslu
á kjarnamál jafnaðarfólks. Við ætlum að einfalda málflutn-
inginn og sameinast um mál sem við treystum okkur til að
ráðast í strax á næsta kjörtímabili – sem við vitum að er
traustur meirihluti fyrir hjá þjóðinni. Og þegar fólk spyr sig
hvaða flokkur það er sem passar upp á kjörin og velferðina
og efnahag venjulegs fólks – þá er það Samfylkingin sem á að
koma fyrst upp í hugann. Við höfum þegar hafist handa, eins
og sést á breyttu vinnulagi og áherslum á Alþingi.
Til þess að geta breytt samfélaginu
Þetta er nýtt leikskipulag jafnaðarfólks. Við höfum hlustað
á fólkið í landinu og litið í eigin barm eftir lakan árangur í
landsmálunum á undanförnum áratug. Við erum að inn-
leiða breytingar í Samfylkingunni til að ávinna okkur traust
almennings – því að aðeins þannig getum við leitt breytingar
til hins betra í íslensku samfélagi. Risaverkefni blasir við;
endurreisn velferðarkerfisins um land allt eftir áratug hnign-
unar og stórefling innviða til atvinnuuppbyggingar.
Mín sýn mótast mjög af þeim samtölum sem ég átti við yfir
1.000 manns á 50 opnum fundum um land allt á árinu. Ég fór
af stað í febrúar og byrjaði í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi. Þar
var fólk hissa að ég væri komin alla þessa leið til að hlusta,
stuttu eftir kosningar. Þó það sé ekki nema um klukkutíma
keyrsla þangað frá Háaleitishverfinu mínu í Reykjavík. Mér
eru minnistæð orð skipverjanna á ferjunni Baldri eftir að ég
þurfti að fresta næstu fundum á Snæfellsnesi vegna ófærðar:
„Það er ágætt að hún upplifi okkar veruleika á eigin skinni.“
Ég rétt náði nefnilega Baldri, áður en hann bilaði, til að kom-
ast á sunnanverða Vestfirði.
Þetta var einstök ferð sem veitti mér mikinn innblástur og
efnivið í þingstörfin. Fundirnir voru jafn ólíkir og þeir voru
margir. Sá fámennasti var á Kirkjubæjarklaustri þar sem við
vorum ekki nema sex manns. Plakötin til að auglýsa fundinn
höfðu víst ekki komist lengra en í Vík – en það kom ekki að
sök. Á fámennum fundum næst oft betra samtal og það er
mikilvægt að gefa kost á sér.
Í fundaferðinni teiknaðist upp mjög skýrt mynstur eftir
því sem samtölunum fjölgaði. Rauði þráðurinn er sá að
fólkið í landinu vill breytingar. Og sömu kjarnamálin komu
upp á hverjum einasta fundi. Það er traustur meirihluti hjá
þjóðinni fyrir styrkingu velferðarkerfisins og atvinnuinn-
viða með auknu réttlæti í skattheimtu. Þetta eru mál sem
sameina þjóðina – og það merkilega er að það væri meira að
segja meirihluti fyrir slíku á Alþingi ef stjórnarsamstarfið og
ráðherrastólarnir væru ekki ofar öllu. Heilbrigðismálin komu
alls staðar upp og húsnæðismálin líka. Aðrir málaflokkar
sem mætti nefna eru öruggar samgöngur og kjör öryrkja og
eldra fólks sem reiðir sig á almannatryggingar.
Allt eru þetta kjarnamál jafnaðarfólks. Ég leyfi mér því að
fullyrða eftir öll samtölin á árinu að jafnaðartaugin finnst
mjög víða.
Í þágu fólksins í landinu
Fólkið sem hér býr má ekki við áframhaldandi ráðleysi í
stærstu málaflokkum. Stefnuleysið birtist landsmönnum
einna best í hringli ríkisstjórnarinnar með eigin fjármála-
áætlun, fjárlög og svo breytingartillögur við eigin fjárlög á
þessu ári. Það þurfti neyðaróp frá fangelsum, lögreglu og
heilbrigðisstofnunum víða um land fyrir jól til að ríkisstjórn-
in rankaði við sér og skaffaði rétt nægilegt fjármagn til að
þurfa ekki að loka mikilvægum stofnunum um áramótin.
Um leið höfum við séð að einbeitt stjórnarandstaða skilar
árangri fyrir fólkið í landinu – til dæmis þegar ríkisstjórnin
lét undan og samþykkti hluta þess kjarapakka sem Sam-
fylkingin kynnti fyrir jól. Það eru breytingar sem hafa áhrif
á heimilisbókhaldið hjá þúsundum fjölskyldna strax á nýju
ári. Þannig vinnur Samfylkingin áfram á Alþingi samhliða
því sem við fundum með fólkinu í landinu til að halda jarð-
tengingu.
Því miður er það svo neitunarvald eins flokks í ríkisstjórn
Katrínar Jakobsdóttur kemur í veg fyrir að vilja fólksins í
landinu sé fylgt eftir. Á því bera allir flokkarnir í ríkisstjórn
ábyrgð. Til að breytingar eigi sér stað í íslenskum stjórn-
málum, til að stjórnarfarið endurspegli vilja meirihluta
almennings hér á landi, þarf Samfylkingin að verða aftur for-
ystuafl. Á næsta ári halda breytingarnar í flokknum áfram,
breytingar til að vinna að þessu markmiði í þágu þjóðar.
Á flokksstjórnarfundi í mars tekur Samfylkingin upp nýtt
merki – rós, sem er alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks. Á fundin-
um verður einnig blásið til umfangsmikils málefnastarfs sem
verður nú með breyttu sniði. Við förum af fullum þunga í lyk-
ilmálaflokka og ráðumst í víðtækt samtal við fólkið í landinu
með opnum fundum í öllum landshlutum. Útkoman verður
skýr verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn í veigamiklum málum.
Þannig skrifum við nýjan
kafla í íslenskum stjórnmálum
Um land allt er fólk farið að sjá glitta í von, glitta í stjórn-
arfar sem gæti endurspeglað hugmyndir þess um gerlegar
framfarir hér á landi. Jafnaðarfólk ætlar vera boðberar nýrra
tíma og endurvekja von og trú almennings á að það sé hægt
að breyta og gera betur.
Það er kominn tími á uppgjör við pólitík óumflýjanleikans
– þau skilaboð sem berast frá forystufólki ríkisstjórnarinnar
um að það sé einfaldlega ekki hægt að stjórna með öðrum
hætti.
Við eigum mikið verk fyrir höndum enda tekur það tíma
að ávinna sér traust til að leiða breytingar. Ég sendi því út
ákall til fólksins í landinu, til allra með jafnaðartaug, um að
taka þátt í virku samtali með okkur í Samfylkingunni. Þannig
getum við í sameiningu skrifað nýjan kafla í íslenskum stjórn-
málum.
Ég óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og þakka
samfylgdina á því liðna.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Skrifum nýjan kafla
Um land allt er fólk farið að sjá glitta í von,
glitta í stjórnarfar sem gæti endurspeglað
hugmyndir þess um gerlegar framfarir hér á
landi. Jafnaðarfólk ætlar vera boðberar nýrra
tíma og endurvekja von og trú almennings á
að það sé hægt að breyta og gera betur.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands – S