Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 6
6 Borgfirðingabók 2008
Sú tala minnir á að hér er ekki um hégóma að ræða. Þetta safn býr við
þrengsli. Það vantar rými fyrir bækur og fyrir fólk; aðstaða fyrir þá
sem vilja vinna að ritstörfum á safninu er tæpast boðleg. Samkv. grein
Guðrúnar og fleiri voru lán til gesta í lestrarsal héraðsskjalasafnsins
6 á sl. ári, sem er furðulega lág tala. Byggðasafn og náttúrugripasafn
eru oftast ekki til sýnis og listasafn með höppum og glöppum. Mikið
vantar á að Héraðsskjalasafni berist þau skjöl og heimildir sem
æskilegt væri að þar væru geymd. Hjá einstaklingum liggja t.d.
í misgóðri hirðu ljósmyndir frá liðnum tíma, margar mikilvægar
heimildir um liðna tíð, sem hvergi ættu betur heima en á safninu.
Fjárveiting Borgarbyggðar til Safnahúss, allra 5 safnanna, er á þessu
ári um 0 milljónir króna. Sú fjárveiting hefur staðið í stað að raungildi
um hríð. Hún er vissulega of lág. Menningarstarfsemi er ekki metin
sem skyldi. Fróðlegt er að bera saman fjárveitingar sveitarfélagsins
til menningarmála og t.a.m. æskulýðs- og íþróttamála. Á sl. ári,
2007, var varið til reksturs menningarmála rúmum 78 millj. króna,
en til æskulýðs- og íþróttamála tæpum 212 millj. króna. Samsvarandi
tölur fyrir árið í ár, 2008, skv. áætlun: Menningarmál um 88 millj.
kr., íþrótta- og æskulýðsmál um 228 millj. kr. Menningarmálin ná
því ekki að vera hálfdrættingur miðað við íþrótta- og æskulýðsmálin.
Heildarupphæð styrkja til íþróttafélaga á þessu ári samkvæmt
áætlun er um 2 millj. króna eða ívið hærri en til allra 5 safnanna í
Safnahúsi.
Hér er einungis ritað um Safnahús Borgarfjarðar. Önnur söfn í
héraði skipta auðvitað máli, skólabókasöfn, bókasafn Snorrastofu,
Búvélasafnið á Hvanneyri o.fl., sem hér gefst ekki rúm að fjalla um.
Menningarstarf hefur löngum verið vanmetið. Skammt er síðan
menn fóru að meta þjóðhagslegt gildi þess. ,,Nú skilar menningin um
5% til landsframleiðslunnar, fjórfalt meira en landbúnaður og mun
meira en stóriðja,“ segir dr. Ágúst Einarsson í grein sinni í þessu riti.
Um nauðsyn safna vill þó sá sem þetta ritar leggja áherslu á það sem
sagði hér í upphafi. Þau tengja saman tímana tvenna. Þau geta hjálpað
til að koma í veg fyrir hefðarrof. Og svo aftur sé vitnað í dr. Ágúst:
,,Í menningu er fólginn lykill að lausnum á vandamálum nútímans og
framtíðarinnar.“
FTH.