Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 8
8 Borgfirðingabók 2008
Sá þáttur skógarnytja sem líklega hefur verið þyngst álag á skóga
landsins, kolagerðin, var hins vegar úr sögunni á mínum bæ eftir að
ég man eftir og mun reyndar hvarvetna hafa lagst af að mestu þegar
Torfaljáirnir komu í flestra hendur, skosku bakkaljáirnir, sem Torfi í
Ólafsdal færði íslenzkum bændum á seinni hluta aldarinnar sem leið.
Þá þurfti ekki að hita til að dengja þá, eins og gömlu íslenzku ljáina.
Ekki hafði skógurinn hér á bæ farið varhluta af þeirri nýtingu frekar
en annars staðar, um það vitna kringlóttar kolgrafir víða í skóglendinu
- og jafnvel þar sem engu skóglendi er lengur til að dreifa. En af því
að skógarhögg til eldiviðar, sem og hrísreiðsla, heyrir nú líka sögunni
til kann að vera að það sé bráðum hver síðastur, að þeir rifji þau verk
upp fyrir sér og öðrum sem sjálfir tóku þátt í þeim.
Það var venja hér á Gilsbakka í æsku minni að taka upp og reiða
heim á haustin 100 til 110 hestburði af eldiviðarhrísi til vetrarins. Þeim
verkum var gjarnan farið að sinna eftir að sláturtíð allri var lokið, oft
í fyrri hluta nóvember-mánaðar. Á hlýviðrisskeiðinu, sem hófst um
það bil 1922 og lauk 1959, var afar oft rólegt tíðarfar á þeim tíma
árs, eftir haustrigningar októbermánaðar. Þá var hvött skógaröxin og
faðir minn gekk til skógar og hafði mig með, eftir að ég gat farið að
vera að gagni við að draga saman hrísið sem höggvið var.
Frá þessum tíma á ég minningar um
marga blíðviðrisdaga, með hinum sér-
kennilega haustilmi úr skóginum af rökum
mosa og rotnandi laufi. Músarholurnar
hvarvetna í skógarhlíðunum sem sögðu til
sín með dálitlum moldarbing við hverja
holu. Sortulyngið í hraunjöðrunum rautt
af lúsamuðlingum. Hvorugt getur heitið
að sjáist lengur. Minkurinn hefur að mestu
eytt hagamúsinni og um leið uglunni sem
lifði á henni og átti heima í skóglendinu.
Ég veit hins vegar ekki hvað því veldur að
sortulyngið ber nú orðið sáralítinn ávöxt.
Kannski er hagamúsin nauðsynlegur milli-
liður í sortulyngsræktinni. Mikið dró hún
að sér af muðlingum á haustin, svo mikið er
víst.
Sigurður Snorrason,
f. 1894, d. 1978; bóndi
á Gilsbakka frá 1923 til
dánardags.
(B.æ. X, 302-303.)