Borgfirðingabók - 01.12.2008, Side 9
9Borgfirðingabók 2008
Ævinlega held ég að faðir minn hafi verið búinn að ákveða áður á
hvaða svæði, eða svæðum, hann ætlaði að höggva það haustið. Alltaf
var tekið það hrís, þær hríslur, sem sýndu merki um að þær væru
farnar að fúna. Ég sé enn fyrir mér hvernig pabbi gekk að hríslunum,
kannaði hvort greinar væru farnar að stökkna, með því að reyna í
þeim sveigjuna. Stundum tók hann hríslu sem mér sýndist vera
ófúin með öllu, en varla brást að í ljós kæmi að hún var farin að
fúna í merginn. Hann var þessu mati vanur frá unga aldri. Aldrei var
rjóðurhöggvið, heldur grisjað úr það sem svona var ástatt um. Þetta
verklag jók auðvitað fyrirhöfn þess sem dró hrísið saman.
Mikil alúð var lögð við að höggva hverja hríslu svo nærri jörð
sem hægt var. Það þótti ekki þrifaleg umgengni ef stubbar eða stofnar
sáust standa langt upp úr þar sem höggvið hafði verið; gat líka orðið
að ónotalegu fótakefli þeim sem þar þurftu að ganga um næstu árin
og óljáþýtt ef slegið var.
Verkfæri þess sem hrísið tók upp var skógaröxin. Hún var gjarnan
létt í hendi, en skaftið hæfilegt að lengd til að nýta til fulls höggþyngd
blaðsins. Fyrsta skógaröxi föður míns, sem ég man eftir, held ég
að hafi verið heimasmíðuð, líklega af Jóni Guðmundssyni sem var
ráðsmaður afa míns framan af hans búskapartíð og staðarsmiður um
leið. Hún var með lengra blaði og mjórra að auganu en þær útlendu
axir sem við tóku af henni; augað víðara en á þeim og tók því öllu
gildara skaft. Líklega rúmir þrír þumlungar fyrir egg. Nær eflaust
hefur verið í henni stálþynna eins og var í íslenzku ljáunum. Eftir
það voru hér innfluttar axir með breiðara blaði en meira bolaxarlagi
í byrjun a.m.k., svo að axarhornin voru í fyrstu lítil. Axirnar voru
hitaðar og slegnar fram þegar eggin tók að þykkna. Þá slógust
hyrnurnar út og axirnar breikkuðu fyrir egg og urðu snaghyrndari
Skógaröxi. Myndin er tekin úr ritinu Úr byggðum Borgarfjarðar II, bls. 27,
eftir Kristleif Þorsteinsson. Slík öxi segir Kristleifur að hafi verið ,,höfð við
upptekningu hríssins. Sú var blaðþykk og ekki breið fyrir egg.“ (bls. 26)