Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 10
10 Borgfirðingabók 2008
með aldrinum. Nýjar voru þessar innfluttu axir styttri frá egg að auga
en gamla öxin, gætu þá hafa verið ámóta breiðar fyrir egg og hún, en
fjórir og hálfur þumlungur, eða allt að því, eftir að þær höfðu verið
hitaðar og slegnar fram nokkrum sinnum. Og þær voru með þynnra
auga og axarskallinn því mjórri. Vel held ég að þurft hafi að vanda
til herzlu á öxum, svo hvorki yrðu deigar né eggin stökk þó í harðan
kvist kæmi. Axarskaftið frá blaði gæti ég trúað að hefði gjarnan verið
um fet, en auðvitað kom fyrir að fært væri upp á ef skaftið hrökk við
augað og styttist þá sem blaðbreiddinni nam.
Annað verkfæri sem hér var til, en lítið notað eftir að ég man
eftir, var sniðill. Það er einskonar eineggja sveðja með blaði á að
gizka fetslöngu eða vel það, 2ja-ja þumlunga breiðu, og krók á þeim
endanum bakkamegin sem fjær er skafti. Mér skilst að sniðillinn hafi
verið einkum kolagerðarverkfæri, fallinn til að kvista hrís og kurla
grannt eins og hentaði við þá vinnu; krókurinn til þess að kippa að
sér hríslunum. Ég man þó aðeins eftir að sniðillinn var notaður, ég
held einkum til að kvista girðingarraft, en eitthvað líka til að kurla
í eldinn, fyrst og fremst grannt limhrís. Sniðillinn sem hérna var til
held ég að hafi verið afar lélegt bitjárn, nánast deigur, og því ekki
sózt eftir að nota hann. Skaftið var sívalt birkiskaft, ámóta langt og
öxarskaft, og tanginn á sniðlinum rekinn upp í það, en hólkur utan
um svo ekki rifnaði, líkt og gengið var frá á broddpriki eða heysting.
Hér var aftur til önnur mun stærri öxi en skógaröxin, sem stundum
var notuð til að kurla í eldinn á viðhögginu. Hún var auðvitað
miklu höggþyngri en skógaröxin og því ekki vopnhæf kvenfólki og
krökkum, en fullorðnum körlum þótti hún henta sér til að kurla það
sverara úr hrísinu. Hún var aftur á móti aldrei notuð til að taka upp
hrís. Til þess var hún alltof þung og þreytandi.
Stundum var hrísið dregið saman í litla kesti jafnóðum og upp
var tekið þar sem rúmt var að komast að til að binda það og láta upp.
Sniðill. Úr byggðum Borgarfjarðar II, bls. 29.