Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 14
14 Borgfirðingabók 2008
bara varkjaftaðir upp á reiðingshesta og fluttir heim í eldinn. Þetta var
ekki mjög vinsæll starfi, en eftir á sé ég að þetta hefur verið mesta
þrifaverk. Þessu var brennt á sumrin, en auk þess held ég að fyrir
sláttinn hafi oftast verið sóttir nálægt þrjátíu hestar, stundum um leið
og sóttur var eldiviður til ullarþvottarins.
Auk þessa var sótt framan af haustinu það sem þá þurfti í eldinn
og til að reykja við. Þar að auki fengu grannar okkar í Miðsíðunni
einatt að höggva sér í eldinn upp á lestina. Ég ímynda mér að hér geti
hafa verið teknir upp eitthvað yfir tvö hundruð hestar í mörgum árum
eftir að ég fer að muna eftir mér og þangað til olíukynding var tekin
upp og batt að mestu endi á þessi störf.
Í torfbæjunum voru síðan í fornöld yfirleitt ekki eldstæði til
upphitunar, nema að því leyti sem hita lagði frá eldhúsum. Þá hefur
eldiviðarnotkun væntanlega verið minni en á þeim tíma sem ég man.
Í mínu fyrsta minni var hér komið steinhús og voru ofnar á nokkrum
stöðum í húsinu og í þeim aðallega brennt hrísi, en ekki geri ég mér
grein fyrir hversu oft eða mikið var lagt í, án efa þó a.m.k. tvo ofna
flesta eða alla daga yfir háveturinn. Fyrstu steinhúsin voru skelfilega
köld. Síðan kom miðstöðvarhitun um 190 og aðeins lagt í á einum
stað í húsinu. Þá hygg ég að farið hafi verið að hita meira upp en áður
og skal ég þó ekki segja hvort hrísnotkun til upphitunar hefur aukist
við það; nýtingin væntanlega hinsvegar batnað. Því má vera að á þeim
tíma sem ég hef verið að lýsa hafi hríshögg til eldiviðar verið með
því mesta sem orðið hefur. Hér var svo sett olíukynding í miðstöðina
1946, ef ég man rétt, en 1949 mun AGA-eldavélin hafa komið. Síðan
hefur ekki verið höggvið hér í eldinn nema til að reykja við.
Ég hef fram að þessu eingöngu talað um hrísið sem eldivið. Ekki
má þó gleyma því að í það var líka sóttur efniviður í margvíslega
búshluti eins og án efa hafði verið gert um allar aldir. Sæist beinn
hríslustofn hæfilega gildur, með krók neðan við beina legginn, var
hann samstundis höggvinn úr hríslunni og lagður til hliðar sem
priksefni. Stundum var líka krókurinn einn hirtur og í fyllingu
tímans skeyttur við legg úr öðrum viði og gerður úr göngustafur.
Boginn stofn en gildur sýndi sig að vera hæfilegur í klyfberaboga.
Góð klumba sem vel lá í dugði í margar hagldir. Annars staðar bauð
sveigjan upp á efni í aktygjaklafa. Sumt af þessu vakti athygli á sér
þegar hríslan féll, annað var hirt úr þegar kurlað var í eldinn, sem