Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 15
15Borgfirðingabók 2008
gera þurfti hvern dag eða til hvers dags, vetrarlangt. Efniviðurinn var
svo birktur og þurrkaður lengi við hægan hita áður en úr honum var
unnið; höggvið til og síðan tálgað á vökunni. Í endurminningu minni
er faðir minn oft með eitthvað úr birki milli handanna á kvöldvökum
vetrarins, að hola klumbu í grautarausu með bjúghnífnum eða tálga
högld. Stundum að búa til spýtufólk eða húsdýr úr birki handa okkur
krökkum, en til þess efnis var nú ekki vandað með þurrkun, bara
gripið úr eldiviðarkurlinu sem borið var upp til að kynda með ofninn
áður en miðstöðin kom.
Þá er enn að nefna að alltaf var nokkuð sótt af girðingarstaurum
í skóginn eftir að tekið var að girða með gaddavír. Ekki þótti birkið
endingargott til þeirra nota fyrr en farið var að bera á það fúavörn
eftir seinna stríð. Þá margfaldaðist endingin. Talsverð vinna var að
birkja girðingaraft sem kallaður var. Hins vegar man ég ekki eftir að
höggvinn væri raftur til húsagerðar, en ég man eftir slíkum rafti undir
torfþaki í gömlum húsum. Án efa hefur þurft að birkja hann, enda
fúnaði allt fljótt sem ekki var birkt.
Allt kostaði þetta mikla vinnu, bæði aðdrættirnir sjálfir og
úrvinnslan heima, að höggva í eldinn á viðhögginu og loks að koma
eldiviðinum fyrir undir pottum eða í upphitunartækjum. Það var erfitt
verk og einhæft að höggva með öxi, bogra yfir trjárót eða leggjast á
hné, annað eða bæði, síðan alltaf sama handarhreyfingin. Ég man að
pabbi hjó oft með hægri hendinni þegar hann var að festa svefninn
á kvöldin, eftir að hafa verið í skógi daglangt. Hreyfingin var orðin
ósjálfráð.
Allt er þetta liðin tíð, en hefur um aldirnar verið ríkur þáttur í afkomu
alls þorra manna í landinu, hluti af því að bjarga sér við þær aðstæður
sem buðust. Án efa hafa þessar nytjar sums staðar verið rányrkja á
gróðurlendinu, sem víða hefur þolað illa að missa birkiskóginn, vörn
sína. Það má þó telja líklegt að fyrsta áhlaup skógeyðingarinnar hafi
ekki fyrst og fremst verið gert til að nytja skóginn til húsagerðar,
eldiviðar og kola, heldur að drjúgum hluta bara til að losna við hann.
Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig hefur verið að hemja
búsmala í því landi sem allt var kjarri vaxið, auk þess sem skógbotninn
er lélegt beitiland. Landnámin hér um slóðir sýna það að menn hafa í
fyrstu einkum sest að við sjóinn en síðan meðfram ánum og loks upp
við fjöllin, ofan við skógarþvæluna. Landnámsmenn framsveitanna