Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 20
20 Borgfirðingabók 2008
Um leið og farið var að veita fé til vegabóta kom fljótt á daginn
vandamál sem úr varð að leysa. Á Íslandi var enginn maður til sem
kunni að leggja vegi eða kunni að stjórna. Var þá það ráð tekið að leita
til frænda vorra Norðmanna og fá þar mann sem kunni að leggja vegi
og stjórna verki. Til þess valdist ungur verkfræðingur, Hovdenac að
nafni, er starfaði hér nokkur ár og kenndi Íslendingum. Meðal þeirra
sem lærðu hjá hinum norska verkfræðingi voru ýmsir menn er síðan
urðu allkunnir sem vegagerðarverkstjórar. Af þeim munu hafa orðið
þekktastir hér bræðurnir Árni og Erlendur Zakaríassynir, sem báðir
stunduðu verkstjórn meðan líf og heilsa entist, meðal annars oft hér
í Borgarfirði.---
Auk þess sem nokkrir menn lærðu hjá hinum norska manni hér fór
og eitthvað af mönnum út til Noregs um þetta sama leyti til að kynna
sér vegagerð þar af eigin raun, en það mun aftur á móti hafa gefist
verr, því talið er að fæstir þeirra hafi komið heim aftur, heldur ílengst
í Noregi. Þeim hefir sennilega litist vel á frænkur sínar austur þar og
ekki viljað frá þeim fara.---
Á þessum tíma, ca.15 árum fyrir síðustu aldamót, er vegaverkstjórn
líklega helst óþekkt hér á landi í þeirri mynd sem hún er nú í dag. Það
má því segja að vegaverkstjórn sé aðeins 67 ára gömul hér (1952).
Vinna og verkstjórn
(Samantekt úr greinum frá 1946.)
Áhöld voru mjög af skornum skammti fyrst, bæði fá og ekki eins
heppileg og nú er orðið. Kvíslar þekktust ekki fyrr en nokkru eftir
aldamót. Kantar voru ekki hlaðnir eins og nú fyrr en um 189, heldur
var vegurinn fylltur og síðan þakinn á hliðunum með torfi.
Ræsin voru venjulega þannig gerð, að kampar voru hlaðnir úr
grjóti og reft yfir með hellum, og voru misjöfn eftir því hve vandvirkir
menn gerðu þau.
Hestar voru venjulega notaðir hálfan daginn fyrir vögnunum og
þá teknir aðrir. Þóttu þeir oft magrir á haustin og illa útlítandi, en
síðan um 1910 var farið að nota þá annan hvern dag; gafst betur og
litu þeir betur út á haustin.
Aðbúð verkamannanna var fábrotin. Þeir fengu tjöld til að búa
í, og voru jafnvel upp í átta í tjaldi. Þar urðu þeir að hafa allan sinn
fatnað, mat og matreiðsluáhöld. Allir höfðu skrínukost. Rúmstæði
höfðu þeir engin, heldur lágu í röðum á tjaldgólfinu þannig að þar