Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 32
2 Borgfirðingabók 2008
Mér tókst að finna Þóri skólastjóra. Hann úthlutaði mér plássi í litlu
herbergi framan við skólastjóraíbúðina, sem eiginlega var ekki ætlað
nemendum. En á þessum árum var svo mikil aðsókn að skólanum
að segja mátti að nemendum væri troðið í hvert horn til að gera sem
flestum úrlausn. Sumarbústaður skólastjórans var fylltur af nemendum
svo og kjallarinn á prestssetrinu, a.m.k. sum árin. Einnig man ég eftir
nemendum sem voru til heimilis hjá skólastjórahjónunum og Þorgils
og Halldóru (sjá síðar) en töldust ekki til fjölskyldna þeirra.
Í herberginu ,,Tilraun“ voru þær fyrir Ásta frá Sveinatungu og
Gunna frá Sólheimatungu. Gunna svaf í hákoju uppi yfir mér en Ásta
í stöku rúmi. Við vorum einnig herbergisfélagar veturinn eftir. Þá
bjuggum við inni á kvennagangi, 24 stelpur. Þar var snyrtiherbergi
með einu salerni og einum vaski. Það varð að nægja fyrir hópinn.
Sams konar aðstaða var á strákavistunum. Ef mikið lá við gátum við
reyndar hlaupið niður í kjallara. Þar voru snyrtiherbergi með þremur
vöskum og tveimur salernum fyrir hvort kyn.
Í flestum herbergjunum bjuggu fjórir nemendur. Rúm með hákoju
yfir stóð við hvorn langvegg, borð og stóll undir glugganum og
frístandandi fataskápur, u.þ.b. 80 sentímera breiður, var fyrir aftan
annað rúmið. Ég man ekki betur en að við værum bara ánægð með
aðstöðuna. Við sveitakrakkarnir, sem komum beint úr rafmagnsleysinu
og þrengslunum í baðstofunum, kunnum vel að meta skínandi
rafljósin og upphitað hús þar sem var hátt til lofts og vítt til veggja í
sameiginlegu rými.
Ekki voru síður viðbrigði að koma úr fásinninu í sveitinni og verða
allt í einu hluti af stórum flokki af æskufólki af báðum kynjum. Við
sem vorum að fara að heiman í fyrsta sinn vorum mörg hver ákaflega
feimin og heimóttarleg til að byrja með og áttum stundum dálítið bágt,
þegar þeir veraldarvanari voru að láta ljós sitt skína á kostnað okkar
,,busanna”. En flest okkar voru fljót að eignast einhverja sálufélaga,
og ekki leið á löngu þar til við uppgötvuðum ótvíræða kosti þess að
geta umgengist svona margt fólk á líku reki og við vorum sjálf. Hvað
mig snertir tel ég að þetta nána sambýli í þrjá vetur hafi fært mér
lífsreynslu og þroska sem ég hef búið að síðan.
Hins vegar er flest löngu gleymt sem blessaðir kennararnir voru
að reyna að koma inn í kollinn á mér. Voru þeir þó hver öðrum betri.
Þórir Steinþórsson skólastjóri kenndi reikning, bókfærslu,
félagsfræði, eðlisfræði og grasafræði. Auk þess annaðist hann
innkaup og sölu á námsbókum og ritföngum, og ég held helst að