Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 35
5Borgfirðingabók 2008
saman, og skólinn kom til móts við okkur með því að halda dvalar-
kostnaðinum niðri eftir föngum. Við þvoðum af okkur og sáum um
fötin okkar að öllu leyti sjálf. Við þrifum herbergin okkar, og ég man
ekki betur en við gerðum allan skólann hreinan á vorin áður en við
fórum. Það verk unnum við undir stjórn Matthildar Hannesdóttur
ljósmóður, sem var skólahjúkrunarkona og hafði auk þess umsjón
með öllum þvottum og þrifum. Fjórir nemendur í senn hjálpuðu
til í eldhúsi og borðstofu og gátu lítið mætt í tíma þann daginn.
Borðstofuflokkurinn lagði á borð, gekk um beina, tók af borðunum,
þvoði upp og hýddi kartöflur. Tveir strákar úr hópi nemenda voru
matarstjórar. Þeir hjálpuðu til við grófustu verkin, báru t.d. inn vörur
og þunga mjólkurbrúsa, brytjuðu stórgripakjöt og slátruðu jafnvel
skepnum sem keyptar höfðu verið í mötuneytið.
Þórunn Einarsdóttir var matráðskona og hafði fjórar stúlkur sér til
aðstoðar, sem auk eldhússtarfanna sáu um þrif á eldhúsi, borðstofu,
göngum og forstofum og kannski víðar.
Maturinn var eldaður í þremur afarstórum pottum sem hitaðir voru
upp með jarðgufu. Rafknúin heimilistæki fyrirfundust hins vegar
ekki í eldhúsi Reykholtsskóla fyrr en síðasta veturinn sem ég var
þar. Þá var keypt stór hrærivél sem þótti mikið þarfaþing, því allur
brauðmatur var að sjálfsögðu heimabakaður.
Matseðill vikunnar var í föstum skorðum. Á morgnana fengum við
hafragraut og súrt slátur alla virka daga, en kakó eða kaffi og brauð
á sunnudögum. Þrisvar til fjórum sinnum var fiskur í hádegismat,
aðallega saltfiskur. Við hlökkuðum alltaf til þriðjudaganna, því þá
fengum við saltað hrossakjöt með kartöflumús og sæta tvíbökumjólk
á eftir. Fimmtudagarnir báru þó af með kjötfarsi og karrýsósu.
Strákarnir fóru þá stundum í kappát og tókst að innbyrða ótrúlegt
magn af þessari krás.
Miðdagshressingin var vatnskakó og rúgbrauðssneið og
hveitibrauðssneið, smurðar með þunnu lagi af smjörlíki en ekki
öðru áleggi. Einnig fengum við jólakökusneið eða kleinu og svo
sælgætið sjálft, nýbakaða glommu, þ.e. ríflegt stykki af skúffuköku
með kanilsykri ofan á. Í kvöldmatinn voru oftast afgangar af
hádegismatnum, svo sem plokkfiskur, brauð og grautur. Steikt kjöt
eða hangikjöt og ávaxtagrautur á sunnudögum.
Við gátum borðað okkur södd en urðum fljótt svöng aftur,
sérstaklega á kvöldin þegar við vorum t.d. búin að sprikla í lauginni
eða handbolta. Við sem fengum senda matarpakka að heiman öðru