Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 38
8 Borgfirðingabók 2008
hafði verið innréttuð sem lestrarsalur
framan við bókasafnið. Við sama
gang voru herbergi fyrir ráðskonu og
eldhússtúlkur, gestaherbergi og eitt
lítið herbergi enn. Ég gleymi ekki hvað
við Sólrún urðum hamingjusamar
þegar Þórir sagði að við mættum fá
þetta herbergi. Hvílík forréttindi!
Þetta var svo miklu betra en þó að
við hefðum fengið litla herbergið á
kvennaganginum, sem tvær aðrar
stelpur höfðu verið búnar að panta á
undan okkur. Var að undra þótt Þórir
ætti í okkur hvert bein eftir þetta?
Þennan síðasta vetur minn í
Reykholti gerðust mjög alvarlegir
atburðir þar. Smitandi lömunarveiki
kom upp í skólanum fyrri part vetrar.
Strákarnir í yngri deild veiktust hver af
öðrum. Munu 10-12 þeirra hafa tekið
veikina, en hún lagðist misjafnlega þungt á þá.
Magnúsi Ágústssyni lækni á Kleppjárnsreykjum tókst furðu fljótt
að greina sjúkdóminn. Hann skipaði sjúklingunum að liggja, hreyfa
sig sem minnst og alls ekki fara fram úr rúminu. Með því móti væru
mestar líkur á að þeir slyppu við lömun.
Þetta var hræðileg martröð fyrir sjúklingana, skólastjórann, kennar-
ana og auðvitað alla. Matthildur hjúkraði sjúklingunum eftir bestu
getu, uns þar kom að hún veiktist illa. Var ofþreytu aðallega kennt um
hennar sjúkleika. Eftir það lentu hjúkrunarstörfin á kennurunum og
þeim af herbergisfélögum sjúklinganna sem ekki tóku veikina.
Einhverjar varúðarráðstafanir voru gerðar og hvílík guðs blessun
og lán í óláni að veikin skyldi þó ekki ná að breiðast meira út en þetta.
Kennt var samkvæmt stundatöflu, og kennararnir hafa hlotið að taka
á honum stóra sínum til að láta ekki bera á ótta sínum og kvíða.
Sólrún átti skauta, og einhvern þessara nóvemberdaga í góðu
veðri fékk ég þá lánaða og fór út á svell. Ég var þarna ein lengi dags
að baksa við að standa á skautunum. Það gekk heldur illa, en ég gerði
margar atrennur og ætlaði helst ekki að gefast upp við svo búið.
Vinkonur og bekkjarsystur,
Sólrún Yngvadóttir frá Keflavík
og Þórunn Eiríksdóttir frá
Glitstöðum.