Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 39
9Borgfirðingabók 2008
Morguninn eftir var ég lasin og komin með hita. Þórir, frú Anna og
fleiri kennarar komu að vitja um mig, og þá fann ég glöggt hvað þeir
voru óttaslegnir og hvað þeim var annt um mig. Magnús læknir kom
fljótlega, skoðaði sjúklinginn og kvað upp úr með það að hér væri
ekkert alvarlegra á ferðinni en hálsbólga. Hún batnaði fljótlega. En ef
ég hefði nú verið að veikjast af lömunarveiki og reynt svona rösklega
á mig, hvernig hefði þá farið fyrir mér? – Stundum er maður miklu
heppnari en maður á skilið. Eftir þetta bannaði Þórir allar útiíþróttir
að svo stöddu, og við máttum heldur ekki fara í laugina.
Hræðilegt var þegar fréttist að einn sjúklingurinn, Jón Blöndal
frá Stafholtsey, væri orðinn alveg lamaður og hættur að geta andað
hjálparlaust. Pöntuð var öndunarvél úr Reykjavík með hraði,
svokallað stállunga. Bílstjórinn sem flutti það uppeftir þótti hafa verið
afar fljótur í ferðum. Samt munu hafa liðið um sex klukkustundir frá
því tækið var pantað þar til það kom. Hvorki farartæki né vegir voru
þá neitt sambærilegir við það sem nú er.
Allan þennan tíma hélt Þorgils íþróttakennari lífinu í drengnum
með því að gera á honum björgunaræfingar. Þorgils var mikið
hraustmenni og íþróttagarpur. Hann kenndi lífgun úr dauðadái
samhliða sundkennslunni, hvernig ætti að koma lífslofti ofan í lungu
manns sem væri hættur að anda og sannaði nú áþreifanlega gildi
þeirrar menntunar. Björgunaræfingarnar eru erfiðar til lengdar þótt
rétt handtök séu notuð, og þótti Þorgils hafa unnið geysilegt þrekvirki
með því að halda út svona lengi.
Stállungað var heilmikið ferlíki. Til þess að það gæti gegnt hlut-
verki sínu varð stanslaust að dæla í það lofti á sama hátt og lofti er
dælt í hjólbarða handvirkt. Í þessari stóru vél átti að flytja sjúklinginn
á sjúkrahús í Reykjavík.
Ég man þá stund þegar búið var að setja hann í stállungað frammi
í gangi. Stöðugt var einhver að pumpa. Andrés frá Sturlureykjum
gekk vasklega fram í því, en rétt á eftir fárveiktist hann og annar
fótur hans lamaðist.
Við stóðum þarna í kring, stór hópur af nemendum, hnípin og
hljóð, ásamt skólastjóra, kennurum og foreldrum drengsins. Enn
er mér í minni hvað hún frú Anna vék hlýlega og nærfærnislega
að foreldrum Jóns þegar hún kvaddi þau og bað Guð að gefa að
drengurinn þeirra kæmist til heilsu aftur. Það stigu áreiðanlega upp
margar hljóðar bænir þessa stund. Skömmu síðar rann bíllinn úr hlaði