Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 40
40 Borgfirðingabók 2008
með sjúklinginn. Með í för var Þorgils við annan mann til þess að
pumpa á leiðinni suður. Heyrði ég að mikið hefði mætt á Þorgils í
þeirri ferð og hann unnið þar annað þrekvirkið til.
Sjúklingurinn komst lifandi suður og í rafknúið stállunga. En ekki
leið á löngu uns sorgarfregnin barst. Hann var dáinn.
Þetta var okkur öllum áfall þótt fæst okkar hefðu náð að kynnast
Jóni að ráði, þessum prúða dreng. Hann var ekki nema fimmtán ára.
Hann hafði komið í skólann með sömu tilhlökkun og væntingar og
við hin, og nú hafði honum verið svipt svona harkalega burt. Hvers
átti hann eiginlega að gjalda, þessi sonarsonur og alnafni læknisins
vinsæla í Stafholtsey.
Andrés frá Sturlureykjum lá alllengi í Reykholti, en var fluttur
heim til sín fyrir jól og lá þar fram eftir vetri. Þótt hann kæmist á fætur
aftur hefur hann æ síðan mátt búa við afleiðingarnar af lömuninni.
Hinir sem tóku veikina lágu flestir alllengi, en fóru svo að tínast á
fætur, fölir og framúrlegir og taka til við námið á ný.
Eftir jólafríið var komin viss fjarlægð á þessa atburði. Það er að
segja hjá nemendunum, a.m.k. flestum. Það er meiri spurning hvort
kennararnir hafa orðið samir. Ég man að þessum atburðum var í og
með kennt um að Þorgils hætti kennslu þá um vorið og flutti alfarinn
frá Reykholti.
Það fór fremur vel um okkur . bekkingana í lestrarsalnum
þennan vetur, og námið sóttist þokkalega vel hjá flestum. Meiri hluti
okkar reyndi við landsprófið um vorið og stóðst það. Hinir tóku
gagnfræðapróf. Þetta vor urðum við eftir í Reykholti þegar hinir
krakkarnir fóru heim. Landsprófinu lauk ekki fyrr en seinni partinn
í maí. Þá var komið vor og freistandi að skreppa út í góðviðrið frá
próflestrinum, en ekki dugði annað en halda sér við efnið þangað til
prófin voru búin. Og þá var endanlega komið að því hjá þessum hópi
að kveðja Reykholt sem nemendur.
Mér hefur alltaf fundist að Reykholtsveturnir mínir hafi verið
einhverjir bestu vetur sem ég hef lifað, og ég verð ævinlega þakklát
öllum sem stuðluðu að því að svo mætti verða.
Kaðalsstöðum í janúar 2000