Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 41
41Borgfirðingabók 2008
Um flutning og búskaparbasl
Þessi frásögn, er hér fer á eftir, er nú orðin nær hálfrar aldar gömul.
Það sem ég segi frá, gerðist árið 1958 og rétt þar á eftir.
Vorið 1958 fluttum við hjónin, Trausti Eyjólfsson og Jakobína
Jónasdóttir, frá Vestmannaeyjum austur að Volaseli í Lóni. Lónið er
austasta sveit í Austur-Skaftafellssýslu. Hún liggur í skeifulaga krika,
milli hárra fjalla, en opið haf er í suðaustur. Miklir fjallvegir eru til
austurs og suðurs, Lónsheiði til Álftafjarðar og Almannaskarð til
Hafnar í Hornafirði. Lónið var á þessum tíma ein afskekktasta sveit
á landinu og svo einangruð að kálmaðkurinn illræmdi var ekki einu
sinni kominn þangað.
Í þessari einangrun þróaðist mjög gott mannlíf, eitt það besta, sem
ég hef kynnst og hjálpsemi við náungann einstök.
Ástæðan til þess að við fluttum frá Vestmannaeyjum upp í sveit
var m.a. sú, að við áttum orðið fimm börn og langaði til að ala þau
upp í sveit, og þá var einfalt að flytja bara með hópinn og vera með
þau í sveitinni eins lengi og hægt var.
Við keyptum þessa jörð sem var nær komin í eyði og kostaði
því ekki mikið. Ekki var nú húsakosturinn góður, þó ekki sé meira
sagt. Ekki rennandi vatn né frárennsli, ekkert rafmagn nema lítill
ljósarokkur, sem framleiddi rafmagn til ljósa, en hann var mikill
gallagripur og ekki til að treysta á. Lampar og luktir þurftu líka að
vera til. Vatninu varð annaðhvort að dæla með lítilli handdælu eða
sækja það í lækinn tvö hundruð metra leið. Mér fannst oft fljótlegra
JAKOBÍNA JÓNASDÓTTIR