Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 62
62 Borgfirðingabók 2008
Ljósið dularfulla
Oft hefur gegnum tíðina heyrst af dularfullum ljósum, sem sumir kalla
draugaljós. Margir hafa séð slík ljós, eða telja sig hafa séð þau. Oftast
eru þetta ljós sem sjást í eitt skipti á vissum stað og svo ekki meir.
Ég ætla nú eftir beiðni að reyna að rifja upp minningu frá æskuárum
mínum um undarlegt ljósfyrirbrigði, sem ég sá, og ýmsir fleiri. Það
ljós var aldeilis ekki bundið við stað eða tíma og sást um árabil að
vetrarlagi, misjafnlega oft, stundum kvöld eftir kvöld, en stundum
ekki vikum saman. Eitt held ég að hafi einkennt hegðun þess: Það
sást ekki nema í þurru og sæmilega góðu veðri, en ekki var hægt að
sjá að tunglskin eða skýjafar hefði áhrif á það.
Þá er þar fyrst frá að segja að seint um haust fór faðir minn ásamt
nágranna sínum niður í Bæjarsveit að sækja hross sem hann átti
þar. Þetta gæti hafa verið haustið 1947, því það ár fluttum við úr
Bæjarsveit að Kistufelli. Þegar fór að skyggja vorum við heima farin
að búast við þeim til baka og litum því þráfaldlega niður dalinn til
enda Krossmelanna, þangað sem fyrst sér til vegfarenda neðan dalinn
frá Kistufellshlaði. Er um það bil fulldimmt var orðið sá ég ljós í þeirri
stefnu sem fyrst sér til ferða fram af Krossmelum. Ljós þetta var hvítt
að sjá og stöðugt og virtist kyrrstætt, eða á svo hægri hreyfingu að
ekki varð greint úr fjarska. Eftir því sem leið á kvöldið færðist ljósið
smám saman nær, en það varði nokkra klukkutíma. Eftir því sem það
færðist nær dofnaði það og varð rauðleitara, og undir lokin slokknaði
það reglulega og kviknaði aftur, líkt og gengið væri með lugt og þann
FRIÐJÓN ÁRNASON