Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 66
66 Borgfirðingabók 2008
halda fram að áhugi hjá ungu fólki á því að fara í leitir sé minni en
áður var. Sé það hins vegar rétt er hætta á að það leiði til þess að
verkefnið sé ekki unnið af sömu samviskusemi og áður, sem getur
svo orðið til þess að kunnátta til að smala fé í fjalllendi glatist.
Á síðustu áratugum hefur verið farið í leitir á mismunandi tímum.
Hér í Mýrasýslu þegar ég man fyrst eftir var ,,riðið til fjalls”, svo sem
kallað var á Mýrum, sunnudaginn í 22. viku sumars. Þá stóðu leitirnar
einum degi lengur en nú, því innsti hluti afréttarins var smalaður
tvisvar. réttirnar voru þannig að Hítardalsrétt og Svignaskarðsrétt
voru fimmtudaginn í 23. viku sumars og Hraundalsrétt daginn eftir.
Ég hef ekki leitað mér upplýsinga um hvenær leitir þessara sveita
voru styttar um einn dag. Ef ég man rétt gerðist það um eða rétt fyrir
1940. Leita- og réttafærsla var gerð yfir sýsluna alla árið 1868 því þar
áður var farið í leitir viku fyrr og því var sunnudagurinn í 21. viku
sumars kallaður gamli fjallreiðasunnudagurinn á uppvaxtarárum
mínum. Síðasta breyting á tímasetningu leita var gerð fyrir fáum
árum þegar smaladagar voru færðir fram um tvo daga og riðið til
fjalls föstudag og smalað laugardag og sunnudag. Trúlega hefir þetta
verið gert til hægðarauka í því skyni að manna leitirnar.
Um réttir á þessu svæði er meira að segja en leitir. Við athugun á
þeim kemur í ljós að í þessum þrem sveitum eru þrjár og sumstaðar
fjórar kynslóðir rétta, auk annarra rétta sem ekki er gott að átta sig á til
hvers hafa verið notaðar. Vegna þess að margt er hálfgleymt og annað
hulið með öllu um notkun þeirra er svo spennandi að láta hugann
reika til liðinna alda og gera sér í hugarlund þau störf sem þar fóru
fram. Þegar gengið er um veggjabrot þessara gömlu skilarétta kemur
greinilega í ljós að forfeðrum okkar hefir ekki verið sýnt að skapa
góða vinnuaðstöðu þar, eins og fram kemur síðar í þessari grein.
Við skulum í huganum fara sveit úr sveit og skoða þetta nánar.
Hraunhreppur
Frásögnin um réttir hefst í Hraunhreppi. Í Hagahrauni eru að minnsta
kosti tvær réttir sem vitað er um. Var önnur þeirra notuð til aðrekstrar
á fé sem smalaðist þar í seinni leitum, dregið í sundur fé frá Hítardal
og ef til vill fleiri bæjum og afgangurinn rekinn til Melsréttar. Um
1970 lagðist notkun Hagaréttar niður.
Eftirtaldar réttir nefni ég í Hítardal, en þær eru eitthvað fleiri: