Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 67
67Borgfirðingabók 2008
Er þar fyrst að nefna svonefnda Þorleifsrétt sem ekki er auðvelt að
finna út hvenær síðast hefur verið notuð. Talið er að hún beri nafn
Þorleifs Beiskalda (d.1200), sem var fjárríkur bóndi í Hítardal og
goðorðsmaður á Sturlungaöld. Þá Bretabergsrétt við svonefnt
Bretaberg sem er nokkurn spöl sunnan Hítarár í norðvestur frá
Hítardalsrétt, en Þorleifsrétt er nokkru neðar og lengra frá ánni.
Sagan segir að Bretabergsrétt hafi rúmað 2000 fjár. Á seinni hluta
15. aldar sat Hítardal fjárríkur klerkur, Sigurður Jónsson, og mældi
hann ásetningsfénað sinn í fulla Bretabergsrétt og slátraði því sem af
gekk réttinni.
Samkvæmt Árbók Ferðafélags Íslands 1997 segir í prestasögum
Jóns Halldórssonar prófasts: ,,Hann segir réttina kennda við séra
Sólmund, sauðauðugan prest á 14. öld sem sagði eftir harðan vetur:
,,Fátt er nú um veturgamla sauði“. Átti hann þó um hundrað gemlinga
þetta vor“.
Næst ætla ég að nefna rétt sem lítið ber á; þó er hún nálægt alfaravegi
inn að Hítarhólmi. Þessari rétt er tvískipt og var því trúlega notuð til
sundurdráttar á sauðfé. Norðvestan vegar, neðan fjallgirðingar um
þveran Hítardal stendur hún. Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal,
sem er heimildarmaður minn um þessa rétt og sumt annað um réttir í
Hítardal, hefir aldrei heyrt um notkun hennar né í hvaða tilgangi hún
hefir verið byggð.
Neðan við svonefnt réttargil (gínandagil) sem er innst á Vatnshlíð,
en hún er meðfram Hítarvatni að vestan, er ævaforn rétt sem óvíst er
hvaða tilgangi hefur þjónað, en trúlega hefir þar verið rekið að fé
sem smalað var af þessum hluta afréttarins og dregið í sundur fé úr
dölum og Mýrum, og hefur hún þá gegnt sama hlutverki og réttin
í réttarvatnstanga þar sem dregið var í sundur fé Borgfirðinga og
Húnvetninga. Meðan byggð var á Tjaldbrekku árin 1840 – 1891 hefir
þessi rétt fengið nýtt hlutverk, því ætla má að fé þaðan hafi verið
dregið úr safninu.
Við brekkurætur Bæjarfells að norðanverðu eru rústir af mjög
gamalli rétt sem augsýnilega hefir verið skilarétt, því þar eru að
minnsta kosti 20 dilkar sem standa þó ekki allir útfrá almenningnum,
því sumir hafa verið hlaðnir nokkrum metrum frá honum. Trúlega
er þetta rétt sem hefur verið notuð sem skilarétt sveitarinnar næst á
undan þeirri sem nú er notuð. Engin leið er að draga fram í dagsljósið
á hvaða tíma hún hefur verið fyrst notuð. Á fyrstu árum 19. aldar