Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 78
78 Borgfirðingabók 2008
Safnahús Borgarfjarðar
Safnahús Borgarfjarðar hýsir fimm mismunandi söfn. Hvert þeirra
hefur sína eigin, merku sögu, en þau eiga það sammerkt að þeim
var komið á fót af áhugafólki í héraði á sínum tíma. Starfsemi
Safnahússins hefur síðan árið 2001 verið á báðum hæðum hússins
við Bjarnarbraut 4-6 í Borgarnesi. Þrír fastráðnir starfsmenn hafa
sinnt starfinu í Safnahúsinu auk lausráðinna starfsmanna, m.a. við
skráningu og umsjón sýninga, t.d. í Englendingavík.
Núverandi húsnæði Safnahússins hentar misjafnlega vel fyrir þá
starfsemi sem þar er rekin, einkum hvað varðar geymslumál, og er
stefnt að úrbótum á næstu misserum. Húsið var á sínum tíma byggt
sem prjónastofa, og var vinnslusölum breytt í sýningarsal og bókasafn.
Áðurnefndur vinnuhópur setti fram tillögur að nýtingu hússins, en
einnig því hvernig geymslu- og sýningarmálum væri betur fyrir
komið. Var m.a. horft til þess að nýta gömlu húsin í Englendingavík
til sýningarhalds að einhverju leyti, en sýningin sem sett var upp vorið
2006 í gamla pakkhúsinu fékk góða viðtökur og talsverða aðsókn,
enda svæðið afar skemmtilegt og sýningin áhugaverð og vel unnin.
Framtíðarsýn
Miðað við áætlaða fólksfjölgun í Borgarbyggð, breyttar áherslur
og auknar kröfur í safnastarfsemi almennt má ætla að umsvif
safnastarfsemi á svæðinu muni aukast á næstu árum og er óhætt að
segja að sú þróun sé þegar hafin. Mikil gróska er í menningarstarfsemi
í Borgarbyggð. Það er svo hlutverk sveitarfélagsins að styðja við
menningarstarfsemi í héraðinu öllu.
Með tilkomu aukinnar tækni hefur starfsemi bóka- og skjalasafna
einnig breyst talsvert undanfarin ár. Það þýðir ekki að með tilkomu
upplýsingatækninnar hafi þörfin minnkað. Nú er hægt er að nýta
tölvutæknina betur við skráningu og varðveislu gagna, og þarf víða
að gera átak í þeim efnum. Einnig hafa kröfur um góða og fjölbreytta
aðstöðu í bókasöfnum aukist og er algengt að þau þjóni nú hlutverki
menningarmiðstöðva í sinni heimabyggð. Þá má ekki gleyma
mikilvægi safnanna fyrir háskólana í héraðinu og möguleikum á
samstarfi þeirra.
Starfsemi minjasafna gegnir veigamiklu hlutverki til að viðhalda
og styrkja sjálfsmynd íbúa í sveitarfélaginu. En stærsta hlutverkið er