Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 90
90 Borgfirðingabók 2008
Mín fyrsta minning
Fyrsta minning mín er líklega frá því seinnipart vetrar 1929. Foreldrar
mínir bjuggu þá í húsinu númer 7 við Borgarbraut, í þá daga kallað
Nítján nítján, sem kom til af því að ártalið 1919 var greypt í steinsteypu
yfir inngönguhliði sem var í veggnum sem sneri að götunni. Það var
líka nefnt af gárungum Skverhöll, en það kom til af því að Magnús
Jónasson sem byggði húsið var mikill athafnamaður á sinni tíð,
fyrsti bílstjóri í Borgarnesi og hafði ökuskírteini nr. 1 í Mýra- og
Borgarfjarðarsýslum. Hann átti nokkrar bifreiðar, sem hann gerði út
og var oft með menn í vinnu við akstur og viðgerðir og hafði þá við
orð: ,,Við skverum þessu af“, sem í raun þýddi: ,,Við skulum vera
röskir við að ljúka þessu“. Það mun hafa verið snemma vors 1929, ég
var á fjórða ári. Minning mín er þessi: Tveir menn sitja við borð sem
var við annan gluggann í risinu í téðu húsi. annar þessara manna var
faðir minn, hinn manninn var ég ekki eins viss um. Þeir voru þarna
að drekka kaffi. Það man ég að þessi maður, snöggklæddur í fínu
leðurvesti, kom niður á gólfið til mín þar sem ég sat og fór að gera
að gamni sínu og rísla í dóti sem ég var að leika mér með. Einhvern
veginn komst það inn í vitund mína að ég taldi þetta vera síra Einar
Friðgeirsson prest á Borg, og staðfesti faðir minn það löngu seinna
þegar ég talaði um þetta við hann.
Nítján nítján eða Skverhöll, nú Borgarbraut 7.