Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 92
92 Borgfirðingabók 2008
var hann sjómaður, m.a. á Eldborg á síldveiðum og flutningum 1935
til 1937, svo á Laxfossi í ferðum milli reykjavíkur og Borgarness,
vestur á Breiðfjarðarhafnir og víðar. Hann fór í Samvinnuskólann
1941 og gerðist að því námi loknu skrifstofumaður hjá Verslunarfélagi
Borgarfjarðar og síðar sýsluskrifari og var í því starfi mörg ár með
tveim sýslumönnum, Jóni Steingrímssyni og Ásgeiri Péturssyni.
Þorkell var þó nokkur ár félagsforingi skátafélagsins Vals, sem
stofnað var 18. mars 1934 af Sveini Tryggvasyni mjólkurfræðingi.
Brennuholt
Hæðin og holtið þar sem nú er Þórólfsgata, Þórunnargata og Sæunnar-
gata hafði fyrir mitt minni verið kallað Brennuholt. Mun það hafa
komið til af því að þar höfðu verið hlaðnir bálkestir á gamlárskvöld eða
þrettánda, enda sést þaðan vítt um hérað. Þær brennur voru aflagðar í
mínu ungdæmi. En þetta holt var þá almennt kallað Vörðuholt. Kom
það til af því að á háhæðinni var stór hlaðin grjótvarða. Það er af
vörðu þeirri að segja að þegar Bretinn kom hér 1940 reif hann niður
vörðuna og reisti þarna byrgi úr sandpokum með loftvarnabyssum
til varnar fyrir þýskum árásarflugvélum. Mér er ekki kunnugt um
að nokkru sinni hafi verið hleypt þarna af skoti nema í æfingaskyni.
Seinna var reist þarna mastur fyrir endurvarp útvarps og sjónvarps
og stendur þar í dag. annars var breski herinn með fallbyssur uppi
á vegamótum, og þar voru þeir með skotæfingar yfir Borgarnes, og
skotmörkin voru Borgareyjarnar. Það hefur eflaust haft slæm áhrif á
það fuglalíf sem þar var, svo sem æðarvarp og lunda, sem dálítið var
af fyrir stríð.
Það er í minni mínu – hefur líklega verið vorið 1929 eða 1930 – að
ég var með mömmu minni þar sem saman kominn var fjöldi fólks á
klettunum ofan við Hrognkelsanef. Var þetta mjög snemma morguns
og útfall. Fólkið var að bíða eftir að út félli, í vissu um að eitthvað
af hrognkelsi mundi verða eftir á fjörunni, og það ætlaði að verða á
undan fuglinum, en hann fór í þetta um leið og það kom í ljós. Var þá
ekki að sökum að spyrja.
Af síra Einari og Jóhanni í Sveinatungu
Faðir minn kom hér suður í Borgarfjörð vorið 1922 austan af