Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 95
95Borgfirðingabók 2008
maður á Borg og samtíða þar föður mínum. Hann orti vísu við lát síra
Einars sem móðir mín kenndi mér:
Ferskeytlunnar fækka bjargir,
framtíð sína hefur mist.
Séra Einars sakna margir
sem að elska kvæðalist.
Yfirheyrsla úr Íslendingasögum
Mér er það í barnsminni að við nokkrir strákar vorum að leika okkur
og hlaupa eftir timburstöflum sem verið var að raða upp í porti hjá
geymsluhúsi Verslunarfélagsins; þar var verkstjóri sá ágæti maður
Ásmundur í dal. Hann fór að amast við því að við værum þarna með
þennan fyrirgang, hefur sennilega gert það vegna þess að hann hefur
verið hræddur um að við slösuðum okkur. Þá var staddur þarna Jón
Björnsson úr Bæ. Hann var víst alltaf mikill diplomat, og fór hann
að yfirheyra okkur út úr Egilssögu og Njálu. Varð ég aðallega fyrir
svörum, enda hafði ég byrjað að lesa Íslendingasögurnar fljótlega eftir
að ég var farinn að stauta, líkt því sem börnin lesa nú myndasögur.
Þegar hann var búinn að yfirheyra okkur kallaði hann á mig að koma
með sér í verslunarhúsið. Þar fór hann með mig upp stiga sem lá til
skrifstofu til hægri, en til vinstri handar voru dyr; þar fór hann inn
og gaf nú á að líta herbergi þar sem bækur þöktu alla veggi. Ég hafði
aldrei séð annað eins. Hann fór að blaða í bókunum. Svo kemur hann
til mín með bók í höndum og segir: ,,Þú skalt hafa þessa bók, hún
er fróðleg.“ Hún hét raunar Jörðin okkar og við. Ég varð undrandi
og vandræðalegur og sagði eitthvað á þessa leið: ,,Ég get ekki keypt
þessa bók, ég á enga peninga.“ Þá svaraði Jón (hafði fyrir orðtæki:
jamm): ,,Jamm, það er allt í lagi, þú borgar hana bara þegar þú verður
stór.“ Ég hef víst aldrei orðið stór því bókin er ógreidd ennþá, en hún
er til. Og hún er fróðleg. Ég man ekki til að við færum í Timburportið
eftir þetta.
Bátar sem hætt var að nota
Eftir að höfnin kom í Brákarey var hætt að nota báta við uppskipun
og farþegaflutninga milli lands og skips. Þá voru bátar Magnúsar