Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 124
124 Borgfirðingabók 2008
tónlist, kvikmyndagerð, arkitektúr, listdans og listmálun.
Félagar í Bandalagi íslenskra listamanna eru mörg þúsund talsins,
og fjöldi annarra starfa fylgir listsköpun. Ekki gæfu rithöfundar
mikið út ef prentiðnaðurinn og allt það fólk sem þar vinnur væri
ekki til staðar. Það væri ekki mikill tónlistarflutningur eða margar
leiksýningar ef ekki væru rafvirkjar og aðrir tæknimenn.
Skapandi atvinnugreinar framtíðarinnar
innan hagfræðinnar er um þessar mundir verið að ganga skrefinu
lengra. Þar er ekki aðeins talað um listir og menningu heldur um
skapandi atvinnugreinar. Með því er átt við alla þá hagrænu starfsemi
sem byggir á skapandi hugsun. Þetta eru atvinnugreinar eins og
listræn starfsemi, fjölmiðlun, prentiðnaður, ráðandi stjórnunarstörf,
hönnun, vísindi, rannsóknir, tíska og fleira. Listgreinar eru þarna
vitaskuld í fremstu röð, en það er margt annað sem telst til skapandi
atvinnugreina.
Skapandi atvinnugreinar, sem eru atvinnuvegir framtíðarinnar,
eiga sér rætur í list og annarri menningarlegri starfsemi. Nú er um
fjórðungur af öllum störfum á vinnumarkaði hérlendis í skapandi
atvinnugreinum. Núna er að eiga sér stað atvinnuháttabylting með
nýjum verkfærum eins og tölvunni og Netinu. Það er nær ekkert
unnið í hagkerfum heimsins án tölvunnar og Netsins.
Utanaðkomandi orka upp úr 1750
Nútímamaðurinn hefur búið á jörðinni í meira en 100.000 ár og í
skipulögðum þjóðfélögum í um 12.000 ár. Fyrstu 11.750 árin barðist
maðurinn við að hafa í sig og á, reyndi að lifa af og fjölga sér
nægjanlega. Listir voru þó skammt undan, í myndum, listmunum,
tónlist og fleiru. Listsköpun hefur fylgt manninum lengur en flest
annað, og þörfin fyrir list er mjög nálægt hinum lífsnauðsynlegu
verkefnum að afla sér fæðu og halda á sér hita til að geta lifað.
Fyrir um 250 árum eða upp úr 1750 gerðust merkilegir hlutir. Þá
gerbreyttist samfélag manna. Þá hófst iðnbyltingin, og önnur orka
en vöðvaorka varð ráðandi þáttur í umhverfi mannsins. Fram að því
hafði vöðvaorka manna og dýra verið nær eina orkan í samfélagi
mannsins. aðalatvinnuvegurinn fyrir þann tíma var landbúnaður og