Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 125
125Borgfirðingabók 2008
önnur frumframleiðsla, eins og fiskveiðar og námugröftur.
Eftir 1750 varð utanaðkomandi orka lykilatriðið. Frumframleiðslan
varð hlutfallslega mun minni en áður, iðnaðarsamfélagið réð ríkjum
á 19. öldinni og á 20. öldinni tók þjónustusamfélagið við sem
ráðandi atvinnuvegur. Á 21. öldinni mun framleiðsla í skapandi
atvinnugreinum vera í forgrunni.
Fólksfjölgun og hugsanleg óhjákvæmileg tortíming
Ef við eigum að lifa á jörðinni og mæta vaxandi umhverfisvandmálum
og mikilli fólksfjölgun verðum við að hugsa öðruvísi. Fyrir 2000
árum við fæðingu Krists var íbúafjöldi jarðarinnar 130 milljónir, um
1900 eða fyrir rúmum 100 árum lifðu 1,3 milljarður manna á jörðinni.
Núna árið 2008 lifa á jörðinni 6,6 milljarðar manna, og eftir 17 ár eða
2025 verða það 8,6 milljarðar manna. Nú svelta um 20% mannkyns
heilu hungri eða 1,5 milljarður manna.
Í menningu er fólginn lykill að lausnum á vandamálum nútímans
og framtíðarinnar. Við getum ekki vænst framtíðar nema við sýnum
umburðarlyndi, víðsýni, samkennd og skapandi hugsun.
annars fer fyrir okkur eins og hinn heimsþekkti vísindamaður
Enrico Fermi spáði. Hann sagði að sérhvert samfélag tortími sjálfu
sér með aukinni tæknivæðingu og ekkert geti komið í veg fyrir það.
Þetta sé ástæðan fyrir því að við höfum aldrei getað greint neitt þróað
líf í geimnum.
Það er býsna margt sem bendir til þess að maðurinn muni gera
jörðina óbyggilega á næstu 100 til 200 árum eða jafnvel fyrr. Hvort
sem þessi kenning er rétt eða að fjarlægðir alheimsins séu svo miklar
að við náum aldrei sambandi við aðra eða aðrir við okkur skal hér ósagt
látið, en hlutverk menningar í hinni nýju heimssýn er lykilatriði.
Nágrannakærleikur er lykilinn
Listir og önnur menning, sérstaklega trúarbrögð, eru í eðli sínu friðsæl
og vilja yfirleitt vel. Það eru þau viðhorf sem þurfa að ráða en ekki
hroki, öfund, reiði, leti, græðgi, ofát og siðblinda. Þessi upptalning
eru hinar svokölluðu sjö dauðasyndir, en eins og Tómas frá aquino
sagði ber ekki að skilja þær þannig að þær leiði bókstaflega til dauða
heldur sýna þær hvernig við eigum að hegða okkur.