Borgfirðingabók - 01.12.2008, Side 156
156 Borgfirðingabók 2008
og afgreiddu skipið eins og vanalegt er með skip sem koma frá öðru
landi.
Strax var farið að undirbúa að beita línuna og hefja róðra. Skyldi
Eldborg fyrst um sinn liggja í Færeyingahöfn og bátarnir róa út frá
henni þaðan meðan öll vinna væri að slípast og fólkið að finna sig í
starfinu. 80 bjóð voru beitt og tók það lengri tíma en búist hafði verið
við, þannig að við sem vorum í aðgerðinni vorum beðnir að beita tvö
bjóð á morgnana áður en bátarnir komu að með aflann. Það fór svo
að við beittum 24 bjóð en beitningarmennirnir 56.
Fiskað, gert að og saltað
Fyrsti róðurinn var farinn daginn eftir, og fór leiðangursstjórinn
með hvern einasta róður með Minnu og stjórnaði veiðunum þaðan.
Yfirleitt var veiðin eftir hverja lögn sem svaraði í eina fulla stíu
á þilfarinu. Úr þessari stíu hausaði maður yfir í þá stíu þar sem
flatningsmennirnir höfðu flatningsborðið. Aðgerðin tók ekki langan
tíma, svona 1 ½ - 2 tíma. Minna lagðist að stjórnborðshlið Eldborgar
og Fram að bakborðshliðinni. Þá var fiskinum kastað yfir til okkar og
að því loknu hófst aðgerðin. Fiskurinn er hausaður, flattur og síðan
rennt í þvottakerið, þveginn og rennt niður í lest þar sem Jóhann og
Garðar söltuðu þorskinn. Þegar áhöfn á Minnu og Fram höfðu losað
fiskinn yfir til okkar, komu þeir bjóðunum yfir í Eldborg og tóku
nýjan skammt til næstu lagnar, sem voru 40 bjóð á bát. Karlarnir á
bátunum lögðu sig svo til miðnættis, en þá var lagt upp í nýjan róður,
sem stóð til kl.15:00 að þeir komu til baka með afla.
Í Færeyingahöfn var lítil byggð, loftskeytastöð, sjúkrahús eða
sjúkraskýli og sjómannaheimili. Ekki man ég eftir fleiri stofnunum
þar. Öll skip lágu við akkeri og varð að fara á milli þeirra á bát,
róandi, nema að þau lægju síbyrt, hvort utaná öðru og annað þeirra
með akkeri úti. Þarna hófust fyrstu róðrarnir, en síðan var haldið
norður á Diskoflóa sem er á 68°Norður og 53°vestur. Á eyjunni Disko
var Godhavn. Þar komum við ekki í land en í Jakobshavn komum við
og til Hans Egedesminde; þar tókum við tollara danskan og var sá
í embættisklæðum. Til Holsteinsborgar komum við einu sinni með
Fram. Það bilaði vélin í honum og tók tvo daga að gera við hana.
Á meðan þá lögðum við á Eldborg lóðirnar hans út á fiskibanka og
drógum þær, og fékkst þá reynsla á hvað gufudrifið línuspil reyndist
framúrskarandi vel.