Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 162
162 Borgfirðingabók 2008
. . . og síðan ís
Nú kom í ljós að ísinn og saltið í beitukassanum var farið að rýrna
svo að okkur skorti ís. Í Grænlandi var enginn ísframleiðsla. Tók
Gunnar skipstjóri það ráð að leggja Eldborginni að ísjaka sem var á
reki utan við Fiskimeistarans höfn. Hann lagði stjórnborðs kinnungi
Eldborgar að jakanum. Var þá stokkið út á jakann, vír dreginn út frá
stefninu og utanum jakann og settur fastur aftan á stjórnborðshlið
skipsins, og var svo híft í vírinn á akkerisspilinu og jakanum þrýst að
stjórnborðsbóg Eldborgar. Þá fóru 3-4 strákar út í jakann með exi og
önnur tól til að höggva ís og losa, moka honum í körfur og rétta um
borð. Þarna voru margar hendur til starfsins og gekk þetta vel.
Nú, við lönduðum 4-5 sinnum yfir sumarið í fisktökuskipin, sem
voru gömul gufuskip fyrir utan Madonnu sem dró vistaprammann
frá Hollandi til Grænlands. losun úr Eldborg fór þannig fram að
liði var skipt. Helmingur liðsins fór um borð í fisktökuskipið til að
taka á móti fiskinum og stafla honum í stæður og strá salti í, en hinn
helmingurinn reif upp fiskinn í lest Eldborgar og setti í ferhyrndan
kassa sem var hífður upp úr lest Eldborgar með bómu og spili
fisktökuskipsins. Þar var kassanum slakað á vigt og þungi fundinn
en þyngd kassans dregin frá. Þar fór saltfisksmatsmaður höndum um
hvern kassa og mat fiskinn, síðan sagði hann þeim sem tóku á móti
fiskinum í lestinni hvar skyldi setja hann. Stæðurnar í lestinni voru
þá fyrsta, annars eða þriðja flokks stæður eða úrkast. Þegar losun á
fiski var lokið og þurfti að taka salt um borð í Eldborg þá mokuðu
þeir sem tóku á móti fiskinum salti í stálmál sem tók 500 kg sléttfullt,
og var það híft um borð í Eldborg og sturtað úr því niður í lest; þar
mokuðum við saltinu í þær stíur sem Jóhann og Garðar saltarar sögðu
okkur og gerðum lestina alveg klára til næstu móttöku.
Grænlenski þorskurinn var mjög vatnsmikill og þegar búið var
að umstafla honum tvisvar var hann hreint eins og blað eða roð og
hryggur. Fiskmatsmaðurinn hélt löndunarbók fyrir hvert skip og
útreiknaða kílótölu sem landað var. Þá taldi hann þau saltmál sem
hífð voru um borð í Eldborg. Á meðan á löndun stóð tóku kokkarnir
þeir Geir og Roy kostinn um borð, og að lokinni löndun var farið frá
saltfisktökuskipunum og að frystiskipunum sem voru þrjú, Ström, Rex
og Kolástindur, og tekin beita og henni komið fyrir í beitukössunum.
og ef við vorum með lúðu frá síðustu lögn þá var hún seld um borð
í frystiskipin, annars var hún flökuð og hert, og átti ég þrjá poka af
hertri lúðu.