Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 174
174 Borgfirðingabók 2008
(Önnur þeirra fannst svo við byggingarframkvæmdir árið 1929 og er
nú geymd á Þjóðminjasafni Íslands sem hluti af gufulögn).
Snorri vissi að í Skarðsheiðinni var að finna sérlega góðan leir
með mikilli samloðun. Þarna í fjallinu er mikið af líparíti og er þessi
leir set frá síðasta jökultíma. (Bjarni Vilmundarson á Mófellsstöðum
(f.1928) segir að þar í Mógilinu sé deigulmóinn aðeins að finna á
takmörkuðu svæði í þunnu lagi niðri við klöppina. Hann er nærri
hvítur og mun áður fyrr hafa verið notaður við hleðslu á eldstæðum
(hlóðum). Á fyrri hluta tuttugustu aldar var hann einnig notaður
til viðgerða á gömlum eldavélum). Ofan á deigulmónum og víðar
í Mógilinu var mikið af ljósgulbrúnum leir sem hentaði vel í botn
skurðarins og síðan til fyllingar og þéttingar milli steina í reykrásinni.
Frá Mógili að Reykjaholti var um hálfs dags lestarferð og varð
að flytja leirinn alla þessa leið að sumri til í stórgripahúðum á
klyfjahestum. Einhverju sinni, þegar verið var að reiða leirinn heim,
lét Snorri grafa ferhyrnda holu heima á bæjarhólnum sem nota mátti
til að blanda leirinn vatni og gera hann meðfærilegan. Gryfjuna átti
að klæða með timbri til að leirinn héldist hreinn, en síðar kom í ljós
að einfaldara og betra var að blanda hann á stórgripahúðunum á
notkunarstaðnum. Til að mönnum yrði nú ekki fótaskortur í gryfjunni
var hún bara fyllt með viðarkolum til geymslu. Húskarlinn, sem
hellti úr kolasekknum, hefur trúlega ekki grunað að kolin yrðu
þarna óhreyfð næstu aldirnar, ekki heldur að löngu yrði hætt að nota
viðarkol við eldsmíði þegar þau yrðu næst barin augum. Snorri lét
einnig safna saman flögumynduðu eða skarphyrndu holtagrjóti ásamt
mismunandi stórum hveragrjótshellum, en allt þetta grjót, sem átti
að nota í reykrásina, var svo dregið heim að vetri til á harðfenni.
Gólfhitakerfi
Snorri lét grafa hæfilegan skurð eða rás í vesturátt frá Skriflu upp
á bæjarhólinn að fyrirhuguðum notkunarstað. Reyklögnin var gerð
þannig að byrjað var á að leggja leirlag í botninn á skurðinum, síðan
var raðað hæfilegum steinum á það og varð þá til U- laga lögn, vel
spönn í þvermál. Milli steina var fyllt með leir, hellur lagðar yfir
lögnina og að lokum þakið með torfi.
Þak var tekið af og hreinsað út úr gömlu húsi skammt norðan
búningsklefans og hveragrjót síðan lagt ofan á leirlag sem sett hafði