Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 176
176 Borgfirðingabók 2008
Líður að lokum
Að mörgu hafði Snorri þurft að hyggja og ýmsum áformum að
breyta eftir því sem verkinu miðaði áfram. Sífellt þurfti að fylgjast
með, leiðbeina og taka til hendi þar sem flest þau verk, sem þarna
voru unnin, voru mönnum framandi. Þurft hafði að rjúfa austurvegg
virkisins til að koma reyklögninni fyrir og kom sér því vel að ekki
var ófriður þessa stundina. Engin ástæða var því talin til sérstakrar
varðstöðu. Nú var stutt í að hægt væri að hleypa jarðreyknum á
hitakerfið og sjá hvernig það virkaði. Þannig stóðu mál að kvöldi
dags þann 22. september árið 1241. Næstu nótt sá Snorri fram á
stöðvun þessa síðasta Skrifluævintýris síns sem hann hafði unnið að
af miklum áhuga undanfarin misseri. Hann vissi vel að enginn annar
hafði þekkingu, vilja eða getu til að leiða verkið til lykta þegar hann
sagði sín síðustu orð: „Eigi skal höggva“.
Eftirmál
Snorri og Hallveig Ormsdóttir höfðu á sínum tíma gert helmingafélag.
Hún var nú látin fyrir nokkru, en sonum hennar, þeim Klængi og Ormi,
hafði ekki tekist að ná föður- og móðurarfi sínum úr hendi Snorra,
sem hafði legið á honum eins og ormur á gulli. Gissur Þorvaldsson
hafði tekið að sér að hjálpa þeim bræðrum að rétta hlut þeirra í
arfsmálinu. Klængur var með Gissuri í herförinni í Reykholt og tók
hann þegar við búsforráðum þar eftir víg Snorra. Nú var friðurinn
úti og var eitt af fyrstu verkum hans þar að láta fylla upp í skarðið í
virkisveggnum og var þá reykrásin felld saman til að ekki yrði holt
undir veggnum. Gufuskálinn átti nú að fá nýtt hlutverk og nafn við
hæfi. Fyllt var í gryfjuna sem var í miðju gufuskálans með leir og
steinarusli. Rýminu við langhliðarnar var skipt upp í átta stutta bása
eða skot sem hvert um sig var vel þrjú fet á breidd. Til þess voru
hlaðnir upp þrír grjótbálkar við hvora langhlið, hver um sig um tvö
fet á hvorn veg og álíka á hæð. Efnið í þá var m.a. tekið úr gólfinu í
forskálanum, enda hæg heimatökin. Efst á þessum bálkum voru stóru
hveragrjótshellurnar sem átt höfðu að vera yfir enda reykrásarinnar
í forskálanum. Allar hellurnar áttu að bera stoðir til að halda
þakinu uppi, og á þær var einnig þægilegt að geta lagt eitthvað, t.
d. vettlinga.
Líkur benda til að Klængur hafi viljað minnka veg Snorra og