Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 178
178 Borgfirðingabók 2008
sjö aldir kom svo í ljós að ofan á því var mjög sérkennilegt lag sem
lá yfir öllu gólfinu og var allt að tæpri alin á dýpt. Þetta lag var dökkt,
mjög þétt og lyktaði enn illa eftir allan þennan tíma. Í þessu þykka
gólflagi var víða að finna óreglulega flekki úr leir. Fyrir þá, sem vilja
spreyta sig á gátum, eru hér með komnar nokkrar vísbendingar um
nýtt hlutverk og nafn skálans.
Enn vil ég minna á að tilgátur um aðkomu Snorra og annarra
tilgreindra manna að Skrifluævintýrunum og tengdum atvikum er
hvergi að finna með beinum hætti í samtímaheimildum. óbeinar
frásagnir tel ég samt að sé víða að finna. Þegar þær eru settar í
tímaröð framkvæmdanna má finna þá sennilegu atburðarás sem
hér á undan hefur verið sett fram í frásagnarformi. Rétt er að taka
hér einnig sérstaklega fram að ýmsar ályktanir mínar um efnivið úr
fornleifarannsóknunum í Reykholti eru aðeins tilgátur. Ég hefi reynt
að nálgast þetta verkefni á svipaðan hátt og oft er gert þegar verið
er að leita að óþekktum höfundum gamalla ritverka og verður þar
að virða viljann fyrir verkið. Enn minnist ég þess að á barnsaldri fór
ég af miklum áhuga einn á Forngripasafnið í Reykjavík til að reyna
að upplifa þar hin gömlu ævintýr. Ferðir mínar til höfuðborgarinnar
voru þó á þeim árum ekki svo ýkja margar.
Eftirhreytur
Þegar rætt er um hitaveitu í Reykjaholti á þrettándu öld er ekki
úr vegi að geta um sambærilegar framkvæmdir þar á bæ á þeirri
tuttugustu. Þegar skóli var fluttur þangað frá Hvítárbakka var það
vegna Skriflu. Goshverinn Dynkur, sem er lítið eitt sunnar, var ekki
eins heppilegur til virkjunar. Sveinn Björnsson á Varmalandi, sem
alla ævi hefur dvalið og starfað þarna í næsta nágrenni, hefur eftir
Jóni ingólfssyni á Breiðabólstað, sem var fæddur 1891, að áður
fyrr hafi gosin í Dynki náð nokkurra metra hæð. Sveinn (f. 1945)
og Jónas Kjerúlf (f. 1939), sem einnig ólst þarna upp á sama tíma,
segja að heitt vatn hafi verið leitt sjálfrennandi í steypta þró sunnan
og neðan skólans og notað í þvottahús og fleira. Í þrónni var komið
fyrir millihiturum sem voru á lokuðu ofnakerfi skólans og þar var
einnig komið fyrir útbúnaði til að hita upp kalt vatn sem var notað í
sundlaugina en hún var inni í skólahúsinu. Gufan, sem bullaði upp
úr Skriflu, var leidd upp í brekkuna norðan skólahússins í steypta