Borgfirðingabók - 01.12.2008, Side 189
189Borgfirðingabók 2008
„Borgir og byggðajafnvægi“, árið 1988 „Borg og byggðir“ og síðan
ofangreinda grein árið 1995.
Valdimar gengur ekki svo langt í sinni grein að halda því fram að
höfuðborg Íslands hefði átt að vera annars staðar en hún er. En í grein
sinni segir hann m.a. undir fyrirsögninni „ótraust undirstaða“:
Önnur breyting, sem lítill gaumur hefur verið gefinn, er sú hvernig
íslenska þjóðin hefur smám saman verið að færa sig æ meira yfir
á jarðskjálftahættusvæði landsins. Lauslega áætlað bjuggu um 57%
þjóðarinnar á slíkum svæðum 1920, en 82% 1994, enda voru nær
allir fólksfjölgunarstaðir á þeim svæðum.
Í alþýðlegum fræðum voru þeir taldir flón sem settu öll egg sín
í eina körfu. Hér er vonandi ekki hægt að jafna saman, en í raun
ætti ekki að teygja Reykjavík nær sprungusvæðum. Hafnarfjörður
hefur byggst nægjanlega út á hraunbreiður og frekara þéttbýli á
Suðurlandi yrði væntanlegra öruggara í Þorlákshöfn en á Selfossi
og í Hveragerði.
Valdimar leggur síðan til að þéttbýlið verði þróað til norðurs inn
í það landssvæði sem nú tilheyrir Hvalfjarðarsveit og þar verði reist
borg sem hann gefur nafnið Akraborg.
Við norðanverðan Leirárvog (Grunnafjörð) og að Eiðisvatni, á
leiðinni á milli Akraness og Borgarness, er að finna flest það sem
hæfa myndi bæ eða borg. Jarðmyndun er þar tiltölulega traust, að því
er best er vitað, og jarðvegur sennilega heppilegur fyrir byggingar.
Vannýtt hitaveita er í nágrenninu, sem síðar má efla eftir þörfum
og eflaust gnægð af góðu, köldu vatni. Útivistarsvæði í nágrenninu
eru bæði falleg og fjölbreytileg. Stutt er í hafnir bæði við Akranes
og Grundartanga og áætlað er að grafa göng undir Hvalfjörð, sem
tryggja munu tengsl við höfuðborgarsvæðið. Þessi nýja „Akraborg“
hlyti því ýmislegt í vöggugjöf.
Valdimar bætir enn fremur við:
Borgarmyndun norðan Hvalfjarðar myndi færa landið saman
samgöngulega séð. Frá Borgarnesi, sem yrði útvörður þéttbýlisins
í norðri, er að meðaltali klukkustundar akstur út á Snæfellsnes, en í
Húnavatnssýslur, Skagafjörð og Eyjafjörð er um tveggja til fjögurra
stunda akstur. Mikil samskipti gætu því orðið milli íbúa „Akraborgar“
og Snæfellsness atvinnulífinu til eflingar, og meginhluti Norðurlands
reyndar ekki langt undan heldur.
Valdimar er nú kominn á eftirlaun, en ég hef rætt við hann um