Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 194
194 Borgfirðingabók 2008
Árið 1914
Um nýárið gjörði þíðu kafla er hélst fram á þorra. Upp úr því komu
talsverðir snjóar, og á góu og einmánuði voru norðannæðingar og
frost alla daga. Tók lítið í á daginn. Jörð var óholl, en fénaði alltaf
beitt. Vatn náðist illa í, kom víða óhreysti í fé og ágerðist hún að
mun er fram yfir páska leið, því þá byrjuðu umhleypingar er héldust
lengi vorsins. Féll fénaður unnvörpum víða. Mest ollu því lungna- og
garnormar, sem afskaplega gjörðust magnaðir þá. Unglömb hrundu
og einnig niður, bæði af fóðurskorti og hrakviðrum. Hljóta lengi að
verða í minnum manna erfiðleikar þeir sem þá var við að stríða með
fénaðinn, þeirra er þeim störfum gegndu.
Heyannatíminn var erfiður. Úrkomur miklar svo hey hröktust.
Grasspretta var þó í meðallagi. Garðávextir spruttu þetta ár vel.
Haustið var rosasamt. Snjó gerði fádæma mikinn í jólaföstu
byrjun. Varð að taka fé á fulla gjöf er hélst til jóla.
Í júlímánuði kom upp Norðurálfuófriðurinn er var upphaf margra
erfiðra tíma og olli ýmsum byltingum í heiminum.
Þetta ár má telja yfirleitt með hinum lakari hvað tíðarfar snertir
sem gjörast hér.
Árið 1915
Veturinn frá nýári var hagasamur með afbrigðum, svo víða gengu
tamin hross úti. Veturgamalt tryppi sem fært var frá móður sinni árið
áður kom hér ekki í hús og var þó í ágætu standi. Vorið var hlýtt og
skepnuhöld ágæt. Var víða gefið fé talsvert af fóðurbæti, lýsi og síld.
Heyin voru slæm frá sumrinu á undan og bændur voru hræddir um
ormaveiki aftur, þorðu því eigi annað en gefa fé vel um veturinn.
Afklæddist það (þ.e. fildaðist (?). innskot ritstj.) og ágætlega.
Grasspretta var góð um sumarið og nýting einnig. Var því
heyskapur með besta móti yfirleitt í héraði. Haustið var gott og
skepnur í hækkandi verði. Má því telja árið 1915 með betri árum
fyrir bændur sem þurftu lögunar við eftir árið á undan.
Árið 1916
Veðrátta var góð frá nýári fram á þorra, snjólétt og frostlítið. Með
þorra byrjuðu stórfelldir umhleypingar, varð þá að taka flest hross á